10.03.1926
Neðri deild: 27. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 901 í C-deild Alþingistíðinda. (2448)

58. mál, menntaskóli Norður-og Austurlands

Björn Líndal:

Það er aðeins eitt atriði í ræðu hv. flm. (BSt), sem jeg álít, að ekki megi dragast að mótmæla. Hv. flm. (BSt) gat þess, að gerst hefði einhver stórviðburður í sögu Akureyrarskólans á þinginu 1924, og nefndi það sem hliðstæðan viðburð við það, er sambandinu við mentaskólann var komið á. Þessu vil jeg fastlega mótmæla. Þá gerðist ekkert annað en það, að Alþingi heimilaði stjórninni að gera það, sem hún hafði leyft áður. Jeg hefi hjer till., og skal með leyfi hæstv. forseta lesa hana upp:

„Neðri deild Alþingis ályktar að heimila að nota húsrúm og kenslukrafta gagnfræðaskólans á Akureyri, sem af kynni að ganga, ef bekkjum skólans yrði ekki tvískift, til að greiða götu fátækra og efnilegra nemenda úr skólanum við framhaldsnám, með því skilyrði, að sú breyting auki ekki útgjöld ríkissjóðs til skólans.“

Hjer er, með öðrum orðum, ekkert verið að gera annað en það, sem stjórnin hefir heimild til að gera án þess að spyrja þingið nokkuð að, það er verið að veita leyfi til að nota húsrúmið, án þess að þrengja að þeirri kenslu, sem þar á að vera.