10.05.1926
Neðri deild: 75. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 778 í C-deild Alþingistíðinda. (2343)

39. mál, stöðvun á verðgildi íslenskra peninga

Fjármálaráðherra (JÞ):

Umræðurnar eru orðnar svo langar, að það kemur ekki fram annað en endurtekning á því, sem búið er að segja. Þessvegna ætla jeg ekki að fara út í að svara hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ). Ekki einu sinni ætla jeg að svara þeirri spurningu, sem hann bar fram fast og ákveðið og krafðist svars við, — hvað stjórnin mundi gera á árinu 1926 undir sömu kringumstæðum sem þeim, er ollu hækkun krónunnar 1925. Jeg ætla bara að benda hv. þm. á það, að það geta ekki komið sömu kringumstæður 1926 eins og 1925. Í september 1925 var undangengin óslitin velgengni fyrir okkar aðalatvinnuveg, sjávarútveginn, í hálft annað ár. Hvenær sem er á árinu 1926 er undangengið fyrir þennan atvinnuveg svo mikið erfiðleikatímabil, vegna óvenju lágs verðs. Þetta er svo stórt atriði, að aldrei getur verið að tala um, að sömu kringumstæðurnar endurtaki sig á þessu ári. Háttv. þm. getur því ekki vænst, að jeg fari að gefa nein svör upp á spurningu hans.