12.05.1926
Neðri deild: 77. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 812 í C-deild Alþingistíðinda. (2384)

66. mál, skylda útgerðarmanns til að tryggja fatnað og muni lögskráðs skipverja

Frsm. minni hl. (Jón Baldvinsson):

Hv. frsm. meiri hl. (SvÓ) tók í rauninni fram það atriði, sem ágreiningur er um milli mín og hv. meiri hl. í þessu máli. Aðalástæðan til þess, að hv. meiri hl. hefir ekki viljað fallast á málið, er, að hann vill láta hvern mann sjálfráðan um það, hvort hann tryggir eða ekki, en þarna kemur fyrst og fremst fram aðalmunurinn á því, hvort samþykkja eigi lagaákvæði um þessar tryggingar eða ekki, en jeg hefi áður fært ástæður fyrir því, að það beri að lögbjóða þessar tryggingar, og jeg nenni ekki að fara að rekja það aftur. En það sýnir, hvað hv. meiri hl. nefndarinnar álítur þetta mál mikilsvert, að hann vildi ekki eyða prentsvertu nema í eina línu, og munar það sjálfsagt ríkissjóð nokkru á þessum þrengingartímum.

Hv. þm. Ísaf. (SigurjJ) benti á það, að stjórnin gæti farið aðra leið í málinu en þá, sem hjer er farin, og úr því að svo er komið, vil jeg gjarnan fallast á till. hv. þm. Barð. (HK), um að vísa málinu til stjórnarinnar. Jeg álít, að það skifti ekki miklu máli um það, því að frv. kemst enganveginn fram nú, og þá get jeg alveg eins felt mig við það, þegar hvort sem er verður að láta málið óafgreitt.