10.05.1926
Neðri deild: 75. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 752 í C-deild Alþingistíðinda. (2333)

39. mál, stöðvun á verðgildi íslenskra peninga

Frsm. meiri hl. (Jón Auðunn Jónsson):

Jeg býst ekki við því, að langar umr. þurfi að verða um þetta mál nú, því að það var ítarlega rætt við 2. umr.

Það, sem menn greinir aðallega á um, er það, hvort nú eigi að stýfa krónuna, eða gefa henni lægra gullgildi en nú er. Frv. fer fram á það, að stýfa krónuna með núverandi verðgildi, eða öllu heldur í lægra gullgildi.

Við hv. 3. þm. Reykv. teljum ekki rjett að taka þessa ákvörðun nú, en hinsvegar er okkur ljóst, að komið gætu þau tilfelli, að krónan yrði stýfð með þáverandi gullgengi. En ef þær ákvarðanir verða teknar, verða þær að komast í framkvæmd á stuttum tíma, og þá verður um leið að lögleiða gullinnlausn seðlanna. Mjer er ekki kunnugt, að nein þjóð hafi stýft gildi peninga sinna með löngum fyrirvara. (TrÞ: Jú, Finnar). Nei, þeir leituðust fyrst við að stöðva gengi marksins, og Finnlandsbanki eyddi tugum miljóna til að halda genginu föstu og hækka það og kom því úr 7% upp í 13% af fyrra gullgengi, en svo leiddu þeir stýfingu alt í einu í lög og um leið gullinnlausn. Hina sömu aðferð höfðu Tjekkoslovakar. En það var ekki um það að gera að lækka gildi peninga — eins og hjer —. Slík ákvörðun, gerð löngu fyrir fram, gefur tilefni til þess ástands, að sveiflur verði harðari þangað til endanleg stýfing fer fram. Þetta sjest og á því, sem hv. flm. (TrÞ) og hv. frsm. minni hl. (ÁÁ) hafa haldið fram, að það mundu þurfa að líða nokkur ár frá því, að þessi ákvörðun, sem hjer er farið fram á, væri tekin, og þangað til endanleg ákvörðun um stýfingu væri gerð.

Þá skal jeg minnast á brtt. hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ). Fyrsta brtt. tekur alla ákvörðun úr frv. um stýfingu, og ef hún verður samþ., er það alveg hið sama og samþ. hina rökstuddu dagskrá hv. þm. Borgf. (PO), sem fer fram á það að bíða með að taka ákvörðun um það, hvort krónuna eigi að stýfa eða ekki.

Það verður ekkert sagt um það nú, hverjar afleiðingarnar geta orðið af því, ef nú er tekin ákvörðun um stýfingu án þess að taka upp gullinnlausn samtímis. það væri heldur ekki rjett að benda á allar afleiðingar af því hjer í hv. deild, nema þá fyrir lokuðum dyrum, svo að þær eigi hafi áhrif til hins verra.

Um dagskrána má það segja, að hún er ekki ákveðin nema að því leyti, að hún tekur af öll tvímæli um það, ef hún verður samþ., að þess er ekki óskað af deildinni, að tekin sje ákvörðun um stýfingu nú.