26.02.1926
Neðri deild: 15. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 653 í C-deild Alþingistíðinda. (2283)

39. mál, stöðvun á verðgildi íslenskra peninga

Flm. (Tryggvi Þórhallsson):

Það mætti nú margur ætla, að jeg vildi segja margt um þetta mál, en svo er þó ekki, og er það fyrst af þeirri ástæðu, að jeg tók það fram, þegar jeg bar fram þetta frv., að jeg óskaði ekki eftir að fá miklar umræður um það nú, nje vekja miklar deilur, og í öðru lagi vil jeg taka það fram, að jeg vildi helst láta það komast sem fyrst til nefndar, en nú er fundartíma að verða lokið, vildi jeg því óska, að því yrði vísað til nefndar í dag, og að ekki yrði lengri umræður að sinni. En jeg get ekki látið hjá líða að mótmæla algerlega þeim orðum hæstv. fjrh. (JÞ), að það liggi beint í frv. mínu að skapa viljandi svikinn gjaldeyri. Jeg þykist vita, að hæstv. ráðh. (JÞ) er svo vel að sjer í þessum greinum, að hann veit, að allir fræðimenn á þessu sviði fullyrða, að það sje ekki viðlit að stöðva verðgildi peninga á öðrum verðpunkti en þeim, sem jeg hefi nefnt í frv., sem sje á raunverulegu verðgildi peninganna innanlands. Að kalla það að vilja skapa viljandi svikinn gjaldeyri, verð jeg fastlega að mótmæla, og jeg vil halda mjer við grundvöll fræðimannanna, hver sem endirinn verður. Hæstv. ráðh. (JÞ) segir, að krónan þurfi þá mjög að lækka, og sama segir hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh); jeg vil ekkert um það segja, reynslan verður að skera úr því.

Jeg get líka skotið því inn um leið, að dæmið um fiskkaupmanninn, hjá hæstv. ráðh. (JÞ) verður altaf eftir því, hvernig ástandið er í það og það skiftið; tilgangurinn er altaf og verður altaf sá, að fá verðfasta peninga. — Mjer er því ljúfara að lengja ekki þessar umræður, sem jeg er yfirleitt mjög vel ánægður með þær. Mjer þykir vænt um, að það er hv. 2. þm. Reykv. (JBald), sem er sá eini í þessari deild, sem setur sig við hlið hæstv. ráðh. (JÞ), en hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) og hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh) setja sig mjög við mína hlið í þessu máli. Vona jeg, að það viti á það, að endalokin verði góð í þessu máli, og á það, að ekki verði blint flokksfylgi látið ráða í málinu, heldur þörf þjóðarinnar.