12.05.1926
Neðri deild: 77. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 813 í C-deild Alþingistíðinda. (2386)

66. mál, skylda útgerðarmanns til að tryggja fatnað og muni lögskráðs skipverja

Frsm. minni hl. (Jón Baldvinsson):

Verði frv. þetta að lögum, geri jeg ráð fyrir, að útgerðarmannafjelögin mundu semja við einhver vátryggingarfjelög um að tryggja þá muni, sem hásetar hefðu með sjer á skipunum, og það yrðu svo mikil viðskifti þar, að vátryggingarfjelögin mundu sýna svo mikla tilhliðrun, að þau gerðu sig ánægð með mikið lægri iðgjöld en þótt einhver einn maður vildi láta tryggja hjá sjer. (JAJ: Veit hv. þm. til, að vátrygging fáist nokkurntíma fyrir minna en 5%, þegar iðgjald fyrir árið er 8%?). Það er dálítið tregara með að fá vátrygt á einstökum skipum heldur en að fá trygt á heilum flota, og það veit hv. þm. (JAJ), að þegar um stór viðskifti er að ræða, þá teygja vátryggingafjelögin sig mjög langt, má þar til dæmis benda á, að Reykjavíkurbær gerir samninga um húsatryggingar í bænum, og fær þau iðgjöld langt fyrir neðan þann taxta, sem er vanalegur. Þetta sýnir einmitt, að þegar um mikil viðskifti er að ræða, geta fjelögin leyft sjer að taka talsvert minna iðgjald, en hitt veit jeg mjög vel, að þótt hásetar sleppi í land með alt sitt dót, kannske meira og minna skemt, þá fá þeir ekkert fyrir það, en á sama hátt gæti hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) sagt, að öllu því iðgjaldi, sem greitt er af bátum í Norður-Ísafjarðarsýslu, sje fleygt í sjóinn, af því að bátarnir hafa ekki farist. (JAJ: Er líf manna ekki til? En hjer er verið að tryggja það, sem kannske er ekki til). Jeg skil nú ekki í því, að menn fari út á bátum með ekkert með sjer, það getur náttúrlega verið, að þannig sje farið í sólarhrings-róður eða minna, en þegar lengur er verið í burtu, hljóta þeir að hafa eitthvað með sjer. Annars er þetta nokkuð ömurleg lýsing á lífi manna við þessa atvinnugrein, að þeir hafi ekkert með sjer annað en það, sem þeir standa í, og verða þannig að vera í þeim fötum, hvernig sem á stendur; en ef svo væri, að þeir hefðu samt eitthvað meira með sjer, þá virðist hv. þm. (JAJ) ekki vilja gera neitt til, að menn geti trygt þá muni fyrir skaða, þegar slys ber að höndum.