06.05.1926
Neðri deild: 72. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 742 í C-deild Alþingistíðinda. (2314)

39. mál, stöðvun á verðgildi íslenskra peninga

Tryggvi Þórhallsson:

Það eru aðeins örfá orð út af því, sem hæstv. fjrh. (JÞ) sagði síðast. Jeg vil sem þingmaður mótmæla þeirri skoðun, að stjórnin hafi heimild til að hætta nokkru af fje ríkisins til að halda núverandi gengi, ef dagskráin verður samþykt. Jeg held, að í meiri hl. fjhn. sjeu menn, sem leggja áherslu á það atriði.

Hæstv. fjrh. sagði, að dæmi mitt um 1000 krónurnar til jarðræktar hefði verið klóklega valið. Já. Það var það. Hann sagði, að jeg mundi ekki hafa borið eins mikla umhyggju fyrir manninum, ef hann hefði tekið lán til að versla með sement. Það er alveg rjett. Jeg álít, að sá, sem ræktar jörðina, vinni miklu þarfara verk heldur en sá, sem verslar með sement. Auk þess munu þeir, sem versluðu með sement í sumar sem leið, hafa grætt ekki alllítið á hækkun krónunnar, svo raunar er hjer ólíku saman að jafna. — Hæstv. fjrh. sagði, að styrkur hækkunarstefnunnar væri í því fólginn, að menn með ólíkar skoðanir að öðru leyti sameinuðu sig um hana. En hann verður að viðurkenna, að það eru fjölda margir, sem alls ekki fylgja þessari stefnu. — Hann sagðist byggja hækkunarvon sína á velgengni atvinnuveganna. Mjer fanst hann um leið vilja leggja mjer í brjóst, að mjer mundi ekki vera sjerlega ant um atvinnuvegina. En auk þess að ná meira rjettlæti er það höfuðtilgangur þessa frv., að gera atvinnuvegunum mögulegt að búa við velgengni. Það er nokkurn veginn augljóst mál.