29.04.1926
Neðri deild: 65. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 938 í C-deild Alþingistíðinda. (2469)

63. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Pjetur Ottesen:

Það er ekki nema örlítið, sem jeg þarf að svara. Hv. frsm. þessa máls (ÁJ) andmælti nokkrum atriðum í ræðu minni, og þarf jeg lítið að fara inn á það. Andmæli hans voru svo veik, að þau hröktu ekki neitt af því, sem jeg hefi fram flutt mínu máli til stuðnings. En hv. þm. var eitthvað að koma því að, — sem kanske hefir komið því til leiðar, að það sprakk blaðran hjá hv. 2. þm. Reykv. (JBald), — að það hefði verið hreppapólitík í þessu máli. Hann kvað það undarlegt, að íbúatölutakmarkið skyldi vera 1500, og setti það í samband við kauptún í mínu kjördæmi. Jeg hugsa, að þarna sje ekki meira samband milli kauptúnsins í mínu kjördæmi heldur en ýmissa annara kauptúna. T. d. hefir Norðfjörður svipaða íbúatölu, og fleiri kauptún. En úr því að hv. þm. var að fara inn á hreppapólitík, þá vildi jeg benda á það, hvort það myndi vera alveg af tilviljun, að háttv. 2. þm. N.-M. (ÁÁ) hagar íbúatölutakmarkinu í sínu frv. þannig, að Norður-Múlasýsla á ekki að offra neinu á þessu altari. — Jeg vildi leiða athygli manna að því, hvort þetta er tilviljun eða hvort það á rót sína í einhverju öðru. Það er nefnilega venjan, að þeir, sem brigsla öðrum um hreppapólitík og hrossakaup, þeir eru mest haldnir af hinu sama sjálfir. Þetta er aðalreglan, þótt það kunni að vera til undantekningar.

Hv. þm. talaði svo um metnað kjósenda, og að við myndum ekki sýna rjetta mynd af metnaði kjósenda okkar. það verð jeg að segja, að þá lítur hv. þm. undarlegum augum á metnað kjósenda, ef hann heldur það metnað þeirra á Akureyri og Ísafirði, sem, t. d. að taka, hafa lagt mikið af mörkum til að efla leiklistina hjá sjer, að leiklist þeirra sje skattlögð og dregin niður í saurinn, til þess að upphefja leiklistina hjer í Reykjavík.

Nei, mjer fanst það koma greinilega fram hjá hv. frsm. (ÁJ) og reyndar í frv. yfirleitt, að þetta sje einn þátturinn í því að reyna að draga alt undir Reykjavík, — tilraun til að láta löggjafarvaldið leggja lóð á skálina, til þess að hlutur Reykjavíkur verði líka á þessu sviði meiri en annara. Mjer virðist þetta byggjast á því, — jeg veit ekki hvort á að kalla það höfuðstaðar-rembing eða eitthvað annað, — að það er eins og menn helst áliti, að eiginlega engri frumlegri hugsun eða sjálfstæðri geti skotið upp, og því síður þróast, utan Reykjavíkur, og alt slíkt í eðli manna verði að fá sitt lífsloft og næringu í Reykjavík. Og það styrkti mig í þeirri trú, að þetta væri á bak við, þegar hv. frsm. sagði, að meiningin væri að láta hinar óæðri skemtanir styðja aðrar göfugri. Það eru einmitt meðal annars leikskemtanirnar úti um landið, sem eiga að styðja leikskemtanirnar í Reykjavík. Háttv. þm. lítur þá þeim augum á leiklistina út um landið, að hún sje með hinum óæðri skemtunum, samanborið við þá hágöfugu leiklist í Reykjavík. Annað verður ekki dregið af orðum hans.