12.05.1926
Neðri deild: 77. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 806 í C-deild Alþingistíðinda. (2378)

66. mál, skylda útgerðarmanns til að tryggja fatnað og muni lögskráðs skipverja

Frsm. meiri hl. (Sveinn Ólafsson):

Það á víst að heita svo, að jeg sje frsm. sjútvn. í þessu máli, en jeg hafði ekki tekið eftir því fyr en mjer var bent á það núna samstundis. Það leiðir því af líkum, að jeg hefi ekki búið mig undir langa framsögu, enda er hjer ekki um merkilegt mál að ræða. En þar sem þetta mál er búið að liggja nokkuð lengi fyrir deildinni, þá geri jeg ráð fyrir því, að hv. þdm. sjeu búnir að átta sig á því, og ætti ekki að þurfa öllu meira um það að segja en það, sem stendur í nál. á þskj. 206. Nefndin hefir ekki sjeð sjer fært að leggja með frv., því að hún telur kröfuna um það, að útgerðarmaður haldi jafnan í tryggingu farangri skipverja, fremur óeðlilega og hætt við, að hún kæmi ósanngjarnlega niður á útgerð smáskipanna.

Vil jeg ekki fjölyrða meira um þetta núna í annríkinu; býst við að hv. þdm. sjeu búnir að átta sig á rjettri meðferð málsins.