10.05.1926
Neðri deild: 75. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 779 í C-deild Alþingistíðinda. (2344)

39. mál, stöðvun á verðgildi íslenskra peninga

Jón Baldvinsson:

Háttv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) spurði, hvað yrði, ef dagskráin, sem er fram komin, yrði samþ. Jeg skal segja honum það. Það verður það, að frv. til laga um stöðvun á verðgildi íslenskra peninga fellur úr sögunni. Í raun og veru mótast nú afstaða til dagskrárinnar af því, að með henni er hægt að fella frv. Jeg legg minna upp úr orðalagi dagskrárinnar um það, hvað stjórnin eigi að gera á næsta ári. Jeg legg alt upp úr hinu, hvað eru gildandi lög um gjaldeyri landsins. Vil jeg með leyfi hæstv. forseta lesa nokkur orð úr lögum frá 1925:

„Ber nefndinni ennfremur, eftir því sem ástæður eru til, að gera tillögur til landstjórnarinnar um ráðstafanir, er stefna að því, að festa gengi íslensks gjaldeyris og stuðla að varlegri hækkun krónunnar.“

Þó að í dagskránni felist frá tillögumanni engin krafa til stjórnarinnar um það, að hún verji neinu fje til þess að hindra verðfall krónunnar, þá lít jeg svo á, að lögin, sem nú gilda, leggi stjórninni þá skyldu á herðar. Þær ráðstafanir, sem gengisnefndin telur nauðsynlegar og stjórnin felst á, — þær hljóta að verða í samræmi við núgildandi lög. Það, sem stjórnin á að gera, það álít jeg hún hafi fulla heimild til nú, en hún verður vitanlega að bera ábyrgð á gerðum sínum gagnvart þinginu. Það hljóta að vera ráðstafanir annaðhvort til þess að leggja fram fje eða ábyrgð til þess að hindra verðfall. Þessvegna lít jeg alls ekki á dagskrána eins og hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh), sem traust til hæstv. stjórnar, en aðeins meðal til þess að fella úr sögunni frv., sem jeg er andstæður. (TrÞ: En atkvæðin verða eins). Atkvæðin verða eins, segir háttv. þm. Str., en það eru mismunandi ástæður, sem liggja til grundvallar fyrir atkvæðagreiðslunni. Jeg álít alls ekki, samkvæmt gildandi lögum, að hæstv. stjórn sje heimilt að fyrirbyggja hækkun krónunnar. Jeg álít, að henni beri að hindra lækkun, en stuðla að hækkun.