26.03.1926
Neðri deild: 41. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1033 í C-deild Alþingistíðinda. (2526)

76. mál, járnbraut frá Reykjavík til Ölfusár

Halldór Stefánsson:

Þegar jeg sagði nokkur orð um þetta mál við fyrri umr., þá datt mjer ekki í hug að gera til hlítar upp með sjálfum mjer um fylgi við málið. Jeg leyfði mjer aðeins að benda á einstök atriði, sem mjer þóttu athugaverð, ef það ætti að ganga fram nú þegar, enda væri það nokkuð einstakt um jafnstórt mál. En það virtist samt svo, sem hv. flm. þyldu illa svo hógværar athugasemdir. Mínar athugasemdir náðu þó ekki lengra en að benda á það, að þegar fjárhagsástæður ríkisins leyfðu ekki að ráðist væri í fyrirtæki, sem ekki kostaði í mesta lagi nema hálfa miljón króna, þá myndu þær ekki leyfa, að ráðist væri í fyrirtæki, sem kostaði 6 til 7 miljónir. Þetta tekur þó ekki til hv. þm. Árn. (MT og JörB), því að þeir höfðu engu lýst yfir um það, sem jeg nú nefndi, það tekur aðeins til þeirra hv. þm., sem gengu á móti till. um að byggja strandferðaskipið. Jeg benti á það, að á meðan að í heilum hjeruðum er ekki farið að leggja neinn vegarspotta, til að greiða fyrir umferð um hjeruðin, og mörg Stórvötn væru óbrúuð, teldi jeg varasamt að leggja í stórkostleg fjárhagsfyrirtæki, sem byndi fjárhagslega getu þjóðarinnar um ófyrirsjáanlegan tíma. Og það er fleira, sem bíður ógert. Það má t. d. nefna Landsspítalann og hælið á Kleppi. Það er langt síðan óskir komu fram um þetta hvorttveggja og brýn þörf á að hvorttveggja verði sem fyrst af hendi leyst, en hvorttveggja er óleyst ennþá. Jeg benti ennfremur á og fleiri hafa tekið í sama streng, þar á meðal hv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ), að járnbraut væri ekki það eina samgöngutæki, sem gæti komið til greina, til þess að bæta úr samgönguþörf þessara hjeraða. Jeg benti á það, sem aðrir hafa bent á líka, að það er orðið álit manna sumstaðar í öðrum löndum, að járnbrautir, og þá einkum stuttar járnbrautir, beri sig ekki í samkepninni við bifreiðavegina, og það væri þá dálítið raunalegt, ef við færum einmitt að leggja út í að byggja járnbraut, þegar e. t. v. væri farið að líða undir lok járnbrautaraldarinnar. Um þetta fullyrði jeg ekkert, og get heldur ekkert fullyrt um það, en tel að þetta sje nægileg ástæða til nákvæmrar athugunar.

Það er að sjálfsögðu margt, sem mælir með svona stóru máli, og það mætti líka fyr vera um jafnstórt mál, ef svo væri ekki, en með því er samt ekki játað eða slegið föstu, að málið sje ekkert athugavert, og að ganga megi að því svo, að ekki þurfi að taka tillit til neins annars en þess.

Það, sem jeg sagði og aðrar aths., sem fram komu um frv., var tekið óstint upp af báðum hv. flm. (JörB og MJ), en þó dálítið á sinn hátt af hvorum. Hv.1. flm. (JörB), þótt hann tæki málið nokkuð óstint upp, að því er virtist, þá talaði hann þó um málsatriðin, og með þeim rökum, sem hann þóttist hafa fram að bera, en þetta verður ekki sagt um hv. 2. flm. (MJ). Við því, sem jeg og aðrir höfðu að athuga við málið, hafði hv. þm. (MJ) ekkert svar nema brigsl. Með tveim vel viðeigandi orðum þóttist hv. þm. (MJ) svara öllum aths., þar sem hann sagði, að hefnigirnis- og hrossakaupapúkinn væri nú að stinga hjer upp höfðinu. Hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) hefir nú vikið að þessum ummælum, og þarf ekki að svara þeim frekar, og jeg tel, að þeir, sem ekki hafa önnur svör við máli manna en þessi og þessu lík, þeim sje ekki þörf að svara. Hv. 1. þm. Árn. (MT) tók undir þessi ummæli hv. 2. flm. (MJ), en með dálítið vægari orðum, nefndi það sveitardráttar-pólitík, og vildi jafna málið með þægilegum viðskiftum og semja um það, sumpart með frv., sem fyrir liggja hjer á þinginu og sumpart með fögrum loforðum. Þá mælti og hæstv. atvrh. (MG), en hóflega þó, með frv., og varla af fullri einurð. Með þessu meina jeg það, að þar sem stjórnin hefir undirbúið frv. og mælir með því, þá hefði hún líka átt að hafa einurð til að bera það fram. Hæstv. atvrh. fann þó ýmislegt athugavert við frv., eins og við hinir, þar á meðal benti hann á það, að til mála gæti komið, að Reykjavík legði fram einhvern hluta af kostnaðinum, og í öðru lagi taldi hæstv. ráðh. (MG), að það gæti komið til athugunar, hvort ríkið ætti að leggja í þetta fyrirtæki, eða fjelag einstakra manna, og það er að mínu áliti mikilsvert atriði. Hæstv. ráðh. (MG) bar sem sagt fram nýjar athuganir, sem vert er að taka til yfirvegunar. Að öðru leyti mælti hæstv. ráðh. (MG) af mikilli velvild til málsins og taldi rjettmætt, að það væri fram borið vegna þess, að nú myndi nokkurt fje vera fyrir hendi til að leggja í fyrirtækið, og mun það eiga að skiljast svo, að því fje, sem safnast hefir á síðasta ári, muni ekki annarsstaðar betur fyrir komið.

