06.05.1926
Neðri deild: 72. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 743 í C-deild Alþingistíðinda. (2315)

39. mál, stöðvun á verðgildi íslenskra peninga

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg bjóst við því, að hv. flm. (TrÞ) væri ekki eins ant um þá skuldunauta, sem lán hafa tekið til verslunarreksturs, og hina, sem fjenu hafa varið til jarðræktar. En má jeg benda hv. þm. á, að yfirgnæfandi hluti þeirra skulda, sem nú stendur ógreiddur frá lággengisárunum, er einmitt fé, sem tekið hefir verið að láni til verslunarreksturs. Mjög mikill hluti þeirra skulda, sem hv. flm. er nú að berjast fyrir, að hlutaðeigendur fái ódýra úrlausn á, er til orðinn vegna verslunarreksturs. Hitt, sem farið hefir til jarðræktar, er örlítið. Jeg get varla farið að skattyrðast enn út af aðgerðum stjórnarinnar í gengismálinu. En það litla, sem stjórnin hefir gert í því máli, hefir alt verið í þá átt að halda í hemilinn á hækkun, bæði árið 1924 og 1925, en þingið hafði ekki þá ætlað stjórninni eiginlega neinar sjerstakar aðgerðir á því sviði, og ef sú dagskrá, sem nú liggur fyrir, verður samþ., er það einnig svo, að ekki heldur þetta þing ætlar stjórninni sjerstaklega miklar aðgerðir í málinu til næsta þings.