22.03.1926
Neðri deild: 37. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 975 í C-deild Alþingistíðinda. (2514)

76. mál, járnbraut frá Reykjavík til Ölfusár

Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Það er fjarri mjer að hafa á móti því, að málið sje athugað sem best, Jeg hefi lýst yfir því, að jeg vildi, að hv. þdm. kyntu sjer það sem allra best og settu sig inn í alt því viðvíkjandi. Það er sannfæring mín, að því betur sem það er athugað, því meira græðir það. Jeg er viss um það, að hver sá maður, sem athugar málið rækilega, getur ekki lagt stein í götu þess.

Jeg veit ekki, hvernig jeg á að skoða ræðu hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ). Mjer finst ástæður hans ekki svo mikilvægar, að hann geti verið móti frv., og fyrir fáum dögum lýsti hann yfir því, að hann væri með öllum bættum samgöngum, þó að hann þá talaði aðallega fyrir bættum samgöngum á sjó. En hann er ekki svo skyni skroppinn, að hann sjái ekki, að sama gildir um bættar samgöngur á landi. Og þessi hjeruð, sem járnbrautin á að ná til, eru meira einangruð en önnur hjeruð, þótt jeg fullyrði ekki, að annarsstaðar sjeu viðunandi samgöngur. Og ef hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) vill bera saman samgöngur á landi og sjó, hlýtur hann að komast að raun um, að þær eru miklu verri á landi.

Hv. þm. (SvÓ) drap í ræðu sinni á fagra drauma, og skildist mjer svo sem honum þætti jeg nokkuð bjartsýnn á framfarir ilt af þessu fyrirtæki. Jeg get nú að vísu ekki gefið honum aðra sannfæringu í því efni, en ef við trúum á framfarir og menningu þjóðarinnar, þá ættum við að vera sammála. Þær framfarir geta því aðeins orðið stórstígar, að veitt sje fje til samgöngubóta. Jeg hygg, að hv. þm. (SvÓ) telji sig ekki versta fulltrúa landbúnaðarins, en ef hann rís nú á móti þessu nauðsynjamáli, þá tel jeg hann ekki sjálfkjörinn fulltrúa þess atvinnuvegar.

Hv. þm. (SvÓ) vildi rjettlæta skoðun sína með því, að þetta væri landinu ofvaxið og mundi hefta framfarir á öðrum sviðum. Þar er jeg honum algerlega ósammála. Fyrst er nú á það að líta, að þetta er frv. til heimildarlaga, og því aðeins verður ráðist í verkið, að stjórnin sjái sjer það fært fjárhagsins vegna, En þótt fyrirtækið bindi fje, þá er það ekki svo mikið, að okkur sje það ofvaxið.

Þá mintist hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) og hv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ) á strandferðaskipsmálið í sambandi við þetta mál, og sögðu, að fyrst hæstv. stjórn hefði eigi sjeð fært að ráðast í kaup á slíku skipi, fjárhagsins vegna, þá ætti því síður að vera fært áð ráðast í þetta fyrirtæki. Jeg ætla mjer ekki að tala þar fyrir hæstv. stjórn, því að jeg hefi ekki spurt hana að ástæðunni fyrir því, að hún var á móti strandferðaskipskaupunum, en mjer dettur helst í hug, að hún hafi þá haft í huga aðrar samgöngubætur, t. d. járnbrautina. Jeg vil og minna hv. þm. S.-M (SvÓ) á það, að sá halli, sem verða mundi á rekstri tveggja strandferðaskipa, mundi eigi nema minni upphæð en vöxtum af því fje, er þyrfti til að leggja járnbraut austur yfir Ölfusá. Jeg held þessvegna, að slík upphæð hljóti að ganga til að bæta upp reksturshalla á strandferðaskipunum og til að standa straum af járnbrautarlánum. En annars er hjer ólíku saman að jafna, þar sem ríkissjóður þarf ekki aðeins 5–10 ár að bera reksturshallanni af skipunum, heldur hver veit hvað lengi framvegis, en þarf hinsvegar ekki nema tiltölulega stuttan tíma að borga vexti af lánum til járnbrautarinnar. En hv. þm. fanst ríkissjóði ekki ofvaxið að bera rekstrarhalla strandferðaskipanna, og sagði, að þeirra samgöngubóta nytu fleiri. Þetta er ekki rjett. Jeg held þvert á móti, að færri nytu þeirra. Jeg tek það fram samræmisins vegna, að jeg áleit rjettmætt, að þeir, sem hv. þm. ber fyrir brjósti, fengju samgöngubót, fyrst hv. þm. dró það inn í umræðurnar. En þá er líka því meiri ástæða til að styðja þetta mál, þar sem jeg er sannfærður um, að langtum fleiri nytu hjer samgöngubóta en með strandferðaskipi. Þess ber einnig að gæta, að þessi hjeruð eiga við afar illar samgöngur að búa.

