10.05.1926
Neðri deild: 75. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 750 í C-deild Alþingistíðinda. (2328)

39. mál, stöðvun á verðgildi íslenskra peninga

Pjetur Ottesen:

Jeg ætla ekki að fara inn, á það eða gefa tilefni til, að farið yrði að nýju að ræða gengismálið. Jeg býst ekki við, að endurtekning á umræðum um málið varpi nýju ljósi yfir það, svo mikið sem það hefir verið rætt. Út af spurningu hv. þm. V.-Ísf. út af hættunni við stýfingu, vil jeg aðeins benda á eitt atriði. Ef ákvörðun er tekin um að stýfa, þá gengur það út yfir eigendur sparisjóðsfjár, og þá er það ekki óttalaust, að þeir reyndu að koma sparifje sínu fyrir á öðrum og tryggari stað. En sparifjeð er meiri hluti þess fjár, sem atvinnuvegirnir eru reknir með, og því álít jeg, að hjer geti verið um verulega hættu að ræða. En því meiri hætta er á þessu sem sumar af þeim þjóðum, sem næstar okkur eru og við höfum einna mest viðskifti við, keppa sýnilega ótrauðar að því að koma sínum peningum í gullgildi. Að því er snertir þann vanda, er frv. fær ekki leyst úr, þá skilst mjer, að það muni síður en svo vera útilokað, þótt horfið sje að stýfingu, að verðgildi hinna stýfðu peninga geti fallið. Og þá gæti rekið að því, að grípa yrði til þess að stýfa aftur. Að þessu leyti leysir frv. ekki allan vanda. Hjer er því alls ekki um það að ræða, að verið sje að kasta út björgunarhring fyrir stjórnina, heldur tilraun til þess að koma í veg fyrir, að hrapað sje að því að gera ráðstafanir, sem hætta getur stafað af fyrir þjóðina.