06.05.1926
Neðri deild: 72. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 684 í C-deild Alþingistíðinda. (2303)

39. mál, stöðvun á verðgildi íslenskra peninga

Jón Baldvinsson:

Jeg frestaði við frh. 1. umr. þessa máls að taka til máls, af því að jeg vildi flýta þeim málum, sem þá voru fyrir, og geymdi því þessi orð mín til 2. umr. það er svo að minsta kosti um stærri málin nú orðið, að það leyfist að tala alment um þau við 2. umr. Nú eru loks komin bæði nál. um frv. hv. þm. Str. (TrÞ); en það er sýnilegt af því, hvað seint þau koma fram, að frv. getur ekki komist í gegn á þessu þingi.

Jeg ætla fyrst að víkja nokkrum orðum að hv. frsm. meiri hl. fjhn. (JAJ) og að einhverju leyti að nál. meiri hl. það er ákaflega mikil áhersla á það lögð hjá hv, frsm. (JAJ), að kaupgjald þurfi að lækka, og eins er í nál. oft og mörgum sinnum vikið að því, að vinnulaun verði og hljóti að lækka. Það er vandalaust að segja þetta, en það verða þá líka að vera þær ástæður fyrir hendi, að slík lækkun geti átt sjer stað. Ef farið er niður úr kaupgjaldsgreiðslu þeirri, sem verkamenn þurfa til þess, að þeir geti komist af, leiðir það af sjálfu sjer, að þeir verða að fá annars staðar að það, sem á vantar. Þá tekur sveitin við, svo skemtilegt sem það er, og þegar hana þrýtur, verður að flýja til Alþingis, og það verður í fyrsta lagi að veita hreppunum lán og síðan gefa þeim þau eftir aftur. Nei; það, sem þessir hv. þm, ættu að athuga, er það, hvað sje sæmilegt kaupgjald. Það, sem á að miða við, er þetta: Hvað verkamannafjölskylda þarf í árskaup til þess að hún geti lifað sómasamlegu lífi. En þetta getur verið dálítið mismunandi á ýmsum stöðum í landinu. Það hefði átt að gera tilraunir af hálfu hins opinbera til þess að rannsaka þetta og einnig vinnuleysistímabilin; með því móti mátti fá nokkurn grundvöll til þess að byggja á, hvað tímakaupið ætti að vera. Að kaupgjaldið geti fylgt öllum sveiflum á markaðsvörum nær engri átt, enda er það svo, að þótt útflutningsvörur standi hátt nokkurt tímabil og atvinnurekendur hafi hagnað af því, þá er ekki venjan sú, að greiða verkamönnum á því tímabili hærra kaup. þessvegna er ekki heldur sanngjarnt að lækka kaupið, þó að afurðirnar falli í verði eitthvert tímabil. Atvinnurekendur vilja taka á sig áhættuna af atvinnurekstrinum og vilja hafa verkamenn fyrir eitthvert ákveðið kaup og þykjast vilja láta svo ráðast, hvort þeir sleppa með það eða ekki. Þegar svo gengur miður, vilja atvinnurekendur láta verkamenn taka þátt í tapinu, og þá árekstra eða vinnudeilur, sem nú eru tíðastar, er ekki hægt að kenna verkamönnum eða bera þeim ósanngirni á brýn, enda er sýnilegt, að verkamenn bera síður en svo of mikið úr býtum. Lággengið bitnaði líka fyrst og fremst á verkafólkinu, og það viðurkendi hv. frsm. (JAJ) að minsta kosti óbeinlínis, því að hann sagði, að atvinnurekendur hefðu hagnast á lággenginu, en það var auðvitað á kostnað verkalýðsins.

Ef það væri rannsakað, sem jeg nefndi áðan, hvað meðalfjölskylda þarf til þess að lifa af yfir árið, þá myndi koma í ljós, að það kaupgjald, sem nú er greitt, er þó nokkuð þar fyrir neðan. Í kaupdeilum hefir stundum verið gert yfirlit yfir það, sem 5 manna fjölskylda þyrfti yfir árið, og þá hafa menn altaf komist upp fyrir þá fjárhæð, sem hugsanlegt er, að verkamenn hefðu í laun.

