06.05.1926
Neðri deild: 72. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 742 í C-deild Alþingistíðinda. (2313)

39. mál, stöðvun á verðgildi íslenskra peninga

Frsm. meiri hl. (Jón Auðunn Jónsson):

Jeg get staðfest, að sá skilningur, sem hæstv. fjrh. leggur í dagskrána, er rjettur, að svo miklu leyti sem ekki greinir á innan meiri hl. nefndarinnar. En það er svo, að við meiri hl. menn erum ekki alveg sammála um, að hve miklu leyti ber að taka áhættu af sveiflum yfir á ríkissjóðinn. Við teljum, að ekki þurfi að óttast sveiflur til næsta þings, ef gengið er ekki lækkað, vegna þess að um hækkun geti varla verið að ræða eins og nú horfir við um atvinnuvegina.

Að öðru leyti skal jeg ekki lengja umræðurnar, þó að ærið tilefni væri til að svara ýmsu, sem hv. frsm. minni hl. (ÁÁ) hefir haldið fram. Það er aðeins eitt atriði, sem jeg vildi benda honum á. Hann vill ekki viðurkenna, að hann hafi sagt, að gengið eigi að grundvallast á verðlaginu í viðskiftalöndunum. En hjer stendur á bls. 3 í nál. minni hl.:

„Aðalgrundvöllur gengisins er, þegar til lengdar lætur, verðlagið í viðskiftalöndunum.“

Jeg sje, að deildin býst við atkvæðagreiðslu, og skal því ekki tefja tímann.