26.02.1926
Neðri deild: 15. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 650 í C-deild Alþingistíðinda. (2282)

39. mál, stöðvun á verðgildi íslenskra peninga

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg gleymdi að svara spurningu háttv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) um það, við hvað jeg átti, er jeg talaði um „að svíkja gjaldeyrinn“. Jeg átti við það, ef löggjafarvaldið ótilneytt lækkar verðgildi gjaldeyrisins. Þetta frv. fer fram á, að það verði gert. Það er engum blöðum um það að fletta, að verðlagið í landinu er ekki ennþá búið að laga sig eftir gengishækkuninni, og ef reikna á út verðgildi peninganna eftir verðlaginu eins og það er nú, hlýtur gengið að verða lægra en það er. Nema þá að svo lengi standi á þeim útreikningi, að verðlagið geti lagað sig eftir genginu á meðan. En jeg hjelt, að háttv. flm. frv. (TrÞ) vildi ekki bíða eftir því. En jeg kalla það svik á gjaldeyri, ef hann er lækkaður að nauðsynjalausu.

Um gengisnefndina er það að segja, að lögin ákveða, að hún skuli bundin þagnarskyldu, án þess að tiltaka neitt nánar, í hverju það er fólgið; en það hafa aldrei verið lagðar fram neinar skýrslur um störf nefndarinnar. Háttv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) virtist ekki skilja það, sem jeg hafði sagt um innstæður þær, sem hafa orðið innlyksa í landinu. En jeg benti á það, samkvæmt upplýsingum, sem fram komu áðan á þessum fundi hjer í deildinni, að svo hefði farið, þrátt fyrir varúð bankanna, að 3 milj. króna af erlendu fje væru nú bundnar í atvinnuvegunum. Jeg benti á það, að reynslan sýndi, að svona gæti farið, þrátt fyrir mikla varúð frá bankanna hálfu. Jeg fer ekki að rekja það, hvernig þetta hafi átt sjer stað, en það er auðskilið, að svona fer, ef ekki er hugsað ítarlega um, hvað er að gerast. Það er málinu óviðkomandi, hvort þessar innstæður hafa verið sendar til að kaupa fyrir íslenskar afurðir, eða til annars; það gerir engan mismun, því það er hægt að geyma þær, án þess að þær renni til atvinnuveganna, þó að þær eigi að vera til að kaupa fyrir afurðir, sem ekki eru fallnar í gjalddaga. Í öðru lagi hafa „spekúlantar“ auðveldar leiðir til að ávaxta fje sitt. Í Danmörku stóð þeim opið að kaupa verðbrjef, og þegar þeir vilja draga fjeð inn aftur, eru brjefin seld. Það tjáir ekki að vísa til þess, að „spekúlationir“ skapi kreppuna. Þess eru svo mörg dæmi, að menn hafa „spekúlerað“ í von um hækkun, og orðið að trú sinni. Því verður ekki neitað, að slíkt getur heppnast.

Háttv. þm. (ÁÁ) lagði áherslu á það, hvort fjársöfnun þessi hefði verið eðlileg eða óeðlileg. Það er mjög erfitt að draga þar merkjalínurnar. Jeg skal nefna dæmi: Erlendur maður kaupir hjer fisk, og kaupir hjer um leið íslenskar krónur til að borga hann með. Hann sendir hjeðan fiskfarm til útlanda, en hann kaupir nýjar íslenskar krónur til að borga með farminn, því hann vill heldur geyma hinar, sem hann keypti áður. Það er því fullerfitt að draga markalínur milli afurðakaupa og „spekúlationa“. Þessi maður hefði getað haldið áfram að kaupa íslenskar krónur meðan á hækkuninni stóð; hann hefði getað keypt meir og meir, eftir getu sinni í því efni; en þegar hækkunin hættir, hætta öll slík kaup.

Menn virðast hafa aðeins tvær afstöður í þessu máli, — hækkun eða stýfingu. Jeg skal játa, að það er hægt að hindra gengisbrask með stýfingu. Jeg hygg, að háttv. þm. Str. (TrÞ) hafi álitið svo í sumar, og viljað þá þegar stíga fyrsta sporið til stýfingar. Mál þetta er of flókið til þess, að það verði skýrt með dæmum um dósamjólk.

Háttv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) vitnar í Svía. Þeir hafa stýft einu sinni áður, um miðja síðustu öld, þá einir allra Norðurlandabúa, sem það gerðu. Þeim, Svíunum, hefði núna verið ósárt um, þó hinar allar Norðurlandaþjóðirnar hefðu stýft sinn gjaldeyri, því þá hefðu þeir staðið einir eftir með hreinar hendur. Þegar þeir stýfðu forðum, fengu þeir að kenna á afleiðingunum. Um 50 árum síðar urðu þeir að greiða margfalt hærri vexti af ríkisskuldum sínum en ella.

Við háttv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) eigum enga samleið. Jeg er hækkunarmaður, og jeg trúi því ekki, að þetta verði svo erfitt, að kosti kyrstöðu um 10 ár o. s. frv. Jeg er sannfærður um, að sömu grundvallarreglur gilda enn um þjóðfjelag okkar og undanfarna áratugi. Öll okkar afkoma veltur á því, að fá það verð í gulli fyrir afurðir okkar, sem við þurfum. Þegar við höfum fengið sanngjarnt verð fyrir afurðir okkar, hefir alt gengið vel, en hafi verðið lækkað, hallar okkar hag, og svona verður það í gengismálinu einnig.