10.03.1926
Neðri deild: 27. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 901 í C-deild Alþingistíðinda. (2449)

58. mál, menntaskóli Norður-og Austurlands

Magnús Jónsson:

Jeg ætla ekki að fara að amast við því, að þetta frv. fái að ganga til 2. umr. og mentmn., og væri því kannske ekki bein ástæða til þess að vera að taka til máls, þó að þetta mál sje í fylsta máta efni til að ræða við 1. umr., en það er sjerstaklega eitt atriði í ræðu hv. flm. (BSt), sem mjer finst dálítið óþarft að vera að blanda hjer inn í, og það staðfestir þann grun, að í þessu skólamáli Akureyrar sje beitt „agitationum“, sem ekki sjeu neitt fallegar. Það eru þessar dylgjur um, að skólavistin myndi vera öllu hollari þar en hjer í Reykjavík. Jeg veit ekki, hvað satt er í því, en jeg hefi heyrt, að það muni vera „agiterað“ fyrir skólanum á Akureyri með því fylliríi og ólifnaði, sem piltarnir kæmust í hjer. Jeg er þessu að vísu ekki mjög kunnugur, en hygg þó, að hjer sje mestmegnis um ýkjur að ræða. Það hefir verið drykkjuskapur í skólanum hjer, þegar drykkjuskaparöld var á öllu landinu, og jeg held í raun og veru, að það sje mikill óþarfi að vera að nota þetta meðal í þessari baráttu. Hollasti staðurinn fyrir skólann verður sjálfsagt sá, sem gefur best skilyrði til mentunar. Jeg held, að það verði ekki hægt að dæma eftir öðru, og þó að Reykjavík kunni að hafa lítið að bjóða í því efni, þá held jeg, að hún hafi þó mest að bjóða af bæjum hjer á landi. Hvað það snertir, sem hv. flm. (BSt) sagði, að Akureyri væri ódýrari bær en Reykjavík, þá vil jeg geta þess, að hingað hafa borist tvö skjöl um það, hvort ódýrara væri að lifa á Akureyri eða í Reykjavík. Annað skjalið var um það, að koma upp skóla fyrir norðan. Þar var það náttúrlega fært til, að ódýrara væri fyrir nemendurna að lifa þar. En hitt var um, að það þyrfti að launa embættismenn eins hátt þar, og þá var fullyrt, að Akureyri væri alveg eins dýr staður og Reykjavík. Og hverju á svo að trúa? Það er jafndýrt að lifa þar, þegar á að launa embættismenn, en ódýrara, þegar um námsmenn er að ræða. Jeg held nú, að sannleikurinn sje sá; að það sje dálítið dýrara að lifa í Reykjavík, einkum er húsaleiga hærri og innlendar afurðir dýrari. En mestu munar á því, að á Akureyri eru heimavistir fyrir nemendur, en hjer eru þær ekki komnar.

Annars er ástæða til að minnast á fleira í ræðu hv. flm. (BSt) t. d. þessi sögulegu rök, sem altaf er verið að bera fram, en sem ekki eru nein rök, eins og nú er komið. Það var alt öðru máli að gegna, þegar landinu var skift í 2 biskupsdæmi og lærðir skólar voru í landinu aðeins til þess að koma upp prestum. Þá var ósköp eðlilegt, að skólarnir væru tveir, hvor í sínu biskupsdæmi. Þessi ástæða er nú niður fallin, og nú er ekki annað eftir en metnaðurinn í þessu máli.

Einnig blandaði hv. flm. (BSt) inn í þetta mál því frv., sem nú liggur fyrir Nd., um lærða skólann í Reykjavík. Af tveim ástæðum hefir verið barist á móti því, að Reykjavíkurskólanum yrði breytt. Önnur ástæðan er sú, að skólinn sje með breytingunni færður í verra horf en hann áður var i. Hin ástæðan er hreppapólitísk og alveg óframbærileg, sem sje sú, að ekki megi gera það vegna Akureyrarskólans, án tillits til þess, hvort Reykjavíkurskólinn verði betri eða verri. En það er sjálfsagt að gera Akureyrarskólann þannig úr garði, að nemendur þaðan geti komist inn í lærða skólann hjer. Jón Ófeigsson mentaskólakennari hefir bent á leið til þess, sem vel mætti fara.

Það er alveg satt, að það er hart aðgöngu, að fátækir menn, en bráðvel gefnir, geti ekki notið náms vegna þess, að þeir hafa engan skóla heima hjá sjer. En mentaskóli á Akureyri mundi ekki bæta úr þessu, nema fyrir Akureyri sjálfa og bæina í kring. Hann mundi ekki bæta úr þessu fyrir Austurland eða Húnavatnssýslu eða Skagafjarðarsýslu. Þegar senda þarf nemendur alveg burt af heimili sínu, er sama hvort þeir fara nokkrum mílum lengra eða skemra að heiman.

Það, sem gerir það að verkum, að jeg get ekki fylgt þessu frv. áfram, er fyrst og fremst það, að jeg álít skóla á Akureyri óþarfan, nema fyrir Akureyri sjálfa, því að enginn hörgull er á embættismönnum, og eftir frv. um lærða skólann í Reykjavík batnar aðstaða nemenda hjer stórum, þegar heimavistir koma. Jeg álít mentaskóla á Akureyri jafnvel skaðlegan, ef hann yrði til þess að stúdentaframleiðsla yrði of mikil í landinu. Eða skyldu Eyfirðingar vilja missa gagnfræðaskólann? Ef mentaskóli verður settur á Akureyri, þá veitir ekki af gagnfræðaskólahúsinu fyrir þann skóla. En þó að neðri deild mentaskólans verði kölluð gagnfræðaskóli, þá er það bara nafnið tómt. En ef mönnum er sama um, þó að þeir missi gagnfræðaskólann, þá þeir um það.

Jeg skil ekki, hvað vakir fyrir háttv. flm. (BSt), þegar hann vill hafa Akureyrarskólann tvískiftan, ef hjer verði óskiftur lærður skóli. Jeg held, að sterkustu rökin fyrir tvískiftingunni hjer sje sambandið milli skólanna.

Jeg hefi ekkert á móti því, að mál þetta fari til nefndar, en jeg hefði álitið heppilegast, ef skólinn hjer verður óskiftur lærður skóli, að um leið yrði komið á á Akureyri námsskeiði, eins og Jón Ófeigsson hefir bent á, fyrir þá, sem vildu halda áfram við skólann hjer.