Í sambandi við hækkun krónunnar má benda á það, að kaupgjald var 1914 of lágt, og ef það ætti að komast á eðlilegan grundvöll, ætti kaupið nú að vera tiltölulega miklu hærra en það var þá, auk þess sem menn gera meiri kröfur nú, bæði hvað snertir húsakynni og mataræði, og þær kröfur eru þó enn allvíða of lágar. En þeir menn, sem sífelt eru að tönnlast á ósanngirni í kaupgjaldsmálum og of háu kaupi verkalýðsins, verða þó að játa, að það hafa farið fram miklar lækkanir á kaupi. Kaup sjómannastjettarinnar hefir lækkað mikið árlega, og hennar kaup reiknast eftir dýrtíð í landinu. Verkamenn í landinu hafa líka lækkað tímakaup sitt svo, að enn frekari lækkanir eru mjög ósanngjarnar.

Jeg get ekki verið samþykkur hæstv. fjrh. (JÞ) um, að kaup eigi að fara eftir framboði og eftirspurn, m. ö. o., að með verkamenn eigi að fara eins og hverja aðra dauða vöru. Jeg álít, að um kaupgjald fólks eigi þó að minsta kosti að taka tillit til þess, að hjer er um lifandi verur að ræða, en ekki dauða hluti.

Þó að jeg sje ekki sammála hv. meiri hluta í mörgu í hans áliti, býst jeg samt við, að jeg greiði atkvæði með till. til rökstuddrar dagskrár. Jeg hugsa, að hún verði, eftir því, sem nú er komið, sú lausn á gengismálinu, sem gæti sameinað flesta. Það má að vísu greiða atkvæði með henni út frá mismunandi forsendum, og jeg hefi mínar sjerstöku ástæður til þess. Jeg held, að það eitt að hindra verðfall peninga myndi verða til þess, að verðgildi íslensku krónunnar hækkaði heldur; að minsta kosti hafa þesskonar ráðstafanir, að hindra verðfall peninga, þótt ekkert væri gert sjerstakt til þess að hækka þá, haft þá verkun annarsstaðar, að peningar þess lands hafa hækkað, ef engin ófyrirsjáanleg atvik hafa komið fyrir. En það eru ekki allir, sem álíta það „praktiskt“ að láta uppi, að stefna eigi að því, að koma peningunum upp í gullgengi, af því að það gæti orðið til þess að gefa þeim mönnum, sem vildu „spekúlera“ í gjaldeyrinum, byr undir báða vængi til þess að hafa óheppileg áhrif í þessu efni. Þessvegna geta þeir, sem vilja festa gjaldeyrinn um stund, án þess að stýfa, og þeir, sem vilja koma honum upp í gullgildi, sætt sig við þessa úrlausn málsins.

Hv. þm. Str. (TrÞ) hefir bæði nú og við 1. umr. sagt margt um gengismálið, og yrði það að sjálfsögðu of langt mál, ef ætti að svara honum orði til orðs. Þessvegna ætla jeg ekki að drepa á nema örfá atriði í sambandi við málið og út af orðaskiftum, sem urðu milli okkar, þegar mál þetta var til 1. umr.

Svo var ýmislegt í ræðu hans þá, sem ekki var rjett.

