29.04.1926
Neðri deild: 65. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 921 í C-deild Alþingistíðinda. (2463)

63. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Jakob Möller:

Mjer virðist, að brtt. á þskj. 396 hljóti að vera bygð á talsverðum misskilningi. Mjer skilst, að hv. 1. flm. (SigurjJ) og meðflutningsmenn hans hafi bygt á því, að hjer hafi verið algerlega um nefskatt að ræða á íbúum þeirra kaupstaða, sem lögin ná til. Þessi skilningur er mjög hæpinn, þetta er ekki nefskattur, heldur skattur á skemtanir. Gjaldið kemur ekki niður á þeim, sem skemtanir sækja, heldur þeim, sem halda þær. Hv. þm. geta reitt sig á, að aðgöngumiðar að bíó t. d. og hljómleikum og yfirleitt öllum skemtunum, mundu seldir sama verði, hvort sem skattur væri eða ekki. Það, er siður að selja aðgöngumiða því fylsta verði, sem búist er við, að almenningur vilji fyrir þá gefa. Hjer er því að ræða um skatt, sem lagður er á þá, sem stofna til skemtana, en alls ekki nefskatt, þá kom hv. 1. flm. brtt. (SigurjJ) að þesari hugmynd, sem liggur á bak við og aldrei hefir verið hreyft mótmælum gegn, að nota ómerkari skemtanir til þess að lyfta undir leiklistina. Hann viðurkendi, að málið væri gott, og vildi bæta leikhússjóðnum tapið með því, að lagt væri fram fje úr ríkissjóði.

Jeg gæti glaður gengið að þessum skiftum fyrir hönd leikhússjóðsins, ef jeg væri viss um, að slíkt framlag fengist, en jeg býst við, að ekkert kæmi ístaðinn, ef brtt. yrði samþykt. Jeg hefi enga trú á, að framlag fengist úr ríkissjóði, a. m. k. vildi jeg heyra undirtektir meðflutningsmanna till. Jeg efast ekki um hv. aðalflm. (SigurjJ).

Jeg stóð anars aðallega upp til þess að skýra frá, að jeg mun koma með nýja brtt. við 3. umr., sem jeg býst við, að mörgum falli vel í geð, þess efnis, að flytja alla sjónleiki undir 10% skatt. Jeg geri ekki ráð fyrir, að það verði tap fyrir sjóðinn, því leikið mundi verða á ýmsum stöðum úti um land, sem annars legðu ekki út í það.

Jeg vildi einnig benda flm. till. á þskj. 396 á, að hjer er um millileið að ræða, að þó að þeir gætu ekki fengið samþykta þessa brtt. sína, þá kynnu þeir að geta fengið felda 1. gr. frv. þá hefði frv. í raun og veru ekki aðra breytingu en þá, að skattur yrði lagður á alla dansleika. Skil jeg ekki, að nokkrir hafi ástæðu til að vernda þá frá skatti. Skal jeg svo ekki fleira segja, fyr en jeg hefi heyrt undirtektir hv. flutningsmanna brtt. á þskj. 396.