10.05.1926
Neðri deild: 75. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 771 í C-deild Alþingistíðinda. (2340)

39. mál, stöðvun á verðgildi íslenskra peninga

Ólafur Thórs:

Hv. þm. Str. (TrÞ) beindi því til mín og annara íhaldsmanna, sem greiddu frv. hans atkvæði til 3. umr., hvort við mundum fylgja dagskrá hv. þm. Borgf. (PO). Jeg skal svara þessu fyrir mína hönd og þeirra, því að jeg hefi haft tækifæri til að ráðfæra mig við þá. Við lítum svo á, að brtt. hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) við frv. beri að skoða sem tilkynning frá honum og væntanlega fleirum, sem fylgt hafa frv. hv. þm. Str. (TrÞ), um, að þeir sjeu nú horfnir frá því að festa krónuna í sannvirði hennar, (TrÞ: Ekki frá mjer!) og beri nú í þess stað fram ósk um það, að festa verðgildi krónunnar í núverandi gengi. Og þá ber væntanlega að líta á málið þannig, að gera eigi þessa tilraun fyrst um sinn til næsta þings. Verður að álíta af þessu, að með því sjeu dagar sjálfs frv. taldir. Nú hefir hv. þm. Borgf. (PO) borið fram dagskrá, sem skorar á ríkisstjórnina að gera í raun og veru það sama og felst í brtt. hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ). Munurinn er aðeins sá, að annarsvegar ræðir um lögbundna skipun, en hinsvegar um áskorun. Nú er alt ástand atvinnulífsins að minni hyggju þannig, að það eru ákaflega litlar líkur til, að á vegi hækkunarmanna verði nokkur freisting til að hækka á þessu tímabili. En jeg tel mjög líklegt, að þeir, sem með peningamálin fara í landinu, muni miklu fremur mæta erfiðleikum, þegar þeir gera tilraunir til að forðast, að krónan lækki þennan tíma. Það er flestum hv. þdm. kunnugt, að jeg hefi álitið það orka tvímælis, hvort verðgildi krónunnar væri ekki alt of hátt eins og nú er, og hvort hægt væri án verulegrar áhættu fyrir ríkissjóðinn að sporna við lækkun krónunnar. Jeg get þessvegna ekki aðhylst, að það sje lögskipað, að ríkissjóði yrði takmarkalaust varið til þess að fyrirbyggja slíka hugsanlega lækkun. En jeg álít hinsvegar, að umræðurnar hjer í hv. deild hafi gefið ríkisstjórninni sæmilegt aðhald til þess að standast þá freistingu, sem kynni að verða á hennar vegi um að hækka krónuna á þessum tíma. Sætti jeg mig þessvegna miklu betur við, að málið verði afgreitt í því formi, sem dagskráin ber með sjer; svo að jeg þegar af þeirri ástæðu get greitt dagskránni atkvæði mitt frekar en brtt. hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ). Auk þess er nú því við að bæta, að þar sem ríkisstjórnin hefir óskað eftir, að málið verði afgreitt í dagskrár-formi, en ekki frumvarps, þá er það eðlilegt, að jeg, sem ber fult traust til ríkisstjórnarinnar og er hennar stuðningsmaður, greiði atkv. með dagskránni og sje það í alla staði ljúfara heldur en að afgreiða málið með frv., þó að frv. að mínum dómi miðaði nokkuð að því sama og dagskráin gerir.

Jeg þykist með þessu hafa gert grein fyrir minni skoðun á málinu og reyndar skoðun þeirra flokksbræðra minna, sem greiddu frv. atkv. til 3. umr. En jeg lít nokkuð öðrum augum á heimild stjórnarinnar heldur en hv. flm. dagskrárinnar (PO). Jeg hika ekki við að fullyrða, að allar umræður málsins hjer í deildinni beri með sjer, að það er yfirlýstur vilji langsamlega meiri hluta deildarmanna, að ef þurfa þykir, hafi ríkisstjórnin heimild til að gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að fyrirbyggja hækkun krónunnar á þessum tíma.