15.03.1926
Neðri deild: 31. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 946 í C-deild Alþingistíðinda. (2485)

64. mál, gengisviðauki

Flm. (Jón Baldvinsson):

Þegar þetta mál var fyrir þinginu 1924, rökstuddi ráðherrann, sem flutti það, það með því, að ýmsar tekjur ríkissjóðs hefðu rýrnað vegna gengisfalls, og batt frv. því við gengisfallið með því að ákveða, að skatta skyldi innheimtu með 25% gengisviðauka meðan sterlingspundið væri skráð 25 krónur eða hærra, þetta var enn til umræðu á þinginu í fyrra, og var þá lögð fram tillaga að tilhlutun stjórnarinnar um það, að þetta yrði gert að föstum tolli og takmörkunin niður feld. Þá komu fram andmæli gegn þessu. Nd. vildi fella þetta burt í lok þessa árs, en því var breytt í Ed., að tilhlutun hæstv. fjrh. (JÞ), og ákveðið, að skyldi haldast til ársloka 1927. Jeg hefi verið að bíða eftir því, að eitthvað heyrðist í þessu máli annað en það, sem getið er um í athugasemdum stjórnarinnar við fjárlagafrv., þar sem gert er ráð fyrir því, að nokkur hluti gengisviðaukans verði ekki innheimtur fyrir árið 1927. En þá þurfa að liggja fyrir lög um það. En það má ekki vera komið undir geðþótta stjórnarinnar, hvaða skattar skuli innheimtir eða ekki. Nú hefi jeg komið hjer með tillögu um það að fella niður þennan gengisviðauka. Jeg hefi skift till. í tvent, að tollurinn lækki 1. júlí þ. á. niður í 15%, og er það gert til þess, að tekjumissirinn verði ríkissjóði ekki eins tilfinnanlegur. Það er vitanlegt, að ríkissjóður missir við þetta miklar tekjur, tollur þessi nam víst síðasta ár ca. 1 miljón króna, en það er ekki að miða við það ár nú, því allar tekjur fóru þá fram úr áætlun. Sennilegra er að gera ráð fyrir, að hann megi áætla um 700 þús. kr. En þótt ríkissjóði takist nokkrar tekjur, þá verður fjeð þó til hjá landsmönnum, og það þarf að lækka þá ógnar tolla, er nú hvíla á þjóðinni.

Jeg vænti þess, að þetta frv. fái góðar undirtektir og verði, að lokinni þessari umræðu, vísað til fjhn.