22.03.1926
Neðri deild: 37. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 961 í C-deild Alþingistíðinda. (2510)

76. mál, járnbraut frá Reykjavík til Ölfusár

Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Mjer þykir hlýða að fylgja þessu frv. úr hlaði með nokkrum orðum. Reyndar mætti vísa til þeirra skýrslna, sem prentaðar hafa verið um þetta mál og útbýtt hefir verið meðal háttv. þm; Eru það skýrslur Sv. Möllers og Geirs G. Zoëga, er útbýtt var í fyrra, og framhaldsskýrsla Geirs G. Zoëga, er háttv. þm. hafa nú mjög nýlega fengið.

Þessar skýrslur eru mjög ítarlegar og gefa ágætar upplýsingar um þetta mál, og jeg vona, að háttv. þm. hafi kynt sjer þær. Eigi að síður vil jeg fara um málið nokkrum orðum.

Þess skal þá fyrst getið, að hæstv. stjórn hefir undirbúið þetta frv. Er það í öllum höfuðatriðum eins og það barst okkur flutningsmönnum í hendur frá hæstv. landsstjórn. Er jeg hæstv. landstjórn þakklátur fyrir þann áhuga, er hún hefir sýnt í þessu máli, og jeg veit, að háttv. meðflutningsmaður minn og margir aðrir háttv. þingmenn, muni taka undir það.

Jeg fyrir mitt leyti er ekki í nokkrum vafa um það, að þetta er langstærsta velferðarmálið, er vjer höfum nú með höndum. Hvenær sem við stígum þetta spor, — og það ættum við að gera nú, — að leggja járnbraut frá Reykjavík og austur yfir fjall, austur á Suðurlandsundirlendið, þá mun það sýna sig mjög fljótlega, hvílíka blessun og framfarir það skapar, ekki einungis fyrir hjeraðið, sem járnbrautin liggur um, heldur og kaupstaðina Reykjavík og Hafnarfjörð.

Þessi samgöngubót mundi ekki aðeins flýta fyrir jarðræktinni í Árnes- og Rangárvallasýslu og greiða fyrir því, að bændur geti hýst betur býli sín, flýtt fyrir bygging nýbýla, svo að fólki fjölgi í þessum hjeruðum, að velmegun vaxi o. s. frv., heldur mun hún einnig skapa betri afkomu í kaupstöðunum og holla lifnaðarhætti.

Þetta er því ekki aðeins fjárhagslegt framfaramál, þó að það sje það að vísu og það í stórum stíl, það er engu síður þýðingarmikið menningarmál. Fyrst og fremst fyrir Reykjavík og Hafnarfjörð og Suðurlandsundirlendið, en einnig og það ekki í litlum mæli fyrir landið alt.

Áhrif Reykjavíkur og stærri kauptúna á fólkið út um bygðir landsins eru ekki lítil. Það er þess vegna ekki lítils um það vert, að hollustuhættir fólksins í kauptúnunum sjeu sem bestir, og að því sje stuðlað, eftir því, sem við höfum aðstöðu til. Og því nánara og meira samband, sem kauptúnin hafa við fjölmenn og góð sveitahjeruð, því meiri von er, að þau dragi dám af lífi og háttum sveitanna. Því þjóðlegri verða þau. — Einangrun kauptúnabúanna frá sveitalífinu er blátt áfram hættuleg fyrir þjóðfjelagið.

Þess var getið hjer um daginn, í umræðunum um mentaskóla Norðlendinga, að Akureyri væri mjög sveitalegur bær. Heilbrigði og hollustuhættir fólksins þar væru bæði meiri og betri en hjer í Reykjavík, og því var þakkað, hvað Akureyri hefði mikið samband við sveitirnar í grend. Jeg skal engan dóm á þetta leggja, en sje þetta rjett, að lifnaðarhættir fólksins á Akureyri sjeu hollari en hjer í Reykjavík, þá er jeg ekki í neinum efa um, að það sje rjett til getið, að það sje hinu mikla og nána sambandi að þakka, sem Akureyri hefir við sveitirnar.

