29.04.1926
Neðri deild: 65. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 932 í C-deild Alþingistíðinda. (2467)

63. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Frsm. meiri hl. (Árni Jónsson):

Það vill svo vel til, að jeg hefi yfir höfuð litlu að svara hv. frsm. minni hl. (PÞ). Þeir skiftu með sjer verkum, hv. þm. Mýra. (PÞ) og hv. þm. Borgf. (PO), eins og þeir gerðu forðum bræðurnir Móses og Aron. Tók háttv. þm. Mýra. (PÞ) að sjer hlutverk Arons, og þótti mjer fara vel á því. Svo fór þó að lokum, að Móses fjekk líka málið og bar ekkert á tunguhaftinu.

Hv. þm. Mýra. (PÞ) fann ekki ástæðu til að greiða úr þeim örðugleikum, sem væru við það að koma hjer upp þjóðleikhúsi; en hinsvegar taldi hann vera ýms önnur viðfangsefni óleyst, sem meira væri um vert. Jeg vil benda á, að þeir, sem standa gegn þessu frv., gera meira en það eitt, að tefja fyrir byggingu þjóðleikhússins, þeir draga úr og hindra eflingu leiklistarinnar alment, og með brtt. 396 fara þeir ennþá lengra, því að verði hún samþ., er mjög tvísýnt um, að þjóðleikhúsið komist hjer nokkurntíma upp.

Þessi skattur er að mínu áliti í alla staði rjettmætur, eins og háttv. 3. þm. Reykv. (JakM) tók fram. Þessi aðferð er mjög aðgengileg, að skattleggja ljelegri skemtanir fyrir hinar, sem bestar eru taldar og göfugastar.

Hv. þm. Ísaf. (SigurjJ) taldi þetta sjermál Reykjavíkur. En hann komst þó í raun og veru í mótsögn við sjálfan sig, vegna þess að hann vildi, að fyrirtækið yrði styrkt úr ríkissjóði, sem næmi því sem það misti við það, sem till. hans fer fram á, það er að segja styrkinn frá þeim fjórum kaupstöðum, sem skattlagðir eru eftir núgildandi lögum.

Ef þetta frv. nær fram að ganga eins og við flm. ætlumst til, þá bætast við 15 nýir kaupstaðir og kauptún. Í þeim er samtals kringum 12 þús. íbúar, eða 11½ þús. í árslok 1924. Þess má vænta, að frá þessum stöðum muni koma álíka mikill skattur eins og frá þeim 4 stöðum utan Reykjavíkur, sem þegar eru skattaðir.

Hv. þm. vitnaði í það, að í greinargerð frv. er um það talað, að þessi skattálagning komi ekki fyllilega rjettlátlega niður. Við flm. sjáum ekki ástæðuna fyrir því, hversvegna endilega á að skattleggja Akureyri með 3 þús. íbúa og Ísafjörð með rúmar 2 þús., en sleppa t. d. Siglufirði og Akranesi. (PO: Akranes er ekki kaupstaður). Kauptún að vísu, en með á 12. hundrað íbúa, 11 hundruð í árslok 1924. Merkilegt, að hv. þm. Borgf. (PO) vill ekki vera með að draga úr þessu órjettlæti.

Jeg get sagt hv. þm. Ísaf. (SigurjJ) það, að það er engin von til þess, að hann fái meðflutningsmenn sína til að ganga inn á það, að framlag til þjóðleikhússins verði greitt úr ríkissjóði. Hv. l. þm. S.-M. (SvÓ) hefir lýst sinni skoðun á því, sem ekki hefir verið mótmælt. Hv. þm. Borgf. (PO) heyrði jeg ekki fara inn á þetta, en jeg þekki þá þann mann illa, ef hann vill fara að leggja ríkissjóðsfje í þjóðleikhús.

Jeg held sem sagt, að það greini miklu meira milli flm. till., heldur en milli okkar aðalflm. Vil jeg þessvegna skjóta til hans í allri vinsemd, hvort hann vilji ekki taka þessa till, aftur.

Þá er hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ). Hann taldi það rjettlætinu nær að samþ. till. okkar um að gera skattinn sem víðtækastan. En öll hans ræða hnje að því, að ekki væri rjett að styrkja þetta fyrirtæki, vegna þess að svo margt annað sæti fyrir. En jeg skil ekki, hversvegna nú á að fara að taka þennan skatt frá þjóðleikhúsinu, og hvað það kemur því við, hvort ár sjeu óbrúaðar, strandferðir ekki sem fullkomnastar o. s. frv. Skil ekki, að strandferðir batni við það, að svifta þjóðleikhúsið þeim tekjum, sem það hefir.

Í rauninni er það ástæðulaust að vera að eltast mjög við þessar ræður. En jeg vil benda á það, eins og jeg gerði í upphafi þessa máls, að þótt lögin, eins og þau voru afgreidd 1918, geri ráð fyrir því, að þessum skemtanaskatti yrði varið til almennra hreppsþarfa, þá kom það þó fram í Ed., að rjett væri að taka þennan skatt í sjerstökum tilgangi og þá til þess að hlúa að listum og mannúðarstarfsemi.