Hv. þm. (TrÞ) tók svo til orða, að enginn útgerðarmaður vonaðist eftir því, að útgerðin myndi borga sig á þessu ári. Þetta kalla jeg nokkuð freklega fullyrðingu, enda getur hver maður skilið það, að ef útgerðarmenn hefðu slept allri von um það, að hún myndi bera sig, þá myndu þeir alls ekki gera út, en það hafa þeir gert til þessa, hvað sem við tekur, þegar vertíð er búin, því að þótt illa kunni að líta út núna í bili, þá hafa slík tímabil oft komið, að verðfall hefir orðið á afurðum, og menn ekki slept allri von fyrir það, að atvinnuvegurinn geti borið sig. Svipað sagðist hv. þm. Str. (TrÞ) um landbúnaðinn. Hann var að segja sögu af tveimur bændum, sem hefðu orðið að hætta búskap vegna lággengisins. Um þetta atriði verður að sjálfsögðu að taka meira tillit til þess, er hv. þm. (TrÞ) segir, heldur en þegar hann talar um sjávarútveginn, því að bæði hefir hann mikinn áhuga fyrir landbúnaði og hefir sjálfsagt mikla þekkingu á sveitabúskap. Og sje þetta nú rjett, að ungir, efnaðir og duglegir bændur sjeu að flosna upp af jörðum sínum vegna lággengisins, þá hlýtur manni að koma sú spurning í hug, hvort ekki sje eitthvað bogið við búskaparlagið hjer hjá okkur, því sje sá atvinnuvegur svo illa staddur, sem hv. þm. (TrÞ) segir, þá hlýtur hann að vera á heljarþröminni, ef ungir, duglegir og efnaðir bændur treysta sjer ekki til þess að búa. En jeg held, að þetta sje nú eins og hitt, að hv. þm. Str. (TrÞ) líti of svart á hlutina.

Hv. þm. Str. (TrÞ) taldi það hin mestu bjargráð fyrir verkamenn, að peningar landsins hefðu fast og stöðugt gildi. Þessu vil jeg alls ekki neita. En jeg er hræddur um, að hans aðferð til að festa peninga landsins sje ekki óyggjandi. Gæti ekki svo farið, ef nú verður farið að fella peninga í verði, en það er ljóst af öllu, að slíkt er ætlun hv. þm. (TrÞ), að þá verði fallið meira en hann ætlar, og að við fáum nýtt lággengistímabil? En það vil jeg segja hv. þm. (TrÞ), að mesta lággengistímabilið er eitt hið allra versta tímabil, sem komið hefir yfir verkalýð þessa lands. Nú, en hvað er svo þessi stýfing, sem hv. þm. Str. (TrÞ) krefst, að fulltrúi verkamanna fylgi sjerstaklega? Það, sem ómótmælanlega vakir fyrir hv. þm. (TrÞ), er það, að fella krónuna í verði. Síðan á að finna með einhverri rannsókn, sem enginn veit hvernig á að verða, kaupmátt krónunnar innalands og stýfa hana þar eftir kannske svo og svo langan tíma. En á meðan á þessu öllu stendur, á aumingja krónan að vera á sálnaflakki milli þessara „póla“, sem um getur í 3. gr. frv. Og svo er engin vissa fyrir því, að þótt krónan yrði nú feld í verði og reynt að halda henni þar, að ekki komi „samhljóða og sameiginlega“ krafa frá fulltrúum landbúnaðar og sjávarútvegs og heimti enn meiri lækkun, af því að útlitið sje svo vont og ískyggilegt um afkomu atvinnuveganna.

Þetta er sú braut, sem mjer finst að hv. þm. Str. (TrÞ) vilji fara út á, þótt mjer detti ekki í hug að efa það, að hans ætlun er að halda verðgildinu föstu, þar sem krónan er „stýfð“. En hann verður að fyrirgefa það, sá góði maður, þótt fulltrúi verkamanna geti eigi fylgt honum út á þessa braut, því að það er ekki að mínu áliti ráðið til þess, að verkamenn fái fasta peninga. Jeg skyldi vera með því að „stýfa“ krónuna, ef jeg hefði nokkra trú á því, að sú aðferð lukkaðist, en það eru þessi hundrað „ef“, sem eru milli þess að tala um stýfinguna og koma henni fram í raun og veru, sem gera það að verkum, að jeg get ekki verið með frv. hv. þm. Str. (TrÞ).

