06.05.1926
Neðri deild: 72. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 735 í C-deild Alþingistíðinda. (2311)

39. mál, stöðvun á verðgildi íslenskra peninga

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg mun ekki nú, fremur en áður, fjölyrða um einstök atriði málsins. Hv. frsm. minni hl. (ÁÁ) hefir fullkomlega haldið á málstað okkar festingarmanna að því leyti.

En úr því að nú fer að síga á seinni hluta þessarar umræðu, sem jeg geri ráð fyrir, að verði síðasta umræðan á þessu þingi, vil jeg enn víkja að nokkrum almennum atriðum, jafnframt því, sem jeg geri ráð fyrir, að skiljast við málið að sinni.

Það kom í ljós, sjerstaklega í ræðu hv. 3. þm. Reykv. (JakM), hve mismunandi skoðanir eru í þeim hóp, sem verður nú til þess að koma máli þessu fyrir kattarnef.

Hæstv. fjrh. (JÞ) sagði, að allir væru í rauninni festingarmenn, sumir vildu festa í ca. 80 aurum en aðrir í 100 aurum. Þessa flokka má báða, með miklum rjetti, kalla festingarmenn. En í hópnum, sem fylgir hæstv. ráðherra til að drepa þetta frv., eru líka aðrir. Sumir samferðamenn hæstv. fjrh. (JÞ) vilja fresta öllum ákvörðunum, eins og t. d. 3. þm. Reykv. (JakM), og vita ekkert, hvað á að gera. Og loks eru í hópnum þeir menn, sem greiða atkv. gegn frv. með það fyrir augum, að krónan falli, án þess að hafa hugmynd um, til hvers kunni að draga. Jeg tek það fram, að jeg beini þessu ekki til hv. 3. þm. Reykv. (JakM). En þeir eru samt í þeim meiri hl., er fellir frv. Það vantar því mikið á, að allir megi bera nafnið festingarmenn.

Þá sagði hv. 3. þm. Reykv. (JakM) eitt, sem jeg vil draga fram og mótmæla. Hann sagði, að við festingarmenn vildum kasta okkur út í hringiðuna. En það er einmitt hið gagnstæða. Við festingarmenn viljum losa okkur úr hringiðunni og ná föstum grundvelli. Og við förum þá leið, sem merkustu og bestu menn, sem nú eru uppi, hafa bent til, að farin yrði.

Þá eru það enn tvö atriði, sem jeg vil víkja að. Vænt þótti mjer um það, að hæstv. ráðh. (JÞ) skyldi játa, að hæg hækkun krónunnar væri erfið. Hann tekur þá líklega hjer eftir þátt í því með okkur, að kveða niður tröllatrú manna á því, sem er mjög almenn, að hæg hækkun sje hið æskilegasta og besta. En fjrh. sagði aftur á móti, að margir væru komnir á þá skoðun, að ör hækkun væri ákjósanleg. Mjer finst ástæða til þess að spyrja hæstv. fjrh. (JÞ), hvort hann ætlar að keppa að því eða beita sjer fyrir því, að ör hækkun verði á hinni íslensku krónu. Mjer finst það, satt að segja, liggja beint við að álykta af orðum hans, að hann muni beita áhrifum sínum til þessa. Því ber ekki að neita, að hækkunarmenn í Danmörku eru á þeirri skoðun, enda hrósa þeir nú sigri yfir hækkun dönsku krónunnar. En skoðun þessi er ný og engin reynsla enn fengin. Er það því alveg óverjandi að slá því þegar föstu, að skoðunin sje rjett. Og eftir frjettum, sem jeg hefi frá Danmörku, vil jeg halda því fram, að það muni bráðlega koma í ljós, hve háskalegt var að gera þetta.

Kem jeg þá að síðasta atriðinu, og það er tal hv. frsm. meiri hl. (JAJ) og þó sjerstaklega hæstv. fjrh. (JÞ) um svikin, ef fest yrði verðgildi krónunnar. Fjrh. vildi halda því fram, að sú leið, sem við færum í þessu máli, væri sama og að fremja svik. Jeg ætla að fara nokkrum orðum um þetta, af því að höfuðástæðan fyrir festingu er sú, að jeg er sannfærður um, að við komumst næst rjettlætinu með því að taka það ráð. Það verður ekki hægt að ráða fram úr þessu máli eftir neinni leið, án þess að framið verði eitthvert ranglæti eða svik. En jeg fullyrði, að svikin verða minni með því að festa en hækka, og vísa um það atriði til greinargerðar frv. og rita erlendra fræðimanna. Jeg vildi láta þetta koma fram, án þess að taka upp öll rök og tilvitnanir til hinna færustu manna, enda hefir hv. frsm. minni hl. (ÁÁ) minst rækilega á þetta. En það er persónuleg skoðun mín, að við náum meira rjettlæti með því að fara þessa leið.

Út af dæminu um manninn, sem hafði 100 krónur á vöxtum síðan 1914 og verður nú fyrir miklu ranglæti við festinguna, vil jeg taka annað dæmi, Það er maður, sem tekur 1000 kr. lán, þegar krónan er sem lægst. Þetta lán notar hann til þess að rækta jörðina. En á meðan hækkar krónan, og loks verður þessi maður, sem unnið hefir þjóðþrifaverk, að borga lánið 50% hærra. Þetta er þó miklu þarfari maður þjóðfjelaginu en sá, sem 1914 lagði 100 kr. í sparisjóð, og þetta er miklu átakanlegra ranglæti en hitt.

Jeg ætla ekki að tala meira um einstök atriði, en jeg vil fylgja málinu til grafar með örfáum orðum. Það var samkvæmt kröfu fjhn. Nd., að þetta mál kom inn í þingið. Hún lagði fyrir gengisnefndina að athuga það og koma fram með till. í því. En jeg einn af gengisnefndarmönnunum hefi lagt á mig það verk að undirbúa þetta mál og bera fram frv. viðvíkjandi því. Jeg veit, að það muni falla, og jeg harma það, því að jeg er sannfærður um, að þetta er besta og rjettlátasta lausnin á málinu. Jeg fullyrði, að ráðherra vinnur þennan sigur með atfylgi manna, sem hafa gerólíkar skoðanir á gengismálinu, en sameinast um það eitt, að gera ekkert. Sigur hans verður Pyrrusarsigur, og það mun sannast um hann, eins og um Pyrrus forðum: „Ef hann vinnur annan slíkan sigur, er úti um hann.“

En þó að jeg bíði nú ósigur um þetta frv. mitt, má jeg um margt vel við una. Jeg hefi unnið stórkostlega mikið á í máli þessu. Jeg er viss um, að hundrað sinnum fleiri menn fylgja þessari stefnu nú en þegar jeg hreyfði henni fyrst í fyrra. Þeir verða allmargir hjer í þinginu, sem greiða atkv. á móti þessari dagskrá og fylgja frv. Og sumir þeirra manna, sem hjálpa munu hæstv. fjrh. (JÞ) að koma þessu frv. fyrir kattarnef nú, hafa látið þau orð falla, að ef til vildi, yrði fyr eða síðar að fara þá leið, sem jeg held fram. Jeg get því í raun og veru að töluverðu leyti hrósað sigri um leið og jeg geri ráð fyrir, að þetta frv. muni falla.