13.02.1926
Neðri deild: 6. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 817 í C-deild Alþingistíðinda. (2393)

6. mál, lærði skólinn í Reykjavík

Forsætisráðherra (JM):

Jeg geri ekki ráð fyrir því, að menn búist við langri ræðu um mál þetta að þessu sinni. Það lá fyrir síðasta þingi, og var þá vísað til stjórnarinnar, því að menn vildu bíða með afgreiðslu þess, þangað til yfirkennari Jón Ófeigsson kæmi heim úr utanför sinni, og fá að heyra, hvað hann legði til.

Frv. er ekki mjög mikið breytt frá því í fyrra. það er aðeins nokkru skýrara undirbygt í fáum atriðum. Jeg bað Jón Ófeigsson að fara yfir frv., og gerði hann við það nokkrar athugasemdir, sem teknar voru til greina að öllu leyti, að einu óverulegu atriði undanteknu.

Hvernig sem menn vilja nú taka þessu frv., þá er það víst, að nauðsynlegt er að athuga þetta mál í heild sinni, því það er vitanlegt, að mentaskólinn er nú orðið algerlega ónógur fyrir þá nemendur, sem hann sækja, og verður því einhverra bragða í að leita. Nú í ár eru þar tæpir 300 nemendur, og næsta ár munu þeir líklega verða yfir 300, en þeim fjölda er ekki hægt að koma fyrir í skólanum, enda hefir orðið í ár að koma nemendum fyrir niður í bæ, en það verður að telja óheppilegt.

Jeg vona, að hv. deild og þingið í heild athugi þetta mál alvarlega, því ekki dugar að vísa því frá enn á ný.

Það má kalla nýmæli, að hjer er í frv. gert ráð fyrir því, að bygt verði heimavistarhús við skólann, og á það að geta komist fyrir á skólalóðinni. Þetta munu flestir telja mjög mikið framfaraspor. Húsameistari ríkisins hefir gert áætlun um þetta hús, þar sem gert er ráð fyrir 40 manna heimavist. En ráðuneytið hafði hugsað sjer, að heimavist yrði fyrir að minsta kosti 50 nemendur, og þó þeir yrðu þetta fleiri, þá ætti kostnaður við bygginguna ekki að fara fram úr 150 þús. kr., að minsta kosti ekki svo nokkru nemi.