29.04.1926
Neðri deild: 65. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 924 í C-deild Alþingistíðinda. (2465)

63. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

2465Sveinn Ólafsson:

Hv. 3. þm. Reykv. (JakM) mæltist til þess, að meðflutningsmennirnir að brtt, á þskj. 396 segðu til litar, ef þeir væru ekki sammála þeim formála, sem aðalflutningsmaður hafði fyrir till. Út af þessum ummælum hans vildi jeg gera grein fyrir, hvernig á því stendur, að jeg get ekki fylgt honum í öllu því, er hann sagði.

Jeg er honum samdóma um það, að skattur þessi komi nokkuð handahófslega niður á gjaldþegnum. Hann er eftir gildandi lögum bundinn við fáa kaupstaði með ákveðinni íbúatölu, og aðeins einn þeirra nýtur allra fríðindanna.

Ef viðurkent er, að rjettmætt sje að taka þennan skatt af landsmönnum, þá er rjettlæti nær sú till., að taka líka skatt af hinum fámennari kauptúnum. En fult rjettlæti næst þó engan veginn með því. Ef gera á þennan skatt að almennutn þjóðarskatti, og líta á byggingu þjóðleikhúss eins og nauðsynjamál, sem framkvæma verði, þá finst mjer aðgengilegust sú leið, að fjeð sje greitt árlega úr opinberum sjóði. Jeg gæti aðhylst þá leið, ef ekki stæði svo á, að hjer bíður fjöldi annara framkvæmda eftir því, að efni leyfi að hefjast handa. Jeg verð að líta á þetta mál fyrst og fremst sem bæjarmál Reykjavíkur. Leikhúsið verður fyrst og fremst fyrir Reykjavíkurbæ og nýtur væntanlega styrks af opinberu fje öllu frekar en leikhúsið nú gerir. Vitanlega hafa ýmsir aðrir landsmenn nokkur not af því; en ekki nema í litlum mæli, og fjöldi manna alls engin. Það, sem aftrar mjer frá að fylgja því fram, að nú sje sá upp tekinn að leggja fje úr ríkissjóði til þessa fyrirtækis, er, að jeg álít margt liggja ógert, sem ganga verður á undan. Þessvegna verður að sætta sig við, að svona fjársöfnun gangi seint, og að Reykjavík annist hana einsömul.

Hjer eru manndrápsvötn óbrúuð, nær því í hverri sveit; hjer eru vegleysur, sem aftra öllum samgöngum á stórum svæðum; hjer eru símalaus stór hjeruð og sumstaðar læknislaust. Þetta á vissulega miklu meiri rjett á sjer en þjóðleikhús. Hjer eru mjög stopular og ónógar strandferðir. Þær eiga meiri rjett á sjer en leikhús. Hjer eru ótal verkefni fram undan, sem bíða eftir fje, svo að hægt sje að sinna þeim. Það á ekki við, að láta slíkt fyrirtæki sem þjóðleikhús ganga á undan þessu.

Jeg lýsi því yfir, að þó að jeg sje meðflutningsmaður till. á þskj. 396, sem stefnir að því að binda skattinn til leikhússins við Reykjavík eina, þá er ekki ætlun mín að snúa blaðinu við á þann hátt að leggja því lið, að þetta þing veiti fje úr ríkissjóði til leikhússjóðsins, ef till. verður samþykt. Það er best, að hver komi til dyranna eins og hann er klæddur. Jeg þykist hafa gert það og með því orðið við ósk hv. 3. þm. Reykv. (JakM), sem mæltist til, að meðflutningsmenn till. segðu, hvað þeir mundu gera, þegar kæmi að spurningunni um, hvort veita skyldi fje úr ríkissjóði til leikhússjóðsins.