25.02.1926
Neðri deild: 14. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 839 í B-deild Alþingistíðinda. (239)

17. mál, fjáraukalög 1925

Atvinnumálaráðherra (MG):

Hv. frsm. fjvn. (TrÞ) mintist á 3 atriði, sem mjer við koma. Út af skipulagsuppdráttum kauptúna vil jeg geta þess, að það er sennilega alveg rjett hjá háttv. frsm., að stjórninni hefði verið óheimilt að greiða fje til þessa, hefði ekki þingið í fyrra samþykt að veita upphæð í þessu skyni í fjárl. 1926. Þá mintist hv. frsm. á það, að engar reglur gildi fyrir úthlutun styrkja til varnar skemdum af ágangi sjávar og vatna. Þetta er rjett að því leyti, að þetta hefir verið samningsatriði, nema þar sem lög mæla sjerstaklega fyrir, en slík lög eru aðeins til um fyrirhleðslur fyrir Markarfljót og Þverá frá 1917. Ætlunin var sú, að greiða helming kostnaðar við fyrirhleðslu fyrir Hjeraðsvötn, en kostnaðurinn fór allmikið fram úr áætlun, því að vötnin höfðu grafið sig niður um 1 metra frá því áætlun var gerð og þar til verkið var framkvæmt. Því var styrksupphæðinni breytt í 2/3, en með það voru Skagfirðingar ekki fullkomlega ánægðir. Vildu fá ¾ kostnaðar úr ríkissjóði, eins og verið hafði í Djúpósfyrirhleðslunni.

Um lóðir ríkissjóðs er það að segja, að þær eru víðast ódýrt leigðar, en þar, sem fært hefir þótt verðmætis eða samninga vegna, hefir afgjaldið verið hækkað. Í Vestmannaeyjum hafa gjöldin t. d. nýlega verið að mig minnir 6-földuð. Mikill hluti eyjanna er fyrir löngu útmældur til 80 ára, og á þeim tíma er engu hægt að breyta, nema hækka gjaldið fyrir nýjar útmælingar.