06.05.1926
Neðri deild: 72. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 657 í C-deild Alþingistíðinda. (2300)

39. mál, stöðvun á verðgildi íslenskra peninga

Frsm, meiri hl. (Jón Auðunn Jónsson):

Þetta mál hefir nú verið nokkuð rætt á undanförnum þingum og einnig í blöðunum. Það má og segja, að það hafi oft borið á góma hjer í deildinni, þó það hafi ekki verið á dagskrá. Fjhn. Nd. hefir haldið nokkra fundi, eingöngu um þetta mál, og niðurstaðan hefir orðið sú, að nefndin hefir klofnað um það. Jeg skal geta þess, að það þurfti að koma nál. meiri hl. í prent í gærmorgun, og nefndarmenn höfðu ekki tíma til þess að lesa það yfir. Má því vera, að einhver atriði sjeu í því, er þeir hefðu kosið að orða öðruvísi.

Frv. það, sem hjer liggur fyrir, er í mesta máta „principmál“. Það ræðir um festing íslensku krónunnar og stýfing hennar í lægra gullgengi en lög mæla fyrir nú. Allar hinar hlutlausu þjóðir hafa kept að því, að halda peningum sínum í gullgengi, engin þeirra hefir ennþá fært niður gildi sinna peninga. Með þessu er ekki sagt, að það geti ekki verið nauðsynlegt fyrir oss, að taka aðra stefnu í gengismálinu og stýfa krónuna, en jeg held, að það sjeu ekki færðar nægar sönnur á, að það sje óhjákvæmilegt fyrir okkur að taka þessa stefnu nú, og því hefir meiri hl. fjhn. ekki getað fallist á frv. á þskj. 50. Menn hafa haldið því fram, að gengið hafi verið sett of hátt síðast liðið haust, og meiri hl. nefndarinnar er sömu skoðunar; að það hefði átt að halda krónunni í lægra gullgengi en hún var skráð að lokum, eða um 81 eyri. En það er hægt að finna ástæðu fyrir því, að gengið var sett svona hátt. En jeg skal ekki tefja tímann með því að leiða rökin fram, því að hæstv. fjrh. (JÞ) hefir gert það og mun gera það.