Jeg hefi aldrei dregið dul á það, að jeg tel það rjett, að við ættum að hafa það markmið fyrir augum að koma krónunni okkar í hið gamla gullgildi. Og þetta tel jeg kleift. Hinsvegar dettur mjer ekki í hug að halda því fram, að það eigi vísvitandi að skapa óeðlilegar gengissveiflur upp á við. En að jeg tel það kleift, að koma krónunni aftur í gullgildi, er af þeim ástæðum, sem jeg gat um við 1. umr. þessa máls, að góðærið 1924–1925 gerði bönkunum kleift að losna við talsvert af erlendum skuldum, og að hagur ríkissjóðs hefir batnað stórkostlega. Þetta hvorttveggja á að mínu viti að gera það mögulegt, að halda áfram stefnu hins háa Alþingis í þessu máli, að hindra verðfali krónunnar og jafnvel stuðla að varlegri hækkun hennar. Það má vel vera, að það sje rjett, sem hv. samþingismaður minn, 3. þm. Reykv. (JakM) sagði við 1. umr. málsins, að ráðstafanir, sem gerðar væru aðeins til þess að hindra verðfall peninga, verkuðu þannig, að gengið hækkaði.

En hvort við eigum að halda þeirri skipun um gengisskráningu og gjaldeyrisverslun, sem nú er, er annað mál. Verði gengisnefnd haldið áfram, þá ætti að minsta kosti að bæta í hana mönnum frá Alþýðusambandi Íslands og sambandi starfsmanna ríkisins, svo sem farið var fram á í fyrra. En mjer finst, að komið gæti líka til mála að fela Landsbankanum málið á þeim grundvelli, að hann sæi um, að ekki yrði verðfall á íslenskum peningum. Þetta er frá mínu sjónarmiði því eðlilegra, sem Landsbankinn var á stríðstímunum og síðar bjargvættur landsins um peningaskifti út á við, þótt öðrum stæði það jafnvel nær þá, og ennfremur af því, að af greinargerð frv. háttv. þm. Str. (TrÞ) er það ljóst, að Landsbankinn hefir haft alla forgöngu gengismálsins á síðast liðnu ári, og að mínu áliti á hann þökk skilið fyrir það, að hann ljet ekki hafa sig til þess að halda verðgildi íslenskra peninga í óhæfilega lágu verði, og að hann sprengdi þá afaróheppilegu ráðstöfun gengisnefndar að halda föstu gengi um ákveðinn tíma, hvernig sem alt veltist.

Í umræðunum um gengismálið hefir oft verið bent á Finnland sem fyrirmynd. Þar hafa peningar að sögn verið festir í 1/10 af upprunalegu verði. Það er náttúrlega ekki saman berandi að hækka peninga úr 10 í 100 eða úr 80 í 100. En þessu má þó gefa gaum.

Af stýfingarmönnum hefir verið talað um þá feikna áhættu, sem bankarnir taki á sig með hækkun peninganna, og það kann náttúrlega vel að vera, að því fylgi tap. Í blaði hv. þm. Str. (TrÞ) hinn 7. nóv. s. 1., er gert að umtalsefni tap, sem danski þjóðbankinn hefir orðið fyrir vegna gengishækkunar. Þetta er svo notað til þess að koma þeirri spurningu að, hvort íslensku bankarnir muni þola tap af gengishækkun, og segir svo í greininni:

„Spurningin, sem valdhafar eiga að svara, er þessi: Þola íslensku bankarnir að taka á sig í viðbót töpin, í ár og síðar, í hundruðum þúsunda og jafnvel miljónum króna, sem beinlínis stafa af gengishækkuninni?“

Þetta er náttúrlega ekki álitlegt fyrir bankana og sjálfsagt rjettara fyrir þá að hallast að stýfingunni, — ef það væri þá nokkuð áhættuminna.

