15.03.1926
Neðri deild: 31. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 880 í C-deild Alþingistíðinda. (2426)

69. mál, friðun Þingvalla o. fl.

Jörundur Brynjólfsson:

Mjer þykir vænt um, að frv. um þetta efni er fram komið, því að ekki mun veita af tímanum til 1930, ef koma á í kring þeim lagfæringum á Þingvöllum, er nauðsynlegt má telja. Það var að vísu ætlun mín, þá er þál. var samþ. 1919, að meira yrði búið að gera nú en orðið er, en það má vel vera, að slíkt komi ekki að sök. Jeg er viss um það, að það verður best vegna hátíðahaldanna 1930, að prýða þann stað eftir föngum, og jeg býst við því, að skemtilegustu endurminningar útlendinga þeirra, er hingað koma, verði bundnar við þann stað. En það er ekki ástæða til þess nú, að fara frekar út í þetta. Jeg skýt þessu svona til nefndar þeirrar, er frv. fær til meðferðar.

Það er sjerstaklega eitt atriði frv., sem jeg vildi drepa á, og eru það ákvæði 7. gr. Samkvæmt þeirri grein er það ekki útilokað, að reisa megi einhverskonar byggingar í þingvallakirkju landi, utan hins friðlýsta svæðis. Jeg lít svo á, að ekki sje vert að heimila byggingar á þessum stað, því að það getur orðið til skemda og haft áhrif til hins verra á svip Þingvalla og umhverfisins.

Menn eru ekki á eitt sáttir um það, hve stórt svæði eigi að friðlýsa, en mjer þykir of lítill sá reitur, sem ráð er fyrir gert í stjfrv., að friðlýstur sje. Þó geri jeg það ekki að ágreiningsatriði. Það er betra að hafa svæðið minna og alfriðað, heldur en stórt og hálffriðað.

Skal jeg svo ekki fjölyrða frekar um þetta að sinni, en vona, að hv. nefnd taki þessar bendingar til athugunar.