Það verður ekki hjá því komist, að gengið verði ekki í samræmi við innlenda verðlagið á vissum tímum, það er, fari fram úr verðlaginu, ef á að hækka peningagildið, því ef ætti að bíða eftir því, að innlenda verðlagið lækkaði meðan fyrri skráningar gilda, þá myndu hækkanir vera því nær ófáanlegar, því að einmitt með því að hækka gengið fram yfir það, sem innanlands verðlag segir til, fæst það, að þá lagast fyrst og fremst verð innfluttu vörunnar eftir því breytta gengi, og á þá hitt verðlagið að sjálfsögðu að koma innan ekki mjög langs tíma. Það urðu að vísu stórfeldari hækkanir á gengi íslenskrar krónu á síðast liðnu hausti heldur en venjulega er annarsstaðar. Þó hefir eins hraðfara hækkun átt sjer stað í Danmörku á síðast liðnu ári, og í Englandi um áramótin 1919–20. Það er eðlilegt, að slíkar hækkanir þyngi fyrir hjá öllum framleiðendum, sem byggja að mestu sína framleiðslu á erlendum markaði, eða að selja vöru sína til útlanda; hinir, sem selja vöru sína innanlands, verða ekki nándar nærri eins varir við þessar sveiflur, vegna þess, að þeir njóta hærra verðlagsins, verðlags innlendu vörunnar, sem altaf kemur á eftir, oft litlu fyr en verkalaun lækka. það viðurkenna allir, að það hafi verið mjög erfiður tími seinni hluti ársins 1925, og það, sem af er þessu ári, fyrir atvinnurekendur, og þá sjerstaklega fyrir sjávarútvegsbændur. En aðalástæðan til þess, að það hefir verið sjerstaklega erfitt fyrir sjávarútveginn, er, að samfara gengishækkuninni, eða litlu eftir það, að gengið hækkaði, lækkaði verð á útflutningsvörum þeirra, bæði síld og fiski, einkum í Svíþjóð og á Spáni, og þá ekki síst á Ítalíu, mjög mikið, og það er enginn efi á því, að sú lækkun á afurðunum hefir gert erfiðleikana miklu meiri heldur en gengishækkunin nokkurn tíma hefir gert, því að það er nú svo, að ef gullverðið hefði haldist óbreytt og verið sæmilega auðvelt að selja fiskinn við því verði, sem var fyrri hluta ársins 1925, þá hefðu afleiðingar gengisbreytingarinnar orðið miklu minni, jafnvel ekki orðið sjerlega tilfinnanlegar. Það, sem mestu erfiðleikunum veldur við hækkun gengisins, er að sjálfsögðu það, að það er svo erfitt, að fá verðlagið innanlands í samræmi við hið breytta gengi, og það mun að sjálfsögðu reynast okkur erfiðast að fá vinnulaunin niður, eins og breytt gengi og þar af leiðandi lækkandi söluverð framleiðslunnar og minkandi tekjur framleiðenda heimta. Jeg er nú nokkurn veginn sannfærður um það, að allir hv. deildarmenn myndu vera hækkunarmenn, ef þeir ættu það víst, að innlenda verðlagið og þá sjerstaklega kaupgjaldið, verkakaupið í landinu, færðist niður í samræmi við það, sem hækkandi gengi heimtar. það er auðvitað ekki hægt að fá þetta alt í einu, en það ætti að geta fengist á 3 mánuðum til hálfu ári, ef alt væri með feldu. Maður verður nú að vænta þess, þar sem verkalýðsfjelögin hafa lýst yfir eindregnu fylgi sínu við það að hækka gildi íslensku krónunnar upp í 100 gullaura, þá hafi þau um leið hugsað að fylgja þeim ráðum, sem til þess eru, að þetta megi verða. Jeg efast ekki um, að svo sje, og að það sje mælt af heilum hug og frá þjóðhagslegu sjónarmiði, að fylgja þessari hækkun. En lægi hjer annað á bak við, þá er auðvitað með því gert ennþá erfiðara fyrir að ná þessu marki, sem verkamenn, ásamt öðrum launamönnum og fjölda annara, vilja keppa að, eða þeir gera það með öðrum orðum algerlega ómögulegt. Það er auðvitað aldrei hægt að komast hjá því, að gengishækkun hlýtur að baka atvinnurekendum tap að einhverju leyti, en ef hægt er að stilla öllu í hóf, eins og vera ber, þá geta líka gengisbreytingar farið fram án verulegrar truflunar á atvinnuvegunum, með því að verðlagið og kaupgjaldið innanlands lagi sig eftir breyttu gengi, og þar við minkandi dýrtíð, því það er ekki eðlilegt, ef gengið í einhverju landi fer hækkandi, að dýrtíðin sje hin sama og áður eða nálega hin sama, miðað við krónutölu, en það er ekki að vænta annars en að atvinnurekendur verði einhvers í að missa við hækkun krónunnar, því að það er ekki hægt að bera á móti því, að þeir urðu hlunninda aðnjótandi, þegar gengið fór lækkandi. Þeir, sem hafa grætt á gengislækkuninni og þar af leiðandi verðlagsbreytingu, þeir hljóta að tapa því aftur, þegar gengið fer á hinn veginn, að verðlagið lækkar og gengið hækkar. Menn