Eftir skýrslum þeim, sem fyrir liggja og hv. þm. hafa vafalaust kynt sjer, er öldungis víst, að þetta fyrirtæki borgar sjálft vexti af lánum sínum eftir fá ár, þótt um stund þurfi að leggja fram sem svarar vöxtum.

Jeg er sannfærður um, að hjer er á ferðinni fyrirtæki, sem leiðir mjög mikið gott af sjer fyrir land og lýð, og slíkt fyrirtæki verður á allan hátt að styðja, svo að það komi að tilætluðum notum. Jeg álit eigi annað gerlegt en að flýta sem frekast er unt framkvæmd þessa verks, eftir því sem hið opinbera hefir aðstöðu til.

Hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) þarf ekki að hefna sín á þessu máli, þótt tillaga hans í strandferðaskipsmálinu hafi verið feld. Jeg vænti þess fastlega, að hann geri það ekki, og sá maður, sem ber heill og hag alþjóðar fyrir brjósti, má ekki hugsa og tala eins og hv. þm. (SvÓ) í þessu máli. Jeg segi þetta ekki af því, að jeg búist beinlínis við andstöðu frá hv. þm. (SvÓ), en mjer fanst vera ofarlega í honum að snúast á móti málinu, og því segi jeg þetta.

Hv. þm. (SvÓ) sagði, að ósýnt væri, hvort brautin kæmi til með að bera sig.

Hann vildi vefengja skýrslur þær, sem gerðar hafa verið, en færði engin rök fyrir máli sínu, að flutningar, bæði mannflutningar og vöruflutningar yrðu minni en áætlað hefði verið. (SvÓ: Spádómar!). Hv. þm. skýtur hjer inn í, að þetta sje bygt á spádómum. Ja, jeg vil nú bara segja það, að ef þetta mál er bygt á spádómum, þar sem farið er eftir nákvæmum rannsóknum, þá eru ummæli hv. þm. um flutningaþörf með strandferðaskipinu líka spádómar, og það miklu fremur. Hann hefir þó ekki komið með eins sennilega spádóma fyrir sínu máli, eins og skýrslan er í þessu máli.

Það er einstaklega gott, að telja sig vera hlyntan hverju góðu máli, og láta þar við sitja. Þeim þykir viðurhlutamikið að segjast ætla að vera á móti því, en verða samt banamenn þess, þegar til kastanna kemur. En jeg geri ekki mikið upp á milli þeirra, sem á þann hátt koma góðu máli fyrir kattarnef, og hinna, sem segjast ekki vilja, að það nái fram að ganga, og eru í hreinni andstöðu við forsvarsmenn þess.

Hv. þm. (SvÓ) drap á það, að það bæri að leggja meiri áherslu á að byggja góða bílvegi um landið, áður en járnbraut yrði bygð. En hann fór ekki nánar inn á það atriði. Út af því vil jeg taka það fram, að eigi að bíða með brautina, uns mönnum þykir nóg komið af vegum um landið, yrði brautin ekki bygð í okkar tíð og jafnvel ekki í tíð niðja okkar. Og viðvíkjandi því, sem háttv. þm. sagði, að vegurinn myndi endast eins vel hjer og á Austurlandi til flutninga, þá skal jeg ekki fara út í það, en benda vil jeg hv. þm. á það, að þótt loftslag sje svipað hjer og þar, og þótt vegirnir af þeim ástæðum kynnu að endast jafnvel, þá ber þó að líta á það, sem er eigi minst um vert, hve vegurinn hjer er mikið notaður og að þörf er fyrir hann alt árið, á hvaða tíma árs sem er. Jeg þori því hiklaust að segja, að enginn vegur hjer á landi sje eins mikið notaður og vegurinn austur yfir fjall. Og ef þau fyrirtæki, sem verið er að ljúka austanfjalls, eiga að heppnast og koma að góðum notum, þurfa þau á flutningum að halda eins að vetrinum sem sumrinu, og ætti að halda veginum opnum til flutninga alt árið, þá yrði það afar kostnaðarsamt. En það yrði þó að gera, því að það mundi eyðileggja framleiðsluna austanfjalls, að koma ekki vörunum á markað. Og þótt að vísu sje ekki mikil snjóþyngsli um að ræða, þá eru þau samt svo mikil, að bílasamgöngur eru afar erfiðar um háveturinn, eins og nú standa sakir. Þessvegna væri það fásinna að leggja fyrst bílveg og kasta síðan of fjár í að halda honum við og halda honum opnum vetur sem sumar, en hverfa ekki strax að því að gera þá fullkomnu samgöngubót, sem ein dugaði, og halda þannig leiðinni austur yfir fjall opinni jafnt vetur sem sumar.

