15.03.1926
Neðri deild: 31. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 881 í C-deild Alþingistíðinda. (2427)

69. mál, friðun Þingvalla o. fl.

Forsætisráðherra (JM):

Jeg get ekki skilið, að það sje rjett hjá hv. 2. þm. Árn. (JörB), að banna að reisa sumarbústaði milli hins friðlýsta svæðis og Hrafnagjár, sje það bundið því skilyrði, að ríkisstjórnin veiti leyfi til þess með ráði þingvallanefndar. Frá fegurðar eða sögulegu sjónarmiði er engin ástæða til þess að banna slíkar byggingar, því að þetta er langt fyrir utan þingstaðinn.

Þá talaði sami hv. þm. (JörB) um það, að hið fyrirhugaða friðlýsta svæði væri ekki nógu stórt, en mjer finst það alveg nógu stórt, nema hvað ástæða gæti verið til, að friða skógarbrekkuna hjá Hrafnagjá og skóginn inn með Ármannsfelli. Annars fer 7. gr. svo langt sem fært þykir nú sem stendur. Ábúendur hafa ef til vill rjett til þess nú, að leyfa byggingar, hver á sinni jörð, fyrir sinn ábúðartíma, en frv. á að girða fyrir þetta.