19.04.1926
Neðri deild: 57. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 850 í C-deild Alþingistíðinda. (2399)

6. mál, lærði skólinn í Reykjavík

Bernharð Stefánsson:

Það er aðeins ein hlið þessa máls, sem jeg ætla að gera að umtalsefni. Jeg get því lofað því að vera ekki mjög langorður, og það því fremur, sem jeg hefi áður vikið að sama efni, í sambandi við frumvarp mitt um mentaskóla á Akureyri.

Það, sem jeg á við, er sambandið milli Akureyrarskólans og mentaskólans hjer. Ef þetta. frv., sem hjer liggur fyrir, verður að lögum, þá er þessu sambandi þar með slitið, samþykt þess mundi því skerða rjett Akureyrarskólans og þar með allra Norðlendinga og Austfirðinga.

Háttv. frsm. meiri hl. (MJ) taldi frv. það til gildis, að samþykt þess yrði til þess, að stúdentaviðkoman minkaði. Það má vel vera, að breyting sú á skólanum, sem frv. felur í sjer, muni hafa þessi áhrif. En jeg álít, að þessi fækkun á tölu stúdenta mundi þá nær eingöngu stafa af því, að það yrðu aðeins börn Reykvíkinga og svo stórefnamanna út um land, sem gætu orðið stúdentar framvegis, en nemendum frá Norður- og Austurlandi og víðar langt að mundi verða ókleift að stunda nám í skólanum. Þó að það kunni að vera rjett, að stúdentaviðkoman sje orðin of mikil, þá má ekki kaupa fækkunina þessu verði; hún verður að byggjast á einhverjum öðrum og sanngjarnari grundvelli. Stúdentafækkuninni mætti t. d. ná með því að gera meiri kröfur til þroska og þekkingar en nú er gert. Það væri sanngjarnara, að hæfileikar skæru úr um það, hverjir gætu orðið stúdentar, heldur en hvaðan af landinu menn eru, eða hvernig þeir eru efnum búnir.

Þá sagði háttv. frsm. meiri hl. (MJ), að menn gætu fengið inntöku í efri bekki skólans, eins og áður hefði átt sjer stað, og færði hann þetta fram, til að rjettlæta sambandsslit skólanna. Hæstv. forsrh. (JM) vjek að þessu sama; hann sagði, að það væri ekki sjálfsagt, að sambandinu við skólann á Akureyri þyrfti að verða slitið með samþykt frv. En það stendur ekki neitt það í frv., sem gefið gæti upplýsingar um, hvernig sambandinu ætti að vera fyrir komið framvegis. Þessvegna vil jeg gjarna beina þeirri spurningu til hæstv. stjórnar, hversvegna þetta var þá ekki tekið fram í frv., og hvernig stjórnin hugsaði sjer, að þessu verði komið fyrir. Mjer skilst það af orðum hæstv. ráðh. (JM) og háttv. frsm. meiri hl. (MJ), að það sje áformað, að sambandið haldist, þrátt fyrir þessa breytingu á skólanum í Rvík. En eftir frv., eins og það liggur fyrir, sje jeg ekki, hvernig þetta má verða. Vænti jeg, að hæstv. ráðherra gefi nánari skýringu á þessu. En hvað það snertir, sem hv. frsm. meiri hl. (MJ) vjek að, að menn gætu lesið utanskóla eins og í gamla daga og síðan sest í einhvern af efri bekkjum skólans, þá er það að segja, að eins og nú er ástatt í landinu, hefi jeg litla trú á, að prestar taki nemendur heim til sín til að kenna þeim utan skóla, eins og fyrrum átti sjer stað. Menn verða að gæta þess, að nú lifa menn á öðrum tímum.

Jeg skal játa, að það, sem jeg nú hefi fært fram í þessu máli, hefi jeg sagt áður, og mætti því segja, að ekki væri þörf á að endurtaka það. En jeg vil þó ekki, að mál þetta verði svo afgreitt hjeðan, að ekki komi ennþá fram ákveðin mótmæli frá hendi Norðlendinga, vegna þess rjettindamissis, sem þeir yrðu fyrir, ef frv. yrði samþykt.

Þetta mundi og verða til þess, að Norðlendingar mundu krefjast þess, að fá þar skóla, sem hefði rjett til að útskrifa stúdenta, og þeir munu halda þeim kröfum áfram, þangað til þeir fá þeim fullnægt. Það verður ekki hægt að neita þeirri kröfu til lengdar, ef sambandi skólanna verður slitið.

Það gleður mig, að svo virtist, sem hæstv. forsætisráðherra (JM) og hv. frsm. meiri hl. (MJ) sjeu nú farnir að veita þessari hlið málsins einhverja athygli og sjá það, að ekki er fært að slíta sambandi skólanna, án þess að eitthvað komi í staðinn. En jafnvel þó að góð orð sjeu viðhöfð um, að sambandinu skuli ekki verða slitið, er þó hitt betra, að vita skýrt og ákveðið, hvernig þessu á að vera fyrir komið framvegis.