30.04.1926
Neðri deild: 66. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 804 í C-deild Alþingistíðinda. (2370)

62. mál, slysatryggingar

Atvinnumálaráðherra (MG):

Það er vitaskuld aðeins fyrirsláttur hjá hv. 2. þm. Reykv. (JBald), að jeg hafi ekki haldið því sama fram í báðum ræðum. Jeg ljet það altaf í ljós, að jeg gæti ekki gengið að svo víðtækum breytingum á slysatryggingalöggjöfinni, sem jeg taldi felast í dagskránni. En er hv. frsm. sjútvn. (SvÓ) hafði lýst yfir því, að frá hálfu hv. nefndar ætti annað að liggja í orðunum, gat jeg með góðri samvisku gengið að dagskránni.

Út af því, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði um ummæli sín frá í fyrra, vil jeg taka fram, að þau voru sögð út af brtt., sem fram var borin við 21. gr. þeir hv. 2. þm. Reykv. (JBald) og hv. 1. þm. Árn. (MT) báru hana fram í samráði við mig, og án hennar hefði frv. aldrei komist fram. Jeg tók það þá fram, að eftir henni væri mjer heimilt að draga úr tryggingunum, ef svo bæri undir. Hv. 2. þm. Reykv. (JBald) hristir höfuðið nú. En þá var hann glaður að geta komist að einhverjum samningum, svo að frv. hans væri eigi felt.

Ummælum hv. þm. Str. (TrÞ) þarf jeg varla að svara. Jeg hefi tekið það fram, að aðeins önnur þessi till, er vafasöm. Og er það þá mikill styrkur fyrir stjórnina að vita, að löggjöfin lítur eins á málið og hún. Því að skýring löggjafans er ætið mikilsvert atriði við lögskýringar. (TrÞ: Hjer er ekki um allan löggjafann að ræða). Jæja, það er þó að minsta kosti vilji Nd., sem væntanlega kemur fram við atkvæðagreiðsluna, og þar eiga sæti 28 af 42 þm. (JBald: En þetta var ágreiningsatriði milli deilda í fyrra), Það er dálítið einkennilegt hjá hv. 2. þm. Reykv. (JBald), að hann byrjar á því, að segja, að allar brtt. við þessi lög eigi að koma frá stjórn slysatryggingarinnar, en þegar honum er bent á álit hennar, að hún haldi, að þetta sje rjett lög, þá telur hann það fortakslaust lagabrot.