10.05.1926
Neðri deild: 75. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 751 í C-deild Alþingistíðinda. (2329)

39. mál, stöðvun á verðgildi íslenskra peninga

Frsm. minni hl. (Ásgeir Ásgeirsson):

Þessi dagskrá hv. þm. Borgf. (PO) líkist meir björgunarhring fyrir stjórnina en rökstuddri dagskrá, þar sem hann færir ekki aðrar ástæður fram fyrir henni en þær, sem hann nú nefndi. Ef það er vegna sparisjóðseigenda, að hv. þm. er hræddur við frv., þá ætti hann ekki að vera andstæður, að ríkissjóður gangi í átbyrgð fyrir kostnaði þeim, sem af því leiðir, að halda genginu stöðugu. Jeg býst við því, að ríkissjóður eigi að ábyrgjast sanngengi. Hv. þm. sagði, að ef stýft væri, þá væri þó ekki fyrir það girt, að stýfa þyrfti aftur. Þetta er satt, en engin ný speki. Það er álíka röksemd eins og ef maður, sem staddur er í lífshættu, segði, að ekki þýddi neitt að bjarga sjer úr henni, því að hann gæti altaf lent í lífshættu síðar. Við getum aldrei fengið tryggingu fyrir því, að peningar okkar verði verðfastir. Sú trygging liggur í skynsamlegri stjórn peningamálanna, sem auðvitað getur brugðist. Jeg skil ekki, hvað hv. þm. Borgf. (PO) vill. Hann vill ekki tryggja okkur fyrir því, er við urðum fyrir síðast liðið ár, er landsstjórn og Landsbankastjórn sýndu ekki nægan vilja á því að halda genginu í rjettu horfi. Í sjálfu sjer leitaði það ekki upp, heldur var ýtt upp af þessum stjórnarvöldum. Jeg fæ ekki betur sjeð en ef deildin vill láta eitthvað í ljós um þetta mál, þá eigi hún að gera það ótvírætt og segja eitthvað um það, hvernig ábyrgð ríkissjóðs skuli beitt. Annars finnast mjer ástæður þær, sem hv. þm. Borgf. (PO) ljet uppi, mjög ófullnægjandi, og mjer finst afgreiðsla málsins á þennan hátt bera meira vitni um „stjórn“-lyndi en„fast“lyndi. Annars vil jeg mælast til, að fundarhlje verði haft núna, svo hægt sje að taka dagskrána til athugunar.

Forseti gerði stutt fundarhlje. Að því loknu var fram haldið 3. umr. um frv.