Það var hálfgerður barlómur í háttv. þm. Borgf. út af því, að verið væri að hrifsa skattinn frá ýmsri mannúðarstarfsemi, sem ætti að ganga fyrir þessu. En hann nefndi engin dæmi, að þessu væri sjerstaklega varið til þess neinsstaðar.

Hv. þm. talaði um tíma eins og hann bæri sjerstaka umhyggju fyrir leiklist. Taldi, að vegna þess, hve mikið er lagt á leiksýningar út um landið, yrði það til að draga úr leiklistinni alment í kauptúnum landsins. En samkv. því, sem hann hefir sjálfur haldið fram, þá verður þessu sjálfsagt ekki varið til þess að efla leiklist í þessum kauptúnum. Hygg jeg hv. þm. mundi frekar vera meðmæltur því, að í hans hreppi yrði þessu varið til einhvers annars. Þessi leiklistaráhugi hans er líka fyrirsláttur einn. Jeg held, að hann standi mjög á öndverðum meið við þá menn, sem hafa áhuga á leiklist á þessu landi.

Jeg held jeg fari rjett með það, að þegar lögin um skemtanaskattinn voru á ferð 1923, greiddi hv. þm. því atkv., — minnir að hann bæri fram till. um það, — að skatturinn næði til kauptúna, sem hafa 1500 manns. Jeg sje ekki ástæðu til að skattleggja fremur Akureyri, sem liggur svo afarfjarri þessum bæ, heldur en þá bæi, sem besta aðstöðu hafa til að njóta þjóðleikhússins. Ef gengið er út frá, að þeir, sem hjer búa næstir, hafi mest not af þjóðleikhúsinu fyrir utan Reykvíkinga, þá yrðu það Hafnfirðingar og Akurnesingar. Eftir hugsanagangi háttv. þm. sje jeg ekki ástæðu til að skattleggja Akureyri, sem hefir svo miklu verri aðstöðu til að nota leikhúsið í Reykjavík en Akranes, sem er klukkutíma ferð frá bænum.

Jeg lít á þetta leikhús sem alþjóðarstofnun, og þessvegna beri Reykjavík ekki sjerstaklega að styrkja það fremur en aðrar alþjóðastofnanir, sem hjer eru, t. d. söfn, háskólann og annað þessháttar. Og verði till. þessi samþ., held jeg, að vel geti farið svo, að komi upp þær sömu raddir og voru á þinginu 1923, að Reykjavík telji sjer ekki sjerstaklega skylt að halda uppi þessari stofnun. Jeg held það sje ekki hægt að skylda bæinn til þess. Þessi till. er því bein fjörráð við þjóðleikhúsið, ekki einungis við frv., sem liggur fyrir, heldur við stofnunina sjálfa um mjög langan tíma. Og jeg trúi síst tillögumönnunum sjálfum, að undanteknum aðalflm. (SigurjJ), til þess að leggja fram fje úr ríkissjóði í þessu augnamiði. Erlendis er þetta þó gert. Það er viðurkent, að þjóðleikhús eru alþjóðarstofnanir. En hjer er snúið að því heillaráði, að láta hinar lakari skemtanir halda uppi hinni göfugustu skemtun. Leiklistin er talin göfugust skemtun allra; hún hefir tök á að flytja mönnum dýpstu og göfugustu hugsanir ýmissa mestu skálda og spekinga, sem uppi hafa verið á öllum tímum. Og hvað sem flm. till. segja, þá held jeg, að menn út um landið kunni þessari tilhögun vel. Í þingmálafundargerðum, þar sem altaf er verið að tala um að afnema skatta, man jeg ekki til að hafa sjeð, að nokkur amaðist við þessum skatti sjerstaklega. Menn virðast ekki vera að horfa í það, þegar þeir skemta sjer á annað borð, hvort það fari 1/10 af því, sem þeir eyða, til að styrkja jafn-gott fyrirtæki og þjóðleikhús. Jeg held, að metnaður kjósenda hv. flm. þessarar till. sje miklu meiri en þeirra sjálfra. Jeg held þeir geri kjósendum sínum rangt til með því að flytja þetta, með því að gera þennan órökstudda barlóm fyrir þeirra hönd. (HK: Þeir eru ekki svo metnaðarfullir!). Jeg veit ekki um Barðstrendinga, þekki þá manna minst. Má vera, að þeir sjeu metnaðarlitlir. En ekki kemur það fram í valinu á þingmanni þeirra. Þeir velja þennan ágæta þingmann ár eftir ár með miklum meiri hluta, og það virðist benda á, að þeir sjeu metnaðarmenn og drengir góðir.

Jeg get ekki ímyndað mjer, að þessi till. verði samþ. Jeg hefi þá von og það fulla traust til hv. deildarmanna, að þeir felli hana. En ef svo færi, að hún yrði samþ., þá yrði það mjög góður mælikvarði á undirbúning hv. þm. sumra hverra undir þann mikla merkisdag í okkar sögu, dómsdaginn 1930. Það væri sjerstaklega góður mælikvarði, ef svo færi, að þingið afgreiddi ekkert annað í sambandi við þennan merkisdag en að drepa þessa stofnun, sem er ætlast til að verði eitt af glæsilegustu merkjum okkar menningar 1930. Skal svo óska hv. flm. til sjerstakrar hamingju með till., ef hún nær samþ. hjer.