15.03.1926
Neðri deild: 31. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 949 í C-deild Alþingistíðinda. (2488)

64. mál, gengisviðauki

Flm. (Jón Baldvinsson):

Það virtist vera aðalinntakið í ræðu háttv. 2. þm. Rang. (KlJ), að hann, fyrir hönd fjhn. hálfgert fyrtist út af því, að jeg hefi borið fram þetta frv. En hv. þm. (KlJ) hlýtur þó að játa það, að jeg fór svo seint af stað með þetta frv., að sá tími var liðinn, sem þm. er heimilt að bera fram frv. án leyfis deildanna, og í öðru lagi, sem hv. þm. (KlJ) hefir kannske ekki athugað, en hefði þó mátt vita, að jeg hefi engin tök á að fylgjast með því, sem gerist í fjhn., því að jeg á þar ekki sæti, nje heldur nokkurn flokksmann þar; þessvegna gat jeg ekkert um það vitað, hvað sú háa fjhn. ætlar sjer að gera, og verð að haga mínum till. eftir því, sem jeg álít sjálfur rjett að gera. Hv. form. fjhn. (KlJ) hefir því farið þarna á hálfgerðu hundavaði, með því að fara að deila á mig fyrir að bera þetta mál fram. Jeg get ekki sjeð, að það sje nein óvirðing sýnd hv. fjhn. með því að bera svona frv. fram, sjerstaklega þar sem hver maður veit, að þessu frv., ef það nær fram að ganga, verður vísað til fjhn., og þar á ofan er það algengt, að þm. bera fram frv., en láta ekki alt undir einstakar nefndir, sem málunum síðar kann að vera vísað til, því að þá yrði það svo, að nefndirnar einar bæru fram frv., ef farið væri eftir þeirri reglu, sem hv. 2. þm. Rang. (KlJ) vill láta fylgja. En þótt fjhn. hafi haft samskonar mál til athugunar, þá gat jeg ekkert um það vitað, hvað hún ætlaði sjer að gera í því. Þetta mál hefir líka komið hjer áður á dagskrá, en af ástæðum, sem jeg þarf ekki að lýsa, hefir það verið tekið út aftur, og hefði þannig komið til umr. hjer löngu áður en það frv. frá fjhn., sem nú er verið að útbýta, svo að jeg verð að álíta, að það sje ekki á nokkurn hátt hægt að ásaka mig. Að því er málið sjálft snertir, vil jeg láta þess getið, að jeg álít rjettara að fara þá leiðina, sem jeg hefi stungið upp á. Hins vegar vil jeg geta þess, að því er snertir ræðu hæstv. fjrh. (JÞ), að jeg skal gjarna fallast á þá breytingu í frv. mínu, að gengisviðauki á nauðsynjavörum falli þegar niður 1. apríl. Jeg var aðeins að reyna til að kippa tollinum ekki fyr í burtu en sem allra síðast, af því að jeg vissi líka, að það var vilji hv. deildar í fyrra að láta gengisviðaukann falla úr gildi síðasta desember 1926, og veit jeg ekki betur en að hv. fjhn. hafi líka verið því samþykk, þótt hún síðar hafi snúist til fylgis við hæstv. fjrh. (JÞ) um það mál. Hæstv. fjrh. (JÞ) hjelt sjer fast við það, að jeg vildi halda gengisviðaukanum einum ársfjórðungi lengur en hv. fjhn. Jeg hefi það mínu máli til afsökunar, að jeg vissi ekkert um frv. fjhn., fyrir mjer vakti ekkert annað en það, að ljetta sköttunum varlega af. Svo segir hæstv. fjrh. (JÞ), að það eigi að halda gengisviðaukanum óbreyttum á ónauðsynlegum vörum. En jeg vil benda á það, að þótt hann sje feldur niður á ónauðsynlegum vörum, þá helst hann samt á sumum nauðsynjavörum, eða þeim vörum, sem jeg verð að telja nauðsynlegar fyrir fólk í kauptúnum, en það er á kaffi og sykri. Þessi tollur er ekkert óverulegur, og auk þess kemur þar í viðbót álag kaupmanna, svo að tollurinn hækkar verðið í raun og veru meira en tollfjárhæðin. þessar vörur eru svo miklar nauðsynjar fyrir allan almenning við sjávarsíðuna, að menn komast ekki af án þeirra, en eftir till. fjhn, þá skilst mjer, að tollurinn á þessum vörum eigi að haldast áfram, svo að það er jeg, sem vil ganga lengra en fjhn., hvað sem hæstv. fjrh. (JÞ) segir, þó að jeg vilji láta tollinn falla niður ársfjórðungi seinna en hún.