Jeg vona þess vegna, að þeir háttv. þingmenn, sem hafa kunnugleik á Akureyri og eru þessarar skoðunar, að þeir geri nú sitt besta til að losa höfuðstað þessa lands úr þeirri einangrun frá sveitunum, sem hann hefir verið í alla stund síðan hann varð til, og stuðli að því fyrir sitt leyti, að hann í þessum efnum eins og öðrum geti tekið sem bestum og mestum framförum.

Það á að vera oss öllum metnaður; að Reykjavík verði sem bestur og göfugastur bær. Hjer eru æðstu mentastofnanir vorar. Hjer er saman komið alt það besta, sem við eigum í vísindum og listum. Hingað sækja allflestir embættismenn þjóðarinnar mentun sína. Þeir eiga að vera forgöngumenn og brautryðjendur þjóðarinnar. Miklu skiftir það, að þeir á æskuárunum kynnist góðu og göfugu fólki. Því meiri von er til þess, að þeir verði góðir og göfugir forustumenn.

Eins og drepið er á í greinargerðinni við frv., hefir tvisvar komið fram frv. um að leggja járnbraut úr Reykjavík austur yfir fjall, en þingið gat í hvorugt sinnið fallist á það. Nú er málið borið fram í þriðja sinn, og jeg vona, að nú verði það samþykt. En takist nú svo illa til, að það verði ekki, þá mun málinu verða, hjeðan í frá, haldið vakandi og ekki hætt við flutning þess fyr en það er komið í höfn.

Að svo hlýtur að verða, er sú mikla vissa, sem menn hafa um, að járnbrautin beri sig mjög fljótlega, og sú brýna þörf, sem menn hafa hennar.

Það, sem olli því í bæði hin skiftin, sem málið var borið fram, að það náði ekki fram að ganga, var eflaust ókunnugleiki mjög margra þingmanna á þessu máli. Nú hefir málið verið rannsakað enn á ný, og miklar og mikilvægar nýjar upplýsingar hafa komið fram, og allar falla þær á þá sveifina til meðmæla málínu. En auk þessa má líka benda á það, að síðan málið fyrst var borið fram á Alþingi 1894, hefir fólki fjölgað mjög mikið hjer í kauptúnunum, Hafnarfirði og Reykjavík, og flutningar og flutningaþörf hjeraðsins fyrir austan fjall mörgum sinnum meiri nú en þá var. Jafnvel síðan 1913, þegar málið var borið í annað sinn fram, hefir þetta breytst mjög mikið. Ræktunin og ræktunarskilyrðin austan fjalls eru líka alt önnur nú, heldur en þau voru áður. Vöruflutningar sjóleiðis að kauptúnunum eystra eru alveg, að heita má, úr sögunni, og koma aldrei aftur. Verslun hjeraðsins er, með öðrum orðum, öll komin til Reykjavíkur, Alt þetta stuðlar að því, að járnbrautin beri sig. En þessar ástæður eru líka þess valdandi, að hjeruðunum austan fjalls er lífsnauðsyn að fá sem allra bráðast járnbrautina.

Jeg skal víkja nánar að þessari breyting, sem orðið hefir hjer í þessum kaupstöðum og hjeruðum austan fjalls þetta tímabil, sem jeg nefndi.

Árið 18941 voru íbúar

Hafnarfjarðar ................. 620

Reykjavíkur .................. 4031

Árnessýslu ................. 6389

Rangárvallasýslu .................. 4818

Íbúar samtals 15858

Árið 1913 voru íbúar:

Hafnarfjarðar ................ 1647

Reykjavíkur.................. 13354

Árnessýslu ................... 6105

Rangárvallasýslu ................ 3980

Íbúar samtals 25086

Árið 1924 voru íbúar:

Hafnarfjarðar .... . . . . . . . . . 2692

(nú líklega yfir 3000).

Reykjavíkur ........ 20657

Árnessýslu .............. 5476

Rangárvallasýslu ............. 3752

Íbúar samtals 32577

Þannig hefir fólkinu fjölgað:

Í Hafnarfirði frá 1894–1924 um 2072

— Reykjavík um ......... 16626

En fækkað:

Í Árnessýslu um .............. 913

— Rangárvallasýslu um ..... 1066

En alls hefir fólkinu fjölgað í þessum 4 stöðum um 16719, eða meira en tvöfaldast, frá 1894.

