30.04.1926
Neðri deild: 66. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 796 í C-deild Alþingistíðinda. (2361)

62. mál, slysatryggingar

Atvinnumálaráðherra (MG):

Út af nál. á þskj. 364 skal jeg taka það fram, að jeg tel ekkert í veginum um að undanskilja skyldutryggingu þá, sem vinna að fiskþurkun utanhúss. Álít jeg fulla heimild til þess í lögum nr. 44, 27. júní 1925, 21. gr. Um hitt atriðið, að flytja iðgjaldagreiðsluna að nokkru yfir á þá menn, sem ráðnir eru upp á hlut af afla eða ágóða, þá held jeg, að það sje hæpinn skilningur á lögunum, að setja það í reglugerð. Þó mun jeg sjá mjer það fært, ef meiri hl. hv. deildar lýsir sig því samþykkan. Um þriðju brtt. á þskj. 110 eru allir samdóma, að því atriði verði ekki breytt með reglugerð. — þriðja atriði dagskrárinnar, að stjórnin leggi fyrir næsta þing frv. um almennar slysatryggingar, skil jeg svo, að það frv. eigi að ná til allrar vinnu, sem nokkur hætta getur verið við, meðal annars almennrar sveitavinnu, sláttar, mógraftar, fjallferða o. s. frv. þessu treystist jeg ekki til að lofa, en hinu get jeg lofað, að endurskoða lögin eins og þau liggja fyrir, og ef til vill koma með brtt. við þau. Um það er þó eigi ákveðið loforð, því að þessi lög eru enn svo lítið reynd, að gallarnir, sem á kynnu að vera, eru eigi fyllilega komnir í ljós.