Þessi grein, sem jeg drap á, virðist skrifuð af ritstjóranum sjálfum, og var hún á 1. síðu í blaðinu. En á 2. síðu er grein eftir aðstoðarritstjóra blaðsins og heitir hún „Festing peninga í Finnlandi“. Upphaf þeirrar greinar hljóðar svo:

„Áður er frá því sagt, að í Finnlandi hafi myntin um mörg ár verið fallin og svikin eins og hjer. En síðustu þrjú árin hefir þjóðbankinn finski, oft með miklu fjárláti, haldið markinu nokkurnveginn stöðugu.“

Já, þarna sjer maður það. Á fyrstu síðu er sagt frá miklu tapi banka við að hækka gengið, en á 2. síðu er líka sagt frá „miklu fjárláti“, sem finski þjóðbankinn þyrfti að inna af hendi til þess að halda peningum þeirra „nokkurnveginn“ stöðugum í þrjú ár, svo að myntin yrði hæf til stýfingar.

Athugi menn nú þetta. Að hækka gengið og koma því í gullvirði, kostar bankana fjárútlát. En það kostar líka mikil fjárútlát að undirbúa stýfinguna. — Fara þá ekki rökin fyrir stýfingu, að því, er þessa hlið málsins snertir, að verða nokkuð vafasöm?

Hv. þm. Str. (TrÞ) endaði ræðu sína hjerna á dögunum með bæn, eins og góðum klerki sæmdi. Hann bað verkamennina að fyrirgefa mjer, af því að jeg vissi ekki, hvað jeg gerði. þetta var nú ósköp fallega gert af honum. En skyldu það nú ekki vera fleiri en jeg, sem ekki vita hvað þeir eru að gera, og þyrftu á fyrirgefningu að halda? Jeg er hálf-hræddur um það. — Jeg ætla ekki að enda með því að stíga í stólinn eins og hv. þm. Str. (TrÞ). Slíkt mun ekki leyft óvígðum mönnum. En mig langar til að segja háttv. þm. (TrÞ) sögukorn, sem einu sinni gerðist í kjördæmi hans. Þar fóru einu sinni þrír menn á rjúpnaveiðar, og var einn þeirra útlendur. Bjó hann sig ekki nógu vel til að þola íslenskan vetrarkulda, og varð honum kalt á fótum. Kvartaði hann um það við fjelaga sína. En þeir hafa sjálfsagt verið nokkuð galsafengnir, því að þeir gáfu honum það ráð, sem jafnan hefir verið nefnt „skammgóður vermir“. Maðurinn leiddist til að fylgja þessu ráði; honum hlýnaði í svip, en sagan segir, að hann hafi prísað sig sælan að komast ókalinn heim. — Mjer finst ráð hv. þm. Str. (TrÞ) í gengismálinu eitthvað svipað þessu. Hann vill með því ylja atvinnuvegunum, en gæti ekki farið svo, að það slái að þeim á eftir?

Mjer þykir vænt um, að hæstv. fjrh. (JÞ) virðist nú eindreginn þeirrar skoðunar, að koma beri íslensku krónunni aftur í hið fyrra gullgildi. Vona jeg, að áframhald verði á þessari skoðun hans. En jeg get ekki haft algerlega óbifandi trú á honum í þessum efnum, því að árið 1923 skildist mjer hann vera að predika mönnum lággengi af miklum sannfæringarkrafti. Sagði hann þá meðal annars, að með því fengju menn afslátt á framleiðslukostnaði á vörum sinum. Kallaði hann lággengi læknislyf fyrir sjúkt viðskiftalíf. Það örvaði útflutning, en minkaði innflutning o. s. frv. þessi skoðun hæstv. fjrh. (JÞ) er nú orðin þriggja ára og því úrelt; nú er hann orðinn eindreginn fylgismaður hágengis. — Jeg segi þetta ekki til að vita það, að hæstv. ráðh. (JÞ) hefir skift um skoðun í þessu máli. En hann hefir snúist einu sinni, og þá getur maður ekki verið öruggur um, að hann geri það ekki í annað sinn. (MT: Ætli það yrði ekki 3. sinn!).

Jeg mun greiða atkvæði með dagskrá hv. meiri hl. En jeg hefi þegar skýrt; að jeg geri það af nokkrum öðrum ástæðum en í nál. greinir.