05.05.1926
Neðri deild: 70. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 885 í C-deild Alþingistíðinda. (2438)

35. mál, einkasala á útfluttri síld

Frsm. minni hl. (Jón Baldvinsson):

Þó að svo sje, að annað frv., sem snertir sama mál, sje komið jafnlangt og mitt, þykir mjer hlýða að fara nokkrum orðum um það við þessa aðalumræðu málsins. Við fyrstu umr. síldarfrv., sem afgr. var til 3. umr. fyrir fundarhljeið, var gerð nokkur grein fyrir því, hvernig þetta mál liggur fyrir. Málið hefir altaf

beðið úrlausnar, frá því 1920, síðan Síldveiðafjelag Íslands sendi erindi til þingsins og bað um löggjöf um þetta.

Síðan hefir sú stefna verið uppi hjá mörgum, að fá sett einhver lagafyrirmæli um þetta. Aðrir hafa viljað, að allir hefðu frjálsar hendur um þetta, jafnvel þó að heilli ársframleiðslu væri þar með stofnað í voða, og bæði verkamenn og útgerðarmenn bæru skarðan hlut frá borði.

Aðalmunurinn er sá, á mínu frv. og hinu, að í mínu frv. er málið tekið sterkari tökum. Mótbárur hafa komið fram og munu koma, hvort frv. sem verður samþ., og þær mundu skella á ríkisstj., ef mitt frv. verður að lögum, en annars á þeim hring, sem hæstv. stjórn mundi veita heimild til að fara með síldarsölu. Og jeg ætla að skjóta því til hv. þm., hvort þeim finnist ekki líklegt, að mótmæli frá erlendum þjóðum muni frekar koma fram, ef salan er hjá lögvernduðum hring fárra manna, heldur en ef hún er hjá ríkinu sjálfu. Þetta ætti að verða auðveldara fyrir ríkið en einstaka menn, vegna þess að fyrirkomulagið felur það í sjer, að hinir stærstu útgerðarmenn geta ráðið, hverjir eru í stjórn fjelagsins, en það mundi einmitt leiða af sjer mótbárur.

Mjer finst þetta fjelag hafa á sjer töluverðan hlutafjelags blæ. Fáir menn, sem flytja út mikla síld, geta ráðið fjelaginu, og er þá hætt við, að þeir stýri því sjer í hag. Alt verkafólkið, sem vinnur við þetta, á líka mikið á hættu, ef illa fer. Og það gæti farið svo, að þessi fámenni hringur kæmi í veg fyrir, að hinir smærri atvinnurekendur gætu stundað síldveiði. — Þetta væri útilokað eftir mínu frv. Jeg geri ráð fyrir, að með því fyrirkomulagi yrði tekið tillit til allra aðilja. Í annari grein er ákvæði um það, að stjórnin geti skipað einn mann eða fleiri, og þeir mundu sennilega verði fleiri, til þess að sjá um sölu og útflutning síldarinnar. Einnig mundi hún verða að hafa mann utanlands, til þess að sjá um sölu þar og útvega nýja markaði. Í frv., sem afgreitt var áðan til 3. umr., er þetta atriði tekið með, en það er líka í mínu frv.

Þessir kostir, sem mitt frv. hefir fram yfir hitt, gera það að verkum, að jeg álít, að það ætti heldur að ná fram að ganga.

Jeg skal játa það, að sum atriði, sem hafa valdið nokkrum deilum, svo sem um það, að takmarka veiðina o. s. frv. eru ekki tekin upp í mitt frv. En það væri auðvelt að koma því að, ef frv. væri lagt til grundallar í þessu máli, og mætti þá ákveða það með reglugerð.

Það eru til menn, sem vilja ganga lengra en gert er í frv. á þskj. 45, og álíta, að ríkið eigi að taka í sínar hendur ekki aðeins útflutning síldarinnar, heldur einnig síldarafurða, sem sje, að ríkið starfræki einnig síldarverksmiðjurnar. Ákvæði um þetta eru ekki í frv., en það er ekkert því til fyrirstöðu, að þau gætu síðar komist inn undir þessi lög. Jeg hugsa, að það þyki ekki tiltækilegt nú, að ríkið taki þannig alt í sínar hendur í einu, því að til þess mundi þurfa mikið fje. Hitt gæti verið, að svo gæti farið, þegar tímar líða, ef þingið sæi sjer fært að veita fje til þess.

Mjer er sagt, að sumar af þessum verksmiðjum hjer hafi ekki nýtísku vjelar, og framleiði því ekki eins góða vöru, eins og hún gæti orðið. það væri ef til vill óheppilegt, að ríkið tæki að sjer gamlar verksmiðjur, með ófullkomnum vjelum, og betra að setja upp nýjar verksmiðjur, sem settar væru á hentugustu staði, til að vinna úr þeirri síld, sem ekki er söltuð til útflutnings; og virðist þá Siglufjörður vera einhver hentugasti staðurinn. Þó að jeg hafi ekki sett ákvæði um þetta inn í mitt frv., þá er það af því, að jeg lít svo á, að það mundi ekki fá byr nú, að leggja fram fje í þessu skyni. Hinsvegar er jeg alveg sammála þeim mörgu, sem álíta, að rjett væri að ganga svo langt. Eftir frv. mínu eru það aðeins 2% af söluverði síldarinnar, sem eiga að renna í ríkissjóð, og ekki annað útflutningsgjald á síld, og er svo til ætlast, að 50% af því sje varið til að leita nýrra markaða. Hvað þetta ákvæði snertir, þá held jeg ekki svo fast við þessi 2%, að jeg geti ekki gengið inn á að hafa það hærra, því að það getur kostað mikið að útvega nýja markaði. Þetta eru alt atriði, sem auðvelt er að breyta. Hinu tel jeg ekki rjett að víkja frá, sem er höfuðmunurinn á frv. mínu og hinu, að það sje ríkið, sem framkvæmir þetta, ekki fyrir ríkisins reikning, heldur í umboðssölu, og greiði ekki síldina jafnóðum og hún er afhent, heldur þegar hún er seld, og þá meðalverð fyrir hana, eins og fyrir er mælt í 6. gr. þessa frv. Jeg veit ekki, hvort það er rjett af mjer að leggja frv. undir hnífinn nú. Jeg ætla að sjá, hverju fram vindur um umræðurnar, og mun þá, ef jeg sje ástæðu til, koma fram með einhver tilmæli til hæstv. forseta, áður en gengið er til atkv.