19.04.1926
Neðri deild: 57. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 862 í C-deild Alþingistíðinda. (2401)

6. mál, lærði skólinn í Reykjavík

Frsm. minni hl. (Ásgeir Ásgeirsson):

Hæstv. forsrh. (JM) og hv. frsm. meiri hl. (MJ) virtust báðir hafa skilið mig þannig, að jeg væri að hallmæla latínunni umfram önnur tungumál og aðrar námsgreinar yfirleitt. En svo ætlaðist jeg ekki til, að jeg væri skilinn, að jeg teldi hana í sjálfu sjer nokkurn háskagrip. En hún verður háskagripur, þegar komið er með kröfu um það, að mikill hluti af námskröftum ungra manna skuli færður sem fórn handa þessu fornfræga máli. Þá verður hún háskagripur. Rjett á sama hátt er kínverska enginn háskagripur í sjálfu sjer. En ef krafa um kínverskulærdóm kæmi hjer, þá yrði hún háskagripur, sem jeg býst við, að yrði barist á móti.

Báðir þessir háttv. þm. dróu þá ályktun af mínum orðum, að að jeg ætti að berjast fyrir því, að öll latínukensla yrði niður feld. Jeg get með sama rjetti sagt, að jeg skilji ekkert í, hversvegna þeir heimti ekki, að latínan sje kend strax í barnaskóla eða byrjað að þylja Alma mater yfir vöggubörnum. Þetta á hvorttveggja jafnmikinn rjett á sjer. En svona hlutur kemur oft fyrir í umræðum, að þegar einhver heldur einhverju sjerstaklega fram, þá er hann ávítaður fyrir að fara ekki út í öfgar. Þetta er sjerstaklega algengt í stjórnmálalífinu, og því ekki að undra, þótt það komi fram í þingsölum. Við höfðum á síðasta þingi tóbakseinkasöluna til meðferðar, sem jeg leyfi mjer að nefna í þessu virðulega sambandi. Þar var það meira en hálft þingið, sem vildi sýna 100% fylgi sitt við frjálsa verslun. Minna vildu menn ekki vita af. Við höfðum hjer einn hv. þm., sem vildi hafa ríkisrekstur á öllum hlutum, minna vildi hann alls ekki sætta sig við. Þarna á milli höfðum við svo framsóknarflokk, sem vildi fylgja frjálsri verslun í aðaldráttunum, en sætti sig þó ákaflega vel við að víkja frá því „höfuðprincipi“, til þess að afla ríkissjóði tekna. Þetta verður altaf aðstaða milliflokksins, eins í þessu skólamáli, að standa á móti öfgunum og berjast fyrir sanngjarnari kröfum. Vitanlega er sá milliflokkur altaf hæddur fyrir. Rjett eins og ef einhver flokkur tæki sjer fyrir að halda því fram, að bestur herbergis-hiti sje 100 stig, þá myndi rísa upp annar flokkur og staðhæfa, að heilnæmast væri 40 stiga frost eða svo. En svo þegar einn kemur fram og segir, að 17 stiga hiti sje það hæfilega, þá er hann skammaður fyrir að vera ekki heill í málinu, skammaður fyrir að ganga inn á samninga og málajöfnun í sínum tillögum. Þetta er ákaflega algengur hlutur, og jeg veit, að þessi öfgakenda áhersla á að hafa annaðhvort alt eða ekkert, hún stendur oft talsvert vel að vígi í allri „agitation“. En jeg hefi valið mjer það hlutskifti að njóta ekki þeirra kosta, sem öfgarnar hafa í almennum deilum, heldur verið sanngjarn, þar sem jeg vil, að latínu megi kenna að svo miklu leyti, sem má kalla hana gagnfræði, að svo miklu leyti, sem hún er stuðningur við önnur tungumál, og til nægilegs undirbúnings til þess að skilja latnesk hugtök og yfirleitt margt það, sem nútímamenningin hefir erft og mun ávalt geyma. Því er ekkert undarlegt, þótt jeg sætti mig við þá latínukenslu, sem nú er. Jeg mun ekki óska nú um stund, að úr henni verði dregið, en jeg mun standa á móti því, að hún verði aukin.

