29.04.1926
Neðri deild: 65. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 917 í C-deild Alþingistíðinda. (2461)

63. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Frsm. minni hl. (Pjetur Þórðarson):

Eins og sjá má á þskj. 419, erum við tveir nefndarmenn, háttv. þm. Borgf. (PO) og jeg, mótfallnir því, að frv. þetta verði að lögum. Jeg skal kannast við það fyrir hönd okkar beggja, að í nál. er full-ákveðið til orða tekið, þar sem sagt er, að við sjeum að öllu leyti á móti frv. Ef 1. gr. verður feld, get jeg sagt það, að minsta kosti fyrir mig, að jeg sje þá ekki ástæðu til þess að greiða atkv. gegn málinu. Jeg býst líka við því, eftir greinargerð frv. og nál. meiri hl. að dæma, að það sje aðalatriðið fyrir flm. að 1. gr. verði samþykt. En ef gengið er út frá að svo verði, erum við á móti frv.

Aðalástæðuna fyrir því, að við getum ekki fallist á frv., byggjum við á því, að í nál, meiri hl. er lögð áhersla á nauðsynina til þess að hefjast handa og skattleggja einstaklinga og sjerstök hjeruð, til þess að undirbúa byggingu þjóðleikhúss. Okkur virðist sem sje, vera fremur ástæða til þess að styðja að því að greiða fram úr mörgu öðru, sem er enn meira aðkallandi, en hefir þó ekki þótt fært að styrkja af opinberu fje, sökum fjárhagsörðugleika. Má kannske segja, að skatturinn sje lagður á, hvort sem er, og virðist þá rjett að láta hann ganga sjerstaklega til þjóðleikhúss. En þegar svo er ástatt, að það mundi draga frá öðrum þörfum stofnunum, finst mjer rjettara að styrkja heldur það, sem menningargildi hefir. En við erum algerlega mótfallnir því, að færa þenna skatt yfir á fleiri kauptún en nú er í lögunum. Skal jeg svo ekki þreyta deildina með því að fara lengra út í þetta mál.