Háttv. þm. sagði, að miklu fje væri varið til samgöngubóta, miklir vegir lagðir á ári hverju og miklu varið til samgangna á sjó. En í sambandi við þetta vil jeg minna háttv. þm. á það, að við, sem búum austanfjalls, höfum ekki notið þess fjár, sem annarsstaðar hefir verið varið ti1 samgangna á sjó. Við höfum aðeins fengið hluta af því fje, sem til vega er varið. Annars vil jeg engan meting í þessum efnum, eða fara út í samanburð við aðra landshluta, því að jeg álít það leiðinlegt verk og auk þess mjög óviðfeldið; jeg tel rjettara að meta þörf hjeraðanna fyrir samgöngubætur og þau not, sem orðið geta að þeim, og láta það ráða gerðum sínum í svona málum. Það er áreiðanlega miklu hollari mælikvarði og líka viðkunnanlegri en allur samanburðarmetningur.

Háttv. þm. talaði um, að bílvegir einir kæmu að fullum notum. Það er þá svo best, að þeim sje altaf haldið opnum, en til þess þarf að leggja mikið fje í þá, og vafasamt hvort það verður einhlítt eða komi að fullum notum, og það er víst, að aldrei verður eins vel sjeð fyrir þessu og með járnbraut. Auk þess verður þetta öllum hlutaðeigandi miklu dýrara, þar sem fjeð, sem gengi til þess að byggja bílveginn, fengist aldrei endurgreitt, eða vextir af því, og árlega yrði að verja afarmiklu fje honum til viðhalds. Þá má og líta á það, að flutningsgjöldin með bílunum verða margfalt dýrari en með járnbraut, til stórtjóns þeim, er flutningatækin nota, og verður til stórhindrunar í jarðrækt og öllum framkvæmdum eystra.

Jeg hefi nú stuttlega drepið á flest það, er háttv. þm. sagði, en hann nefndi sitthvað fleira. Jeg vil minna hann á eitt í sambandi við það, sem hann sagði um Reykjavík. Mjer hefir fundist hann stundum hafa álitið Reykjavík vera orðna full-stórborgarlegan bæ. Telur hann bæi því aðeins góða og holla, að þeir sjeu í góðu sambandi við sveitir. Sje þetta rjett, þá gegnir það furðu, að hann skuli ekki vilja, að Reykjavík fái þá hollustuhætti, sem þeir bæir hafa, sem hafa samband við sveitirnar. Jeg er þess fullviss, að þetta samband yrði mjög gott fyrir Reykjavík, enda leggja margir mikið upp úr þessu atriði.

En eitt get jeg sagt hv. þm., að eigi dýrtíðin að minka í landinu, þá er langbesta ráðið að fá miklar og auknar samgöngur austur, fá gott samband við hin frjósömu framleiðsluhjeruð austanfjalls. Jeg er viss um, að þá yrði ódýrara að lifa hjer í bænum; vegna þess að ný, góð og ódýr framleiðsluvara flyttist á markaðinn hjer, svo að dýrtíðin hlyti að minka að miklum mun, auk þess sem það myndi stuðla að því, að húsaleigan í þessum bæ lækkaði stórkostlega. Margir mundu byggja sjer húsnæði austanfjalls og fá sjer þar verkefni til að vinna að, sem hjer hafa ekki nægan starfa. Þess ber líka að gæta, að áhrif Reykjavíkur eru í öllu tilliti mikil á alt landið, þar sem hjer er búsettur meira en fimtungur allrar þjóðarinnar. Svo það er ekki lítils um það vert, að dýrtíðin minki hjer í þessum bæ.

Vil jeg svo enda mál mitt með því að vona, að þótt mjer fyndist anda fremur kalt frá hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) til þessa máls, þá beiti hann ekki áhrifum sínum þessu máli til meins. Jeg er sannfærður um það, og þá sannfæringu hefi jeg fengið við kynningu mína af þessu máli, að mesta menningar- og framfarasporið, sem stigið verður nokkuru sinni hjer á landi, er að ráðast í þetta fyrirtæki.