Hv. meðmælendur frv. hafa að sumu leyti lagt áherslu á sitt atriðið hvor. Hv. 1. flm. (JörB) lagði aðaláhersluna á samgöngubætur sveitanna við bæina hjer við Faxaflóa, þá gætu þeir notið betri markaðsskilyrða. Háttv. 2. flm. lagði aðaláhersluna á þörf bæjanna, einkum Reykjavíkur, fyrir uppland, til að geta fullnægt sínum daglegu þörfum fyrir landbúnaðarafurðir sem mest af eigin ramleik, fara draumar hv. flm., nokkuð í sína átt hver. Það vill þá líka svo til, að þeir geta ekki rætst báðir, því að ef Reykjavík getur fullnægt sinni þörf af eigin ramleik, til hinna daglegu framleiðsluvarna landbúnaðarins, sem aðallega er mjólkin, þá hafa ekki íbúarnir austan fjalls mikils markaðs að vænta. En mjer finst nú reyndar, að úr hvorugu þurfi mikið að gera, markaðinum fyrir sveitirnar í Reykjavík eða þörf Reykjavíkur fyrir uppland, því að jeg veit ekki betur en að Reykjavík sje að langmestu leyti farin að fullnægja sinni þörf til mjólkur, sumpart með eigin framleiðslu og sumpart með viðskiftum við þá staði, sem auðveldara er að ná til heldur en austur yfir fjall. Þá taldi hv. 1. flm., að ein aðalmeðmælin með járnbraut væri þörf sveitanna til stuðnings í samkepnina við stórútgerðina hjer við Faxaflóa. Benti hann á, hvernig sveitirnar austan fjalls hafa smámsaman verið að „fjara út“, en það er ekki annað en það, sem maður veit, þetta er svona um alt land, sveitirnar eru smátt og smátt að tæmast af fólki, þær eru hægfara að leggjast í auðn. En þetta er ekki einstakt fyrir okkur, alveg það sama á sjer stað í þeim löndum, sem hafa járnbrautir. Þá vaknar spurningin: Er það aðeins fyrir járnbrautaleysið eða er það af einhverju öðru með? Það er fyrst og fremst fyrir það, að sveitirnar hafa ekki staðist samkepnina við aðrar atvinnugreinar, þar á meðal stórútgerðina og bæjalífið. Og ef járnbraut verður til eins mikils hagnaðar fyrir bæina og útveginn eins og fyrir sveitirnar, þá heldur þetta áfram óbreytt, að fólkið dragist burt úr sveitunum. Til þess að fólkinu geti fjölgað að verulegum mun austur í sýslum og Flóaræktin komi að notum, þá mun álitið að þurfi að reisa þar nýbýli, og það er líka mikið um það talað. En jeg held, að það geti komið til álita, hvort nýbýlin verða reist fyrir austan heiðina eða fyrir vesta hana. Nýbýlin verða, að minsta kosti til að byrja með, að byggjast mestpart á heysölu og mjólkursölu. Flutningskostnaður á heyinu er jafn, hvorumegin heiðar sem býlin væru. Aðstaðan til heyskaparins að vísu betri fyrir býli austan heiðar, en markaðsaðstaðan betri vestan heiðar, og auk þess stuðningur af atvinnu við útgerðina og í bæjum, og það býst jeg við að dragi meira. Af þessum ástæðum, sem jeg nú hefi vikið að, þykir mjer fullkomlega álitamál, hvort nýbýli þau, er reist verða vegna járnbrautarinnar og Flóa-ræktarinnar, verða reist hjernamegin heiðarinnar eða fyrir austan hana. En í sjálfu sjer er þetta máske ekki svo mikilvægt atriði, því það getur verið ávinningur, hvort sem fólksfjölgun verður austur í sýslum eða í bæjunum og nágrenni þeirra.