En mannfjöldi á öllu landinu var það ár 72177, en nú var mannfjöldinn 1924 98370. Þannig hefir fólkinu fjölgað á öllu landinu um 26193, og af þeirri fjölgun koma 16719 á þessi 4 hjeruð, en 9474 á aðra landshluta.

Þessar tölur sýna mjög skýrt, hvað fólkinu hefir fjölgað hjer í Reykjavík og Hafnarfirði, en því miður hefir því fækkað í sveitunum austan fjalls. Og ennþá er þó ískyggilegra að sjá fram á það, að því heldur áfram að fækka þar, ef ekki er horfið að því ráði að gera það góðar og öruggar samgöngubætur, að fólkinu í sveitunum verði gert kleift að afla sjer lífsnauðsynja og þess annars, er það þarf nauðsynlega með. Ferðalög að austan, hingað til Reykjavíkur eru svo dýr og tímafrek, að það er að verða bændum ókleift að afla sjer lífsnauðsynja. Menn eru í hverri ferð 8–10 daga, eftir því hvernig gengur og hvar í hjeraðinu menn búa. Þegar mannekla er mikil og fólkið afardýrt, sjá allir heilskygnir menn, hver ógnar skattur aðdrættirnir eru. Hinsvegar eru bílflutningarnir mjög dýrir. Með bíl kostar flutningurinn austur á hver 100 kg. frá 7–12 kr., eða jafnvel meira.

Vonandi sjá allir, að ekki muni geta orðið stórstígar framfarir í jarðræktinni, fjölgun nýrra býla eða aukin framleiðsla í nokkuð stórum stíl, á meðan svona er ástatt um flutningana. Það er tómt mál um það að ræða, fyr en járnbraut er fengin austur um heiði. Jeg vona, að þeir hv. þm., sem láta sjer ant um afkomu landbúnaðarins og eru þeirrar trúar, að sveitabúskapurinn og sveitalífið sje sú atvinnugreinin, sem þjóðin verði að treysta, hvernig sem fellur, viðhaldi tungu hennar og menningu, heilbrigði og öllu því, sem best er í fari hennar, að þeir verði ekki til þess að leggja stein í götu þessa mikilvæga framfaramáls Reykjavíkur og Sunnlendinga. Jeg er líka þeirrar skoðunar, að landið í heild, fjarlægari hjeruð einnig, er stundir líða, hafi mikið gagn af því, að járnbraut verði lögð.

Þá vil jeg minnast á búfjáreign bænda í Árnes- og Rangárvallasýslu árið 1894 og nú. Geri jeg það vegna þess, að fólkinu hefir fækkað í sveitunum á þessu tímabili. Jeg vil ekki, að menn haldi, að álíka afturför hafi átt sjer stað í jarðyrkju og kvikfjárræktinni eða búskap yfírleitt. Það er sem sje þvert á móti, þrátt fyrir alla þá erfiðleika, sem bændur eiga nú við að etja.

Árið 1894 voru:

Nautgr. Hross Sauðfje

Í Árnessýslu ... 2864 4260 47256

— Rangárv.sýslu 2510 4937 49204

1913:

— Árnessýslu ... 3552 5174 68472

— Rangárv.sýslu 3046 6414 55045

1924:

— Árnessýslu . . . 3499 5012 62732

— Rangárv.sýslu 3035 6870 48273

Þetta yfirlit sýnir, að fjenaði hefir fjölgað frá 1894, og það allvænlega, þrátt fyrir það, þó að fólkinu hafi fækkað. Sauðfjeð er að vísu nokkru færra 1924 en 1913, en því hefir líka fækkað alment á öllu landinu. það var árið 1913 samtals á öllu landinu 634.964, en 1924 var það alls 582.960, en 1894 var það 556.257.

