25.02.1926
Neðri deild: 14. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 838 í B-deild Alþingistíðinda. (238)

17. mál, fjáraukalög 1925

Fjármálaráherra (JÞ):

Jeg get verið hv. fjvn. þakklátur fyrir undirtektir hennar við frv. sjálft og brtt., sem hún flytur. Að öðru leyti sje jeg ekki ástæðu til að gera að umtalsefni neitt af því, sem hv. frsm. (TrÞ) hafði orð á, nema ef vera skyldi utanfararstyrkirnir. Stjórninni hefir ekki sýnst mögulegt í venjulegu árferði að hafa ekki nokkurt fje til umráða í þessu skyni, sem sje handa mönnum, sem þurfa að sækja millilandafundi. Oft stendur svo á, að boðað er til fundar mönnum frá Norðurlandaríkjunum 5 sjerstaklega, og megum við þá til að veita einhvern styrk til slíkra utanfara. Því er það, að stjórnin hefir farið fram á, að tekin verði upp í fjárlagafrv. fyrir árið 1927 dálítil upphæð, sem samsvaraði því, sem veitt hefir verið árið 1925 til þessa.

Mjer er það sjerstakt ánægjuefni, að hv. nefnd vill viðurkenna nauðsynina á þessu með því að flytja viðaukatillögu í þessu skyni.

Þá hefi jeg ekki fleira um þetta að segja, en geri ráð fyrir, að hinir ráðherrarnir svari því, sem til þeirra er beint.