15.03.1926
Neðri deild: 31. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 947 í C-deild Alþingistíðinda. (2486)

64. mál, gengisviðauki

Klemens Jónsson:

Þegar jeg sá þetta frv. og næsta frv. á eftir hjer á dagskránni, þá datt mjer í hug, hvaða skelfing liggur honum á, hinum hv. 2. þm. Reykv. (JBald), að koma nú þegar fram með frv. þetta. Hv. þm. var fullkunnugt um, að það liggur fyrir frv. um breyting á verðtollslögunum, og honum er líka kunnugt um, að gert er ráð fyrir breyting á gengisviðaukanum í fjárlagafrv., og honum ætti að vera kunnugt um, að þetta mál er nú í höndum nefndar, til athugunar. Mjer finst því, að hv. þm. hefði vel mátt bíða eftir því, að nefndin skilaði áliti sínu. En hann kvaðst hafa verið vonlaus um það. En þá vil jeg benda honum á það, að þess er ekki að vænta, að nokkuð verulegt komi frá nefndinni fyr en útsjeð er um fjárhag landsins á næsta ári. En það verður ekki fyr en eftir 2. umr. fjárlaganna. Nefndin hefir því ákveðið að bíða með álit sitt þangað til.

Nefndin hefir sjerstaklega athugað gengisviðaukann, og flytur nú frv. í dag um að afnema hann á vörutolli. Þessi aðferð hv. 2. þm. Reykv. er því óviðkunnanleg gagnvart fjhn. þó jeg hinsvegar auðvitað játi, að hv. þm. hefir fullkomlega formlegan rjett til að bera hvert það frv. fram, sem honum þóknast. Jeg skal ekkert tala um málið alment nú, mjer gefst kostur á því seinna, þegar frv. nefndarinnar kemur til umr. Jeg gat ekki látið hjá líða að koma fram með þessa athugasemd, þar sem jeg er formaður fjhn, Jeg álít, að það hefði verið rjettara fyrir hv. þm. að bíða þar til nefndin skilaði áliti sínu.