15.03.1926
Neðri deild: 31. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 913 í C-deild Alþingistíðinda. (2457)

63. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Flm. (Árni Jónsson):

Á síðasta þingi bar jeg, ásamt fleirum, fram frv. þess efnis, að ákvæði laganna um skemtanaskatt og þjóðleikhús skyldi einnig ná til skemtana og dansleikja innan fjelaga. Reynslan hefir sýnt hjer, að það hefir mjög tíðkast, að stofna málamynda fjelagsskap, til þess að sleppa við skattinn. Hjer hefir hver bæjarhluti sinn klúbb, auk margra fleiri, sem kendir eru við ýms stórmenni, svo sem kvikmyndaleikara og þess háttar fólk. Frv. í fyrra bygðist á þeim eðlilega tilgangi löggjafans, að skattleggja hinar ljelegri skemtanir, til þess að efla og styrkja þær göfugri. Frv. kom seint fram þá og dagaði uppi, en nú hefi jeg, ásamt fleirum, tekið það upp að nýju, með nokkrum víðtækari ákvæðum. Nú gildandi lög ná til kaupstaða með 1500 íbúum og þar yfir, en eftir þessu frv. er þeim ætlað að ná til þorpa með 500 íbúum. Þetta er gert til þess að styrkja því betur þjóðleikhúsið, sem er alþjóðarstofnun og merkilegt menningarfyrirtæki, og því ekki nema sjálfsagt, að sem flestir taki þátt í því. Það væri ekki nema eðlilegt, að engin takmörkun væri sett hvað fólksfjölda snertir, en þetta ákvæði er þó sett vegna þess, að það er óhægt að koma þessu við í smæstu kaupstöðunum.

Frv. þetta er borið fram eftir óskum áhugamanna hjer í bænum, sem þykir seint ganga að safnast í þjóðleikhússjóðinn. Það er gert ráð fyrir, að það muni kosta um 800 þús. krónur. Nú koma í sjóðinn um 40 þús. krónur á ári, og er gert ráð fyrir, að sjóðurinn muni verða orðinn 1929 í kringum 300 þús. krónur. En þeir, sem áhugasamastir eru í þessu efni, ætlast til þess, að þjóðleikhúsið verði komið upp 1930. Því er hjer farið fram á þessa breytingu til þess að efla vöxt sjóðsins. Það er ekki hægt að vita með vissu, hve miklu þetta nemur á ári, en það verður töluvert fje.

Jeg ætla ekki að fara mikið inn á menningarhlið þessa máls. Hv. þm. þekkja leikhúsið og vita, að það er ekki samboðið leikkröftum þeim, sem hjer eru, og leiksviðsútbúnaður allur verður ómögulegur. Hvorki leikendur nje áhorfendur njóta sín í leikhúsinu eins og það er.

Jeg skal svo ekki fara fleirum orðum um þetta, en geri það að tillögu minni, að frv. verði, að þessari umræðu lokinni vísað til allshn. Í fyrra var það að vísu í mentmn., en mjer er kunnugt um, að einn hv. þdm., sem er mjög ósamþykkur þessu frv., á sæti í allshn., og tel jeg því heppilegast, að frv. fari þangað, svo hann fái að kynnast því rækilega.