10.05.1926
Neðri deild: 75. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 785 í C-deild Alþingistíðinda. (2350)

39. mál, stöðvun á verðgildi íslenskra peninga

Pjetur Ottesen:

Það eru aðeins örfá orð til hv. þm. Str. (TrÞ) út af orðum þeim, sem hann mælti nú síðast. Jeg vil, til stuðnings því, að jeg hafi farið rjett með það, að háttv. þm. Str. hafi verið rjett kominn að því að heykjast á því að halda því fram í fyrra, að fulltrúar atvinnuveganna hefðu atkvæðisrjett í gengisnefnd, leyfa mjer að lesa upp nokkur orð eftir háttv. þm. (TrÞ) úr þingtíðindunum frá í fyrra. Hann segir svo: „Mjer fanst, að háttv. þm. Borgf. (PO), meðflm. minn að brtt. á þskj. 393, gefi mjer hálfgildingsákúrur fyrir það, að jeg hefi gengið inn á brtt. fjhn.“ það er brtt. fjhn. um að svifta fulltrúa atvinnuveganna atkvæðisrjettinum.

Hv. þm. (TrÞ) sagði, að jeg hefði lýst því yfir, að dagskrána mætti ekki skoða sem traust til umgetinna stjórnarvalda. Jeg sagði, að í dagskránni fælist fullkomin bending um það að fara gætilega í þessum efnum, og jafnframt bending um, að æskilegra hefði verið, að svo miklar gengissveiflur hefðu ekki orðið á svo skömmum tíma, sem varð raun á. En hinsvegar ber enganveginn að skilja dagskrána svo, að það felist ekki traust í henni til þeirra stjórnarvalda, til að framkvæma nú það, sem í tillögunni felst.

Hv. þm. Str. (TrÞ) sagði, að jeg hefði ekki gert rjett í því að bera ekki dagskrána undir álit bankastjórnar Landsbankans, Út af þessu vil jeg bara skírskota til þess, sem jeg sagði áðan um þetta atriði. Þegar jeg samdi dagskrána, hafði jeg ekki borið mig saman við neinn um orðalag hennar. Hvorki við Landsbankann nje aðra. Hv. þm. (TrÞ) var eitthvað að þakka mjer fyrir glöggari skýringar á dagskránni. Að því leyti sem dagskráin skýrir sig ekki sjálf, þá held jeg, að það hafi komið fullljóst fram hjá mjer þegar í upphafi, hvað fyrir mjer vekti, en að hv. þm. Str. (TrÞ) sætti sig betur við dagskrána nú eftir að jeg hafði að nýju talað nokkuð um hana, hygg jeg að stafi frekar af því, að hann við að hugsa málið frekar sjái, að það er rjett, sem jeg segi, að þessi afgreiðsla málsins sje líka heppileg frá hans sjónarmiði, heldur en af hinu, að nokkrar nýjar skýringar á henni kæmu fram hjá mjer.

Hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) sagði, að jeg hefði misskilið sig, en jeg held því fram, að svo hafi ekki verið. Jeg held, að flestir hv, deildarmenn verði mjer sammála um það, að orð hans hafi ekki orðið skilin á annan veg en svo sem hann hafi ætlað sjer að greiða atkvæði með dagskrártill. Ef hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) greiðir nú atkv. á móti henni, er það aðeins af því, að honum hefir snúist hugur síðan, og við því er ekkert að segja.