greinir ekki svo mjög á um það, hvort gengið sje í samræmi við verðlagið í landinu, en menn líta þar þó nokkuð misjafnt á, sumir segja, að gengið sje svo langt á undan því verðlagi, sem nú er, að ekki sje viðunandi. Það er eðlilegt, að verðlagið sje ekki ennþá komið í samræmi við gengisbreytingu þá, sem varð í haust, vegna þess, að gengishækkunin varð svo mikil á skömmum tíma, en þó hygg jeg, að t. d. verð á aðfluttum vörum sje nokkurn veginn í samræmi við þetta breytta gengi. En það er vitanlegt, að verðlagið á innlendu vörunum og kaupgjaldið er miklu hærra en sem svarar þessu breytta gengi. Við sjáum það eftir seinustu útreikningum Hagstofunnar, þá er vísitöluverðlagið á 33 vörutegundum af innfluttum vörum 234, en á 19 innlendum vörutegundum er það 306. Okkur er nú reyndar öllum kunnugt um, að verðlagið á innlendum vörum er langt fyrir ofan verð á innfluttum vörum, við þurfum ekki annað en líta á reikninga, sem við fáum til heimilis okkar, og ástæðan til þess, að innlenda verðlagið er svo miklu hærra, er auðvitað sú, að varan er framleidd við miklu hærra kaupgjald en það, sem svarar til núverandi gengis krónunnar. Nefndin hefir ekki fengið þær upplýsingar, sem hún var að bíða eftir frá Hagstofu Íslands, um það, hvað væri hið svokallaða kaupmáttarjafngengi íslensku krónunnar. Held jeg, að hagstofan hafi ekki treyst sjer til að gefa um þetta ábyggilegar og óvefengjanlegar skýrslur, að minsta kosti hafa þær ekki komið til nefndarinnar. En menn geta farið nokkuð nærri um það, hve verðlagið innanlands er í samræmi við gengið, með því að leggja til grundvallar annaðhvort heildsöluverð eða smásöluverð. Jeg veit, að smásöluverð er lagt til grundvallar fyrir vísitöluútreikningi hjá okkur, en í öðrum löndum mun venjan vera sú, að nota til þess heildsöluverð. Og annarsstaðar hefi jeg sjeð, að talið er, að smásöluverð muni vera um 12% fyrir ofan heildsöluverð. Jeg skal ekki þreyta hv. þdm. á tölum og útreikningum, en mjer hefir talist svo til, að smásöluverð á innfluttum vörum myndi samsvara nokkurn veginn því gengi, sem við nú höfum, en á innlendum vörum myndi verðlagið samsvara 28 króna gengi á sterlingspundi, og verðlag á almennri vinnu mundi svara jafnvel ennþá hærra gengi á sterlingspundi. Af þessum sökum finst mjer, að við þurfum sjerstaklega að stefna að því, að færa niður innlenda verðlagið. Það er að vísu á leiðinni, en veruleg breyting getur ekki orðið á því fyrri en á þessu sumri, eða jafnvel ekki fyr en kemur fram undir haust. Jafnframt verður þá, ef innlenda verðlagið lækkar, kaupgjald að sjálfsögðu að lækka, og það er enginn efi á því, að það er öllum fyrir bestu, að samræmi haldist á þessum hlutum. Og það er ekki skynsamlegt af almenningi að standa á móti því, að slík verðbreyting á vinnu og verðlagi fari fram. Jeg hygg líka, að það sje skoðun þeirra manna, sem standa fyrir málum verkamanna, embættismanna og annara starfsmanna, sem vinna fyrir föstu kaupi. Náttúrlega eru þar, eins og í öllum flokkum, einstakir menn, sem eru blindir fyrir því, sem þarf að vera og á að vera. En jeg vænti þess, að slíkir menn sjeu í miklum minni hluta meðal þeirra manna, sem fyrir þessu ráða, að þessir menn sjálfir hljóti að viðurkenna, að það er nauðsynlegt að kaupgjaldið lækki, til þess að við getum framleitt vörur, sem eru samkepnisfærar á heimsmarkaðinum, og getum stefnt að því marki að ná gullgildi krónunnar. Þær einustu ástæður, að mínu viti, sem geta valdið því, að við yrðum að „stýfa“ krónuna í einhverju lægra gullgildi en hún hefir, eru þær, að það verði ómögulegt að fá þá verðlagsbreytingu, sem nauðsynleg er innanlands, bæði á kaupgjaldi og vörum, og svo máske sú, að sú þjóðin, sem hefir líkust skilyrði og við, og keppir á sömu mörkuðum og við með okkar útflutningsvörur, að hún „stýfði“ sína krónu. Það eru Norðmenn, sem jeg á hjer við, því að við höfum svo margra hagsmuna að gæta á líku sviði og þeir; við seljum mestallan fisk okkar til Spánar, og þeir selja líka mikið þangað og sömuleiðis til Ítalíu; báðar þjóðir selja síld til Svíþjóðar og eru því keppinautar á þeim markaði. Við seljum þeim mikið af kjöti, enn sem komið er, og gerum það líklega um nokkuð langan tíma enn, þar af leiðir, að það gæti verið okkur erfitt og óhagstætt, máske ómögulegt, að hafa hærra peningagildi en þeir.

