05.03.1926
Efri deild: 20. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 843 í B-deild Alþingistíðinda. (252)

17. mál, fjáraukalög 1925

Frsm. (Eggert Pálsson):

Jeg finn enga ástæðu til að fara mörgum orðum um frv. þetta; það hefir gengið gegnum hv. Nd. og tekið þar litlum breytingum. Breytingarnar, sem gerðar hafa verið á því frá því það kom frá stjórninni, eru ekki margar eða mikilvægar. — Fyrst er sú breyting, að upphæðin til þess að kaupa miðstöðvarketil í geðveikrahælið á Kleppi hefir verið færð úr 7 þús. kr. upp í kr. 7426,96. Stafar breyting þessi vitanlega af því, að ketillinn hefir orðið þetta dýrari en búist hefir verið við í fyrstu. Sömuleiðis hefir viðgerðarkostnaðurinn á sóttvarnarhúsinu í Reykjavík verið hækkaður um kr. 10,88. Og seinasta og helsta breytingin, sem hv. Nd. gerði á frv., var að bæta við utanfararkostnaði biskups. Hinar aðrar breytingar hv. Nd. eru aðeins orðabreytingar.

Fjvn. þessarar deildar hefir því ekki fundið neina ástæðu til að gera breytingar við frv., og leggur því til, að hv. deild samþykki frv. eins og það er. Hinsvegar finst nefndinni rjett að minnast lítillega á fjárveitinguna í 5. gr. til Búnaðarfjelags Íslands. Af greinargerð frv. er það ljóst, að hæstv. atvrh. (MG) hefir átt tal við fjvn. Nd. um fjárveitingu þessa fyrirfram og fengið heimild hennar til þess að borga hana. Um þetta er ekkert að segja. Stjórnin hefir þar haft leyfi þeirrar nefndar, sem telur sig vera þungamiðju fjárveitingavaldsins í þinginu. En út af þessu vil jeg taka það fram og benda hæstv. stjórn á, að til er og hefir verið fjvn. í Ed., sem einnig hefir rjett til að segja sitt álit um slík mál sem þessi. En þetta mál var ekki borið undir hana, eftir því sem mjer hefir verið tjáð. Það má vera, að hún hefði engu breytt, en áreiðanlega hefði það verið kurteisara að bera fjárveitingu þessa líka undir hana, og það því fremur, sem vitanlegt er, að engin fjárveiting nær þó lagagildi nema með samþykki Ed., þrátt fyrir yfirburði þá, sem Nd. þykist hafa í fjármálum.

Þá vildi jeg líka lítillega minnast á aðra fjárveitingu í frv. Það er tekið fram, að 11 þús. kr. hafi verið veittar til sjóvarnargarðs á Sauðárkróki. En nú ber greinargerð frv. það með sjer, að fjárveiting þessi hafi ekki komið að neinu eða að minsta kosti litlu gagni, því að garðurinn hafi eyðilagst í sjávargangi síðastl. haust.

Það er óneitanlega sorglegt að kasta peningum þannig í sjóinn, eins og hjer hefir átt sjer stað, og ætti að verða til áminningar um, að allrar varúðar og vandvirkni sje gætt, þegar um fjárfrekar framkvæmdir er að ræða. En hinsvegar virðist samt ekki hægt að víta stjórnina fyrir þetta.