Að jarðabótum hefir verið unnið mest í Árnessýslu af öllum sýslum á landinu. Þar hafa verið unnin um 436 þús. dagsverk, sem skýrslur herma, fyrir utan hin stóru áveitufyrirtæki. Í Rangárvallasýslu hafa verið unnin 255 þús. dagsverk. Mjer virðist þetta sýna, að menn hafa ekki í þessum hjeruðum setið auðum höndum frekar en annarsstaðar. Það er öldungis víst, að menn hafa hug á að bjarga sjer, eftir því sem frekast er mögulegt. Og jeg tek þetta ekki fram af því, að jeg viti ekki, að hið sama má segja yfirleitt um bændur landsins, hvar sem er.

Í skýrslu Sv. Möllers og Geirs G. Zoëga, um rekstur járnbrautarinnar, er gert ráð fyrir fólksumferðinni þannig:

Á 2. rekstrarári:

17000 manns, 3 ferðir hver. Vöruflutningar 8000 tonn.

Á 10. rekstrarári:

19000 manns, 5 ferðir hver. 12600 tonn (vörur).

Jeg er ekki í nokkrum vafa um það, að þessi áætlun er mjög varleg; jeg er nærri viss um, að á 2. rekstrarári brautarinnar muni flutningarnir verða mun meiri, og jeg hefi áður getið um það, af hverju það stafar, og þess er líka getið í greinargerðinni, svo að jeg fjölyrði ekki mikið um það nú. En eins

og jeg er sannfærður um, að flutningarnir verða meiri á 2. rekstrarári brautarinnar en áætlað er, er jeg þó enn sannfærðari um, að flutningarnir muni aukast miklu meira, er stundir líða, en áætlað er, og verða á 10. rekstrarári brautarinnar miklu meiri. Jeg tek þetta ekki fram til þess á nokkurn hátt að áfella þá, sem að þessari skýrslu eða áætlun hafa unnið, það fer mjög fjarri, heldur aðeins til þess að minna á, hve afarvarlega þessi áætlun er gerð. Og fyrir það eiga þessir menn skilið lof, en ekki last. — En ástæðuna fyrir því, að flutningarnir muni aukast mikið meira en þeir áætla, vil jeg lítið eitt minnast á nánar.

Alt graslendi í Árnes- og Rangárvallasýslu er talið 237.200 ha. Þar af í Árnessýslu 121.900 ha., en í Rangárvallasýslu 115.300 ha.

Þetta afarmikla landflæmi er lítt numið land. Býlin á þessu svæði eru talin í síðasta jarðamati (Þingvallasveit ekki þar með talin):

Í Árnessýslu ........ 610 Í Rangárvallasýslu ..... 551 Samtals 1161

Að meðaltali ætti þá að heyra til hverju býli um 204 ha. af graslendi (auk afrjetta, mela, sanda, hrauna).

Túnin í sveitunum eru talin árið 1922 í báðum sýslunum alls 4231 ha. Það er um 1/50 hluti af graslendinu. Stærð túnanna að meðaltali á býli er því um 3.9 ha. Um 200 ha. að meðaltali á hvert býli er þá annað graslendi og er mest alt óræktað eða mikið til.

Sje litið á fjártalið samkvæmt búnaðarskýrslum, kemur það í ljós, ef breytt er öllum fjenaði í nautgripi, eftir fóðurþörf, að einn nautgripur lifir á hverjum 1.2 ha. Þetta sýnir, hve óhemjumikið landrýmið er og notkun landsins skamt á veg komin.

Það er engum vafa bundið, að það er hægt, með aukinni ræktun, að tífalda framleiðsluna á þessu landi. Á þessu landi ræktuðu gætu mikið betur lifað 92 þús. manns en nú 92 hundruð. Ræktun þessa mikla og góða lands hefði afarmikil áhrif á allan þjóðarhag. Landrýmið og landgæðin til ræktunar, fossarnir í ánum til að lýsa og ylja upp sveitabæina. Alt þetta býður sig fram til þess að býlum geti fjölgað, ekki einu sinni eða tvisvar, heldur 10 sinnum, frá því sem nú er. Jafnframt myndu bæirnir, sem fyrir eru, verða vistlegri. Og auðvitað margfaldast framleiðslan við þessa breytingu.