Nú eru margar raddir uppi um það í Noregi, hvort eigi að „stýfa“ krónuna eða ekki. Það er þar eins og ávalt verður, að þegar þyngist fyrir fæti, þá vilja menn reyna að ljetta haginn með ýmsum meðulum, og með þeim meðulum, sem þeir þá sjá nálægust sjer. Þannig er það, að einkum í Noregi eru framleiðendur í flestum atvinnugreinum mjög ákveðnir gegn hækkun krónunnar, og sumir vilja fá „stýfingu“. Maður sjer það af áliti gengisnefndarinnar norsku, að það eru margir atvinnurekendur þar, sem vilja fá krónuna „stýfða“, sumir fara svo langt, að þeir segja, að krónan eigi ekki og megi ekki hafa meira en svona 65–70 aura gullgildi. Þetta verður mörgum fyrir, þegar erfiðleikar steðja að, þá vilja þeir leita ráða til þess að draga úr mestu erfiðleikunum, og þannig er það hjá sumum hjer á landi, en maður verður líka að líta á, hverjar afleiðingar þau meðul hafa, sem menn nota. Þær þjóðir, sem staðið hafa utan við heimsstyrjöldina, hafa nú flestar komið peningum sínum í fyrra gullgildi; Danir eru langt komnir, það má segja að þeir sjeu svo að segja komnir í gullgildi, það er örlítið, sem á vantar. Þá eru það Norðmenn og Íslendingar, sem eru eftir, og auðvitað er það, að við eigum, báðar þessar þjóðir, að mörgu leyti erfiðara með að hækka gengið heldur en t. d. Danir. En jeg hygg, að við Íslendingar stöndum ekki ver að vígi en Norðmenn með hækkun gengisins, ef þeir halda þeirri stefnu, sem ennþá virðist vera ofan á hjá þeim, að „stýfa“ ekki krónuna, heldur halda þeirri hugsun, að þeir geti með tíð og tíma komið henni upp í 100 gullaura. Við erum að sumu leyti betur staddir en þeir. Norðmenn hafa feiknamiklar ríkisskuldir, og skuldir hins opinbera þar eru svo miklar, að þær eru taldar 1/3 allra þjóðareigna, sem eru ca. 9500 milj. kr., en allar skuldir hins opinbera eru samtals 3130 milj. kr., þar af eru ríkisskuldirnar 1730 miljónir, en bæjar- og sveitarstjórna 1400 miljónir. Af þessu leiðir, að þeir verða að leggja á sig talsverðar byrðar, til þess að standa í skilum með vexti, þótt lítið sje greitt af þessum skuldum. Á árinu 1924 fóru 23% af öllum tekjum ríkisins til þess að borga vexti af ríkisskuldunum. Af skattskyldum tekjum og eignum allra landsmanna, framtalsárið 1924, fóru 6,6% til ríkissjóðs, en til bæjarsjóða um 17,7%, eða alls af þessum eina gjaldstofni 24,3%, fyrir utan alla óbeina skatta og tolla.

