10.05.1926
Neðri deild: 75. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 747 í C-deild Alþingistíðinda. (2323)

39. mál, stöðvun á verðgildi íslenskra peninga

Pjetur Ottesen:

Jeg skal ekki hefja langa ræðu eða gefa tilefni til langra umræðna, þar sem búið er að ræða þetta mál nokkuð lengi hjer í deildinni. Eins og menn munu hafa tekið eftir, er þetta mál var hjer til 2. umr., þá greiddi jeg atkvæði bæði á móti dagskrá meiri h1. fjhn. og frv. sjálfu. Jeg var á móti hinni rökstuddu dagskrá, sem fór fram á að halda genginu stöðugu til næsta þings, af því að aftan í hana var hnýtt, að ríkissjóður ætti að taka að sjer alla þá fjárhagslegu áhættu, sem af því stafaði að halda genginu föstu. Þótt jeg viðurkenni það, að snöggar sveiflur á genginu sjeu hættulegar fyrir atvinnuvegi landsins, þá tel jeg það óforsvaranlega ráðstöfun, að láta ríkissjóð taka á sínar herðar alla þá fjárhagslegu áhættu, sem af því getur leitt, að halda genginu föstu, og fyrirfram er ekki hægt að gera sjer neina grein fyrir því, hve mikið fje ríkissjóður yrði að láta af mörkum til að fullnægja slíkum ráðstöfunum, og get jeg því ekki verið með því að leggja slíkt til. En á móti frv. var jeg vegna þess, að jeg hefi enga trú á því, að það skipulag, sem þar er farið fram á, leysi þau vandræði, sem lággengið hefir leitt yfir þjóðina, og það því fremur, sem jeg álít, að stýfingin geti haft verulega hættu í för með sjer. En ef stjórnarvöld þau, sem hlut eiga að máli, ríkisstjórnin, bankastjórnirnar og gengisnefndin, gætu með sínum ráðstöfunum spornað á móti því, að snöggar verðsveiflur yrðu á krónunni, þá tel jeg það mikilsvert. Jeg vil því skora á þessa aðilja, að reyna að halda genginu sem stöðugustu þangað til næsta þing kemur saman. Samkvæmt framansögðu leyfi jeg mjer að bera fram svohljóðandi rökstudda dagskrá:

„Í trausti þess, að landsstjórn, bankar og gengisnefnd kosti kapps um að afstýra því, að veruleg röskun verði á gengi íslenskrar krónu til næsta þings, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“