10.05.1926
Neðri deild: 75. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 773 í C-deild Alþingistíðinda. (2341)

39. mál, stöðvun á verðgildi íslenskra peninga

Jakob Möller:

Jeg hefi því miður af sjerstökum ástæðum ekki getað fylgst með þeim umræðum, sem hafa orðið um þetta mál í dag, en verð þó að segja örfá orð. Eftir að dagskrártill. frá meiri hl. fjhn. var feld við síðustu umr., virtist mjer vera hætta á, að málið fengi ekki viðunandi afgreiðslu á þessu þingi. Jeg hefi litið svo á, að eins og sakir standa þyrfti ekki að gera því skóna, að gengi íslenskrar krónu mundi hækka á næstunni. Það hefir verið gert alt of mikið að því undanfarið, að láta hag atvinnuveganna hafa bein og skjót áhrif á gengið. Hafi einhverjar hagsveiflur komið, þannig að verðið hafi í svip lækkað á íslenskum afurðum, þá er gripið til að lækka verð krónunnar því sem nær samstundis eða að minsta kosti fljótlega. Að þetta sje tæplega rjett að farið, getur maður nú ráðið af því, hvernig fór um áramótin 1923–24 og upp úr þeim. Ef það hefði verið vakandi fyrir þeim, sem þessum málum stýrðu, að það bæri ekki að hlaupa með gengið þegar í stað eftir þessari sveiflu, en reynt að halda krónunni kyrri þar, sem hún var um nýárið, þá hefðum við algerlega losnað við þá stóru sveiflu niður á við, sem varð í ársbyrjun 1924. Þannig geta menn lært af reynslunni. Og jeg held því fram, að undanfarin ár hefði átt að gæta þess betur en gert hefir verið.

En af þessu ræð jeg það, að frekar sje hætta á því nú á næstunni, ef ekkert yrði að gert, að krónan yrði lækkuð heldur en hækkuð; því að eins og stendur er hagur atvinnuveganna engan veginn glæsilegur. Nú er það mín skoðun eins og áður, að það eigi ekki að hlaupa eftir þessari stundar hagsveiflu, heldur að reyna að halda því gengi, sem náð hefir verið, — og þá ekki síst, þegar gengið hefir staðið eins lengi og það nú er búið að standa, fyllilega hálft ár. Verðlag í landinu er mjög farið að laga sig eftir því, og virðist því auðsætt, að gróðinn af því að lækka frá því, sem er, verður ákaflega tvísýnn fyrir atvinnuvegina. Það er að tefla gengismálinu í enn meiri tvísýnu en áður. Þessvegna fanst mjer skylda þingsins nú einmitt að gera ráðstafanir til þess, að haldið yrði föstu því gengi, sem nú hefir verið náð, og jafnvel, ef til þess þyrfti að taka, að leggja fram ríkisins fje til þess. Þetta fólst í raun og veru í dagskrártillögu meiri hl. fjhn., þótt að vísu öllum meirihlutamönnum kæmi ekki saman um, hvað ríkt ætti að kveða að orði um þetta. En í orðalagi till. lá þetta beinlínis. Bæði varð nú ágreiningur um, hvað meint væri í till., og að lokum var hún feld. Jeg hafði ekki trú á, að frv. yrði afgr. úr deildinni, taldi víst að það yrði felt, og þessvegna mundi afskiftum Alþingis af þessu máli ljúka þannig, að það gerði ekki neitt. Þetta taldi jeg gersamlega óforsvaranlegt, og þessvegna lagði jeg mitt atkv. til þess að fleyta frv. til 3. umr. til þess að tryggja það, að það yrði enn á ný tekið til vandlegrar yfirvegunar.

Nú heyri jeg, að komnar eru fram tvær tillögur, önnur frá hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) og breytir frv. að því leyti, að beint er tekið fram, að stöðva skuli verðgildi íslenskrar krónu í því gengi, sem nú er skráð. Munurinn á þessu og frv. er sá, að frv. gerir ráð fyrir, að gildi krónunnar sje lækkað í því skyni að leita að raunverulegu gildi hennar. þessi till. kemur til móts við mína skoðun og ýmissa annara að því leyti, að hún gerir ljóst og fast, að fyrst og fremst beri að reyna að halda því gengi, sem nú er. Mætti því ætla, að samleið gæti orðið um þetta, þar sem vitanlega mætti síðar taka þá ákvörðun, hvort stöðva skyldi til fulls eða halda áfram í hækkunaráttina. En jeg vil benda hv. flm. (SvÓ) á, að hjer vantar nokkuð. Það er að mínu áliti alt of lint kveðið á um það, hve ríka áherslu eigi að leggja á að halda núverandi gengi. En það getur farið eftir því, hvað ríkt flutningsmenn kveða á um þetta, hversu eindregna áherslu stjórn peningamálanna leggur á það. Þykir mjer því þessi brtt. ófullnægjandi með því orðalagi, sem á henni er.

Í öðru lagi er komin fram dagskrártill. frá hv. þm. Borgf. (PO), sem, eins og hv. þdm. muna, greiddi atkv. móti dagskrártill. meiri hl. fjhn, við síðustu umr. Jeg geri því ráð fyrir, þótt jeg hafi ekki átt kost á að heyra orðalag hennar nákvæmlega, að þar sje slakað enn meira á kröfum um það, að halda föstu genginu og beinlínis gert ráð fyrir sveiflum á genginu á næsta ári.

Nú berst mjer í hendur brtt., sem er fram komin við dagskrártill., og skilst mjer, að með henni geti jeg gengið inn á dagskrártill.

Jeg vildi að eins gera þessa grein fyrir atkv. mínu. Get jeg endurtekið í örfáum orðum, hvað fyrir mjer vakir. Jeg vil fresta úrslitaákvörðun um, hvað gera skuli í þessu máli, að minsta kosti til næsta þings. Í því skyni að spilla ekki aðstöðunni, vil jeg leggja kapp á, að núverandi gengi sje alveg fast þangað til. Hefi jeg þessvegna ekki með neinu móti getað fallist á frv., sem liggur fyrir, sem gerir beinlínis ráð fyrir lækkun gengisins, og raunar heldur ekki á frv. eins og brtt. hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ ) fer fram á, en felli mig fullkomlega við dagskrártill. hv. þm. Borgf. (PO) með þeirri brtt., sem er fram komin frá hv. 2. þm. Rang. (KlJ).