Fyrir utan verðlagsbreytingar, er röskun á eignarverðmæti einn af erfiðleikum gengishækkunar. Þeir menn, er hafa fengið innstæðu í bönkum og sparisjóðum á lággengistíma, græða á því að gengið hækkar. En þeir, sem hafa stofnað skuldir á lággengistíma, verða fyrir þungum búsifjum, því að þeir verða að greiða skuld sína með verðmeiri peningum heldur en þeir tóku á móti.

Þennan agnúa viðurkenna allir, og það er ekkert hægt við þessu að gera, nema skrifa niður innstæður og skuldir. En þetta getur líka valdið misrjetti, þó það sje hugsanlegur möguleiki.

Jeg hefi ekki álitið það ófrávíkjanlega skyldu ríkisins að bæta upp slíka röskun á verðmæti. Og aðrar þjóðir hafa ekki gert það heldur. Það eru t. d. í Þýskalandi og Finnlandi þúsundir manna, er höfðu safnað sjer verðmætum fyrir gengishrunið, er þeir bjuggust við að geta lifað á alla æfi. En er peningagildið breyttist, mistu þeir svo að segja alt sitt. Og það er ekki hægt að neita því, að þeir eru hart leiknir af ríkisvaldinu.

Jeg hygg, að öðru jöfnu, þá sje hollara að hafa peningagildi hátt heldur en lágt. Það skapar meiri sparnaðarhugsun hjá almenningi, eins og margir erlendir fræðimenn hafa bent á, því að ef maður hefir handa á milli verðmikla peninga, sóar maður þeim síður heldur en verðlitlum peningum. Þýskur hagfræðingur gekk svo langt fyrir nokkru, að hann fullyrti, að sterlingspund hafi skapað meira aðhald til sparnaðar heldur en mörkin. Mönnum væri sárara um shillinginn, af því að hann væri brot úr stærri gjaldeiningu, heldur en mörkin, sem voru aðalgjaldeining.

Meiri hl. nefndarinnar vill því ekki útiloka möguleikana til þess að gengi hækki. Vær frv. þetta samþ. nú, er það álit okkar, að gengishækkun væri útilokuð og mætti ganga að því vísu, að krónan yrði „stýfð“ í 75–80 aura gullgildi, eða ef til vill ennþá lægra. Hinsvegar neita jeg því ekki, að þær ástæður geta komið fyrir, að lækka verði krónuna. En sem stendur álít jeg, að þær ástæður sje ekki fyrir hendi.

Það er ekki nema eðlilegt, að erfiðleikar verði á því hjá atvinnuvegunum, að koma verðlagi í samræmi við gengið. En við sjáum ekki ástæðu til þess að „stýfa“ krónuna, meðan ekki er annað sjeð en að þeir, sem miklu ráða, t. d. verkalýðsfjelögin, vilja hækka krónuna í gullgildi. Ef við eigum að „stýfa“ krónuna, þá álít jeg, að við verðum um leið að gera seðlana innleysanlega með gulli. Og jeg hygg, að enginn af þeim þjóðum, sem stýft hafa gjaldeyri sinn, hafi gert það fyr en ákveðin var gullinnlausn á hinu breytta peningagengi.

Það stendur í nál. meiri hl. fjhn., að stjórn Landsbankans hafi lýst yfir því við nefndina, að það muni vera lítil vandkvæði á því að halda genginu óbreyttu, ef það væri yfirlýstur vilji Alþingis, að svo væri gert. Þetta er ekki nákvæmt. Bankastjórnin telur, að til þessa þurfi ennfremur að hafa hemil á útlánum og jafnvel að Alþingi geri ráðstafanir til þess, að ríkisstjórnin taki áhættu að einhverju leyti af gengisversluninni.

Í svari sínu hefir stjórn Landsbankans líka tekið fram, að það muni eigi hægt að hafa fullan hemil ágenginu, þannig, að eigi komi smá sveiflur, en telur líklegt, að hægt sje að halda því óbreyttu ef hemill er hafður á útlánum bankanna og tekið tillit til þess í ráðstöfun Alþingis á fjárlögum. það er nú líka svo, að þótt seðlar væru gulltrygðir, þá væri samt sem áður eigi hægt að halda genginu sveiflulausu — hvað þá heldur eins og nú stendur.

Það er ágreiningur um það, jafnvel innan meiri hl. fjhn., hvort eða að hve miklu leyti ríkissjóður skuli leggja fje til þátttöku í gjaldeyrisverslun. Jeg býst við því, að ef bankinn treystist ekki til þess að halda núverandi gengi sveiflulitlu, þá verði ríkisvaldið að taka í taumana og styrkja hann til þess, annaðhvort með ábyrgð eða fjárframlagi. Það er engin vissa fyrir því, að gengi það, sem nú er, haldist, nema ríkið lofi slíkum stuðning.

Þá eru innan meiri hl. fjhn. skiftar skoðanir um það, hvort fjölga beri atkvæðisbærum mönnum í gengisnefnd. Það er ýmist um þá, sem vilja fjölga, að þeir vilja, að allir, sem nú eru í nefndinni, fái atkvæðisrjett, eða að bætt sje við fleiri mönnum og að allir hafi atkvæðisrjett. Jeg held fyrir mitt leyti, að það sje tilgangslítið að bæta við atkvæðisbærum mönnum í nefndina, nema gengisnefnd sjeu um leið gefnir möguleikar til þess að sjá um, að keypt sje á því gengi, sem meiri hl. gengisnefndar skráir. Því að bankarnir munu ekki telja sjer skylt að kaupa á því gengi ef þeim þykir það áhætta.

Meiri hl. fjhn. getur fallist á orðabreytingar á dagskránni á þskj. 449, ef þær raska eigi þeirri skoðun, er í henni felst.