30.04.1926
Neðri deild: 66. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 800 í C-deild Alþingistíðinda. (2366)

62. mál, slysatryggingar

Jón Sigurðsson:

Það er ekki að ástæðulausu, að allmikið er nú talað um þessa dagskrá. Mjer skilst, að ef hún væri samþ., þá væri málinu þar með hrundið inn á víðara svið. Jeg sje ekki betur en að ef till. nefndarinnar verður samþ., þá sje tryggingarskyldan gerð almenn og látin ná til allrar sveitavinnu og þess háttar. Mig furðar nokkuð á þessu, af því að í nefndinni eiga sæti menn, sem eru kunnugir starfsháttum í sveitum og vita t. d., að sami maðurinn fæst, ef til vill, við 10 mismunandi störf sama daginn. Í slíku tilfelli mundi flokkunin reynast örðug. Enn er ekki fengin nein veruleg reynsla um þessi lög frá í fyrra, og finst mjer við geta verið rólegir og sjeð, hvernig þau reynast. Jeg get ekki fallist á dagskrártill. háttv. meiri hl. sjútvn. þó að hæstv. atvrh. (MG) hafi lýst því yfir, að hann sjái sjer ekki fært að fara að öllu leyti inn á þá braut, sem hún fer fram á, þá skilst mjer, að hún sje á þá leið að skylda stjórnina til að bera fram, á næsta þingi, frv. um almennar slysatryggingar. Jeg vil því leyfa mjer að fara þess á leit við hæstv, forseta, að hann beri undir atkv. svohljóðandi till. til rökstuddrar dagskrár:

Í trausti þess, að stjórnin með reglugerðarbreytingu taki upp efni 1. og 2, gr. í frv. á þskj. 110, eftir því sem við verður komið, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.

Jeg geri ráð fyrir því, þó að það sje ekki tekið fram, að stjórnin skuli koma fram með breytingar á slysatryggingarlögunum, þá muni hún engu að síður telja sjer skylt að gera það, ef það virtist nauðsynlegt.