Hæstv. forsrh. (JM) taldi óheppilegt af mjer að minnast á Englendinga í sambandi við uppeldismálin. Jeg nefndi þá í sambandi við hið merkilega skólalíf í sumum hinum bestu ensku skólum. Að vísu er það rjett, sem hæstv. forsrh. (JM) sagði, að Englendingar hafa töluvert latínunám. En þó er það svo, að latínan lifir þar fremur í skólunum en í daglega lífinu. Latínan er að síga burt úr þjóðlífinu, en heldur sjer enn nokkuð í skólunum. En það kemur bráðlega að því, að það fer líka að sverfa undan henni þar. Að svo miklu leyti sem jeg hefi fylgst með enskum blöðum og bókmentum, fæ jeg ekki betur sjeð en að háværar raddir sjeu uppi á Englandi um það, að hinn forni andi og gagnsemi latínunnar sje að hverfa og sje lítið eftir nú annað en málfræðistagl. Jeg hefi heyrt, að Gladstone hafi verið einn síðasti „klassiski“ maðurinn í Parliamentinu. Fyrir hans daga úði og grúði af latneskum glósum og tilvitnunum, en nú kvað slíkt svo að segja aldrei heyrast. Að vísu er það einn ágætur íhaldsmaður, Baldwin, sem kvað eiga til að vitna í latínu. En sjálfur Lloyd George, sem er framsóknarmaður, gerir það aldrei, og er víst ekki færari latínumaður en Jón Arason. (KlJ: Hann var ekkert slæmur í latínu). Þá er Lloyd George verri.

Það er svo um sumt í ensku þjóðlífi, að það hefir staðið kyrt í straumi tímans. En um latínuna er það að segja, að það er þegar farið að sverfa að henni og ekki langt að bíða þess, að mjög dragi úr því valdi, sem hún enn hefir í landinu.

Hæstv. forsrh. (JM) mintist meðal annars á, að háskólamentunin væri annars kyns en gagnfræðamentunin. Þetta get jeg að mörgu leyti játað. En jeg vil bæta því við, að eftir því, sem jeg þekki háskóla okkar, þá er hann alt of líkur gagnfræðaskóla, og hvað snertir umbætur á kenslu í honum, þá mun jeg rjetta þessum mönnum höndina. Því ennþá mun beitt þar gamla lexíulærdóminum. En í guðfræðideild stendur að minsta kosti vel á að fara yfir mikið, án þess að skifta því í lexíur, og heimta svo eitt heildarpróf. En með því fyrirkomulagi, sem nú er, er guðfræðisdeildinni skift í eins margar deildir og námsgreinarnar eru margar.

Jeg held því, að aðalatriðið til að efla þroska og eftirtektargáfu nemendanna sje ekki námsgreinarnar, heldur aðferðin, sem beitt er við kensluna.

Þá vildi hæstv. forsrh. (JM) draga úr og jafnvel andmæla fullkomlega því, sem jeg hafði eftir rektor mentaskólans, að engin von væri til, að aðsóknin að skólanum myndi minka, þó að frv. þetta yrði samþykt. En þetta held jeg að sje rjett, því að samkvæmt frv. þessu er aðgangurinn að skólanum að minsta kosti jafngreiður, ef ekki greiðari en hann er nú, þar sem slept er prófi í sumum námsgreinum, sem nú er heimtað prófi. Eftir þessu er því auðsætt, að aðgangurinn að skólanum verður jafngreiður og áður, og jeg tala ekki um, þegar latínunni, þessum Kínalífs-elexir rökrjettra hugsana verður bætt við. Því hafi hún ekki þau áhrif, að verka sem aðdráttarafl fyrir skólann, á hún ekki lofið skilið.

Meðal annara ástæðna fyrir því, að ekki er hægt að taka latínuna upp, sem aðalgrein í skólanum, er sú, að almenningsálitið er ekki með henni. Það er henni mótsnúið. Og það hafði ekki litla þýðingu, þegar verið var að mikla veldi hennar þar, að blöðin, almenningsálitið, stóð gegn henni þá eins og raunar enn.

Annars finst mjer ekki vel samrýmanlegt, að lofa latínuna í öðru orðinu, en í hinu að lýsa henni sem þeirri fuglahræðu, sem hindri alla aðsókn að skólanum. En eigi hún að verka þannig, verður að sýna hana strax við dyr skólans, sem jeg fyrir mitt leyti tel vafasamt, hvort rjett sje, vegna hinna fátækari manna, sem ekki hafa efni á að veita börnum sínum dýra undirbúningskenslu.