En alt þetta er óhugsandi og ómögulegt nema öruggar samgöngur fáist við Reykjavík. Og þær samgöngur eru járnbraut og ekkert annað. þau ein flutningatæki geta gengið sumar og vetur hjer á milli, svo að örugt megi telja.

Jeg vil ekki eyða tíma til að minnast á önnur samgöngutæki. Þau fullnægja alls ekki, og það væri dauðasynd að leggja t. d. bílveg austur, en ekki járnbraut.

Framfaramöguleikarnir í hjeruðunum eystra og Reykjavík, og enda Hafnarfirði, ef járnbraut er lögð milli þessara staða, eru nær óþrjótandi.

Frá Reykjavík og Hafnarfirði er nú rekin stórútgerð í allstórum stíl, með fullkomnustu nútímatækjum. Við höfum einhver bestu fiskimið í heimi. Ef landbúnaðurinn austur í sveitum á að keppa við stórútgerðina í þeirri einangrun, sem hann er í nú, er honum það ómögulegt. Hann mun þá smátt og smátt kulna út og deyja. Fengi landbúnaðurinn eystra hinsvegar þá samgöngubót, að fólkið gæti komist á milli hvenær sem er, á ódýran hátt, og hann komið sinni framleiðslu frá sjer og aflað sjer sinná nauðsynja, með góðu móti, myndi alt annað verða upp á teningnum.

Margrir þeirra, er bygðu nýbýli, og þeir yrðu margir, myndu fyrst í stað, á meðan þeir væru að koma fótunum fyrir sig í sveitunum, stunda atvinnu, að einhverju leyti í Reykjavík eða Hafnarfirði bæði á sjó og í landi. En það má því aðeins verða, að þeir þurfi ekki að kosta mjög miklu til sinna ferðalaga og flutninga, og komist fljótlega á milli, hvenær sem er. Þannig gæti sjórinn að nokkru leyti hjálpað til að byggja landið, og teldi jeg það mjög vel til fallið.

Jeg hefi áður drepið á, hverja þýðingu þessi samgöngubót myndi hafa fyrir kauptúnin, og að því er líka lítils háttar vikið í greinargerðinni, og læt jeg það nægja.

Jeg hefi þá held jeg leitt rök að því, að þetta mál snertir ekki lítið alþjóðarhag, hvernig sem afgreiðsla þess fer. Það er sannfæring mín, að eftir að járnbraut væri lögð austur yfir fjall, liði ekki á löngu þar til hún yrði lögð upp í Borgarfjörð, og svo myndi hún smáfikra sig áfram alla leið norður í land. Og því fyr sem við leggjum fyrstá spottann, því fyr verður það, að hún kemur þangað. Hvernig menn snúast við þessu þýðingarmikla máli, held jeg sýni betur en nokkuð annað, hvaða trú og traust menn hafa á landinu og niðjum þess.

Jeg ber það traust til háttvirtra þing- manna, að þeir snúist ekki gegn þessu máli, þótt þessi hjeruð, sem brautin liggur um, fái með þessu móti betri samgöngubót en nokkurt annað hjerað á þessu landi. Og þó að framkvæmd verksins kosti óneitanlega mikið fje, þá vona jeg, að eftir sem áður verði hægt að halda áfram umbótum í öðrum hjeruðum. Það fje, sem til þessa gengur, kemur þá líka til nota nærri 1/3 hluta þjóðarinnar, og það þeim þegnum landsins, sem ekki leggja hvað minst fje til nauðsynja þess.

Jeg fer ekki að minnast á einstakar greinar frv. Jeg býst við, að tækifæri verði til þess síðar. Hjer er lagt til að fara þá leið, er líklegust er til framkvæmda. En vel má vera, að einstakir menn vildu leggja fje fram til þessarar framkvæmdar, og gæti það þá komið til athugunar í nefndinni, sem fær málið til meðferðar.

Vona jeg, að háttv. deild taki þessu máli vel, og láti ekki gott málefni gjalda þess, þó að framsaga mín hafi ekki verið eins góð og málefnið verðskuldar.

Jeg leyfi mjer svo að leggja til, að málinu verði vísað til samgöngumálanefndar, að þessari umr. lokinni.