30.04.1926
Neðri deild: 66. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 803 í C-deild Alþingistíðinda. (2369)

62. mál, slysatryggingar

Tryggvi Þórhallsson:

Það eru aðeins örfá orð. Fyrst og fremst vil jeg taka undir það, sem hv. 2. þm. Skagf. (JS) sagði, að jeg vil ekki reka eftir hæstv. stjórn að koma með yfirgripsmiklar brtt. við slysatryggingarlögin. Því að verði dagskrá hv. sjútvn. samþ., er ómögulegt að taka það öðruvísi en áskorun um að bera fram frv. um almennar slysatryggingar, þar með taldar tryggingar við almenna sveitavinnu. Álít jeg óhyggilegt af hv. nefnd að blanda þarna ólíkum atriðum saman.

Jeg er ekki lögfræðingur, en mjer skilst, að hæstv. ráðh. (MG) álíti, að allmikill vafi sje á, hvort lögleg sje önnur breytingin, sem farið er fram á í dagskránni. En jeg fæ ekki sjeð, á hvern hátt hún er frekar heimil, þótt samþ. sje rökstudd dagskrá í annari deild, og það því fremur, sem svo fáir eru á fundi. Ef þessi breyting er nú óheimil, þá er þetta enginn grundvöllur, sem hún megi byggjast á. Verð jeg því að líta svo á, að tilgangslaust sje að samþykkja dagskrána.