Hv. frsm. meiri hl. (MJ) sagði, að jeg með niðurlagsorðum síðustu ræðu minnar hefði grafið undan öllu því, sem jeg var búinn að segja áður, þar sem jeg lagði aðaláhersluna á skólalífið. Hann sagði, að ef jeg vildi fá gott skólalíf, þá mætti jeg ekki vera á móti latínunni. En þetta er ekki rjett. Það, sem kemur fjöri í skólalífið, er ekki latínan, heldur íþróttir, leikfimi, umræðufundir o. fl. þessháttar, sem jafnframt veita nemendunum hinn sanna þroska. En að innibyrgja nemendurna yfir mygluðum latínuskræðum, það er ekki til þess að lífga skólalífið, heldur hið gagnstæða. Hjer er því um tvær andstæður að ræða.

Þá sagði þessi háttv. þm., að í Svíþjóð væri 9 ára undirbúningstími undir háskólanámið, en hjer væri aðeins 6 ára undirbúningstími. En hjer gleymdi hann að bæta því við, að undirbúningsmentunin skiftist þar, þegar börnin eru 9–10 ára, og frá þeim tíma telur hann

Á móti þessu berst framsóknin þar. Þannig berjast Svíar fyrir því, sem við fengum fyrirhafnarlaust, það væri því að snúa hlutunum við, að kasta frá okkur þeim kostum, sem við eigum, fyrir erlend gæði, sem viðurkent er, að þjóðirnar vilja losna við.

Þá gat hann þess, að jeg hefði sagt, að vel mætti flytja þýskuna niður í 3. bekk, og sneri sjer um leið að þeim kennaranum, sem hefir sagt, að vel mætti flytja latínuna niður í 3. bekk, og sagði jafnframt, að þetta sýndi veiluna í málstað okkar. En svo er ekki, þetta sýnir hið gagnstæða, og jafnframt hve þeirra óskifta höfuðósk hefir við lítil rök að styðjast.

Þá taldi hann mig hafa gert þeim upp skoðanir, sem þeim hefðu aldrei til hugar komið, og lagði mest upp úr, að jeg hefði sagt, að þeir hefðu talað um eðlismun á gagnfræðanámi og stúdentsnámi. En því talaði jeg um þetta, að einmitt á þennan eðlismun hefir aðaláherslan verið lögð á undanförnum þingum, og líka hjá milliþinganefndinni í skólamálunum. En úr því að flúið er úr því vígi líka, get jeg verið ánægður.

Þá var háttv. frsm. meiri hl. (MJ) með útreikninga um fjölda kennaranna, en sá útreikningur kom ekki alveg heim við það, sem jeg hafði frá rektor skólans. Rektor telur nú 10 fasta kennara með sömu launakjörum, og að bæta þurfi 7 kennurum við, ef frv. þetta verði að lögum. Við þetta bætist svo það, að hver kennari á að fá frí 10. hvert ár. Í stað þess þarf að bæta við sem svarar 2 kennurum. Verða þá alls 19 kennarar við skólann, 9, sem beinlínis verður að bæta við vegna þessarar breytingar á skólanum. (MJ: Jeg held, að rektor hafi aldrei sagt þetta.). Jú, víst hefir rektor sagt þetta, og þetta er hárrjett skýrsla, bygð á því, að sama aðsókn verði að skólanum eftir sem áður. Þetta vil jeg biðja þá háttv. þm., sem eru fylgismenn frv. að athuga. Að minsta kosti þá, sem altaf eru með sparsemina á vörunum.

Þá mintist hann á nafn skólans, og kvaðst geta fallist á, að því væri breytt, og vildi, að jeg kæmi með brtt. um það til 3. umr. En það mun jeg ekki gera. Mjer finst best, að þeir noti fánann sjálfir. Láti skólahúsið, bekkina og borðin, með latinu-skræðunum á, heita „lærða skólann“, því ekki kemur til; að nemendurnir verði lærðir, og skólinn geti þessvegna heitið lærði skólinn.

Þá talaði hann um, að jeg hefði notað mikið orðið „Reaktion“. Átti hann þar við, að ekki væri altaf vitlaust að hverfa til þess gamla. Meðal annars nefndi hann dæmi af endurvakningarstefnu miðaldanna. Undir þetta get jeg tekið með honum. En þess ber að gæta, að vorir tímar hafa ekki eins mikla þörf að finna fornöldina, eins og miðaldirnar höfðu. Því að vorir tímar eiga þessi gæði. Það þýðir því ekkert að gera sig að eins konar Kólumbus að þessu leyti. Við þekkjum fornöldina og getum lesið rit hennar í þýðingum, og þurfum því ekki að nota latínuna að því er það snertir. Þessu veit jeg að háttv. frsm. meiri hl. (MJ) neitar ekki. Hann, sem telur eins tryggilegt fyrir kristindóminn að eiga biblíuna í þýðingum eins og á frummálinu.