06.05.1926
Neðri deild: 72. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 739 í C-deild Alþingistíðinda. (2312)

39. mál, stöðvun á verðgildi íslenskra peninga

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg vil ekki þreyta hv. deild á því að svara hv. frsm. minni hl. (ÁÁ). Aðeins skal jeg benda honum á, hversvegna varð að gefa út millibilsseðlana. Það voru lög frá 1921 um inndrátt Íslandsbankaseðlanna, sem gerðu það óhjákvæmilegt, af því dregið var að gera endanlega skipun á seðlaútgáfunni.

Það var misskilningur hjá hv. 3. þm. Reykv. (JakM), að þessi rökstudda dagskrá væri stíluð til stjórnarinnar. Það þarf ekki að liggja í henni neitt til stjórnarinnar. Jeg get viðurkent það, að hún snúi sjer til stjórnarinnar að því leyti, sem hún fjallar um aðgerðir af hennar hálfu eða meðferð á ríkisfje.

Jeg skal lýsa því, hvernig jeg skil dagskrána að því er snertir aðgerðir í málum, sem jeg get ímyndað mjer, að til stjórnarinnar muni koma. Jeg skil till. svo, sem stjórnarvöldin eigi ekki að gera neitt það, sem gæti gert stýfingu óhjákvæmilega eða hindrað eðlilega hækkun krónunnar síðar meir, ef svo ber undir. Jeg skil till. ennfremur svo, og get þar einnig vísað til viðtals við meiri hl. nefndarinnar, sem ekki sje ætlast til þess, að ríkissjóðsfje sje lagt í verulega áhættu til að afstýra gengissveiflum á árinu, en þó sje ekki tilætlunin að binda hendur stjórnarinnar beinlínis í því efni.

Út af ummælum hv. flm. (TrÞ) skal jeg geta þess, að jeg var ekki beinlínis að lýsa minni skoðun á kostum og löstum hægfara og hraðfara hækkunar. Jeg var að lýsa breytingum þeim, sem alment hafa orðið á skoðunum manna um það efni á síðustu tímum. En þessi reynsla manna um öra hækkun er svo ný, að ekki er hægt að byggja beinlínis skoðun sína á þeirri reynslu.

Háttv. flm. spurði, hvort jeg vildi beita áhrifum til þess að stöðva mjög öra hækkun krónunnar. Jeg hefi sagt áður, að svo miklu leyti, sem þessi mál geta farið eftir mínum vilja, byggi jeg ósk mína og von um hækkun krónunnar á velgengni atvinnuveganna, að hún komi á eðlilegan hátt. Hvernig jeg beiti áhrifunum fer eftir því, hvernig á stendur fyrir atvinnuvegunum. (TrÞ: Á þá gengið að lækka, ef illa gengur?). Þar tek jeg undir með hv. 3. þm. Reykv. (JakM), að reynt mun í lengstu lög að verjast því, að sveiflur fari með gjaldeyrinn á ringulreið. Enginn þarf að ímynda sjer, að hægt sje að bæta úr örðugleikum slæms árferðis með því að lækka gjaldeyrinn í verði.

Jeg skil vel, að hv. flm. (TrÞ) vilji ekki láta mann, sem tekið hefir 1000 króna lán til jarðræktar; komast í þá raun að borga þær aftur hærra verði. En löggjafarvaldinu til afsökunar má færa það, að þegar maðurinn tók lánið, voru landslögin þannig, að hann varð að vera við því búinn að greiða aftur gullgildi peninganna. Hinsvegar hafði sá, sem lagði fje inn í sparisjóð 1914 enga ástæðu til að búast við, að hann með lögum yrði sviftur þeim rjetti, að fá fje sitt greitt aftur fullu verði. Dæmið var annars klóklega valið hjá hv. flm. (TrÞ), og vissulega hefði honum ekki verið eins ant um þennan skuldunaut, ef hann hefði tekið lán til þess að versla, t. d. með sement.

Jeg tel engan óstyrk í því fólginn, þó að þeir menn, sem nú standa á móti frv., hafi mismunandi hagsmuna að gæta. Jeg tel það einmitt styrk hækkunarstefnunnar, að um hana sameinast menn, sem að öðru leyti hafa mismunandi skoðanir. En það er af þeirri ástæðu, að mörgum þykir varhugavert að gera þá röskun á peningamálunum, sem stýfing mundi leiða af sjer.

Spádóm háttv. flm. um, að þetta sje Pyrrusarsigur fyrir mig, læt jeg mjer í ljettu rúmi liggja. Afstaða mín er sú, að jeg byggi von mína um hækkun krónunnar á velgengni atvinnuveganna. Mjer finst það sannarlegt gleðiefni, ef atvinnuvegunum vegnar svo vel í framtíðinni, að takast má að lyfta þessari byrði. Jeg get látið mjer standa á sama, þó að það gleðji hv, flm., ef atvinnuvegunum verður svo þungt fyrir fæti, að þetta tekst ekki. En jeg gleðst ekki yfir því með honum. Jeg hefi reynt að kynna mjer gang atvinnulífsins hjá okkur undanfarin ár, og jeg verð að segja, að þó oft hafi komið erfið ár, hefir þó jafnan verið blessunarlega stutt í milli hinna áranna, sem svo mikinn arð hafa gefið, að afgangur hefir orðið. Þetta held jeg að rjettlæti fullkomlega þá stefnu að bíða hins hentuga tækifæris í þessu máli. Jeg geri mjer von um, að þessi ládeyða, sem atvinnulíf okkar er nú að sigla inn í, verði ekki svo löng, að hún nái að drepa úr þjóðinni kjarkinn nje draga úr þeim áformum að skila gjaldeyrinum í löglegu verði.