Háttv. flm. segja: Járnbraut, ekkert nema járnbraut getur komið hjer að liði. En alt fram að síðustu tímum hefir það þó verið talið álitamál, eins og háttv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ) hefir best sýnt fram á, hvort leggja ætti góðan bílveg eða járnbraut, og það er það fullkomlega enn, meðal annars af þeim ástæðum, að járnbrautir, einkum styttri brautir, eru yfirleitt að verða undir í samkepni við bifreiðarnar.

Það hefir verið fært járnbrautinni til gildis, fram yfir vegina, að hún þyrfti ekkert viðhald, en það þyrftu vegirnir árlega. Við þetta er fyrst og fremst það að athuga, að allmikill munur er á stofnkostnaði hvors fyrir sig; munurinn er um 3 milj. kr. 6% af þeirri upphæð, 180 þús. krónur, mundi verða nokkurt fje til árlegs viðhalds á veginum. Í öðru lagi hefir það og verið viðurkent, að með járnbrautinni þyrfti líka veg, svo ekki kemur þá til, að losnað verði við alt viðhald á vegum austur. Að vísu hefir það verið sagt, að sá viðhaldskostnaður yrði lítill, þar sem umferðin um veginn yrði að sjálfsögðu miklu minni. En þess ber að gæta, að hugsað er, að hinn nýi vegur verði mikið vandaðri en sá, sem nú er, og þó er ekki að vita, að viðhald á honum verði svo mikið dýrara en á þeim gamla og ljelega, þó umferðarmunur væri mikill.

Hæstv. fjrh. (JÞ) talaði þannig, að hann taldi málið ekki eiga rjett á sjer, ef það yrði til að hindra aðrar almennar framkvæmdir, en taldi forsvaranlegt, af því að ætla mætti, að járnbrautin bæri sig. Þetta verð jeg að telja mjög óákveðin ummæli. Það vantar sem sje vissuna um, hvort áætlanirnar muni standast, eða verða eitthvað nærri lagi. Áætlanir hafa oft brugðist, þótt aðeins hafi verið um stofnkostnað, og hvað þá þegar þarf að gera áætlun 10 ár fram í tímann. Og þó svo reyndist, að áætlunin væri nærri lagi, þá hlýtur slíkt stórmál, sem þetta, altaf að hindra að miklu eða töluverðu leyti aðrar framkvæmdir. Fyrst og fremst má búast við, að eitt- hvað verði tekið af því fje, sem fyrir hendi er í viðlagasjóði, og mátti skilja á hæstv. ráðherra, að hann teldi það óhætt. En því fje verður þá ekki varið til annars. Jafnframt yrði að leggja á gjaldþol manna, til að afla fjár til fyrirtækisins, og það gjaldþol, sem til þess gengi, yrði þá ekki notað til annars. Í þriðja lagi verður að taka mikið lán, en það kostar árleg útgjöld í vaxtagreiðslu og dregur frá lánstrausti landsins, ef til þess þyrfti að taka til annara hluta.

Eftir hugsanagangi sumra af formælendum þessa máls, þá eigum við að standa betur að vígi til almennra framkvæmda, eftir að hafa bundið 6–7 milj. í þessu fyrirtæki!

Samkvæmt áætlun þeirri, er liggur fyrir um stofnkostnað þessa fyrirtækis, er hann áætlaður 61/4–61/2 miljón kr. og gert ráð fyrir, að 3 ár gangi til að koma því á fót. Rekstraráætlun hefir verið gerð til 10. rekstrarárs, og á þessari áætlun ætla jeg að byggja útreikning um hinn eiginlega rekstrarhalla fyrirtækisins. Eftir áætlun þessari verður framlagið að meðaltali á ári í 3 ár nálægt 2,16 milj. kr. 6% vextir af 1. árs framlaginu verður um 12,96 þús. kr. á ári. Í 13 ár verða það því um 1 milj. 680 þús. Á sama hátt reikna jeg framlag 2. ársins, og verða vextirnir af því í 12 ár rúm 11/2 milj. og framlagi 3. ársins í 11 ár tæp 11/2 milj. Þetta verður samtals rúmar 4,6 milj. Frá þessu ber svo að draga tekjur þessara ára, og áætlun er gerð um þær á 1. og 10. rekstrarári og eftir henni má gera ráð fyrir, að þær verði að meðaltali 185 þús. kr. á ári, og það í 10 ár verða 1 milj. 850 þúsundir. það dregið frá 4,6 milj., eftir verða þá ca. 2,8 milj., sem verður samlagður rekstrarhalli til 10. rekstrarárs. Sje þetta svo lagt við stofnkostnaðinn, verður hann yfir 9 milj. En ef þessari upphæð er aftur á móti deilt á 13 ár, þá verður það um 216 þús. á ári. Mönnum kann nú að þykja þetta ekki gífurleg upphæð, en hún slagar samt upp í það, sem veitt hefir verið til allra verklegra framkvæmda í landinu sum árin.

Þá er athugunarmál, hvort það ætti að vera ríkið eða fjelag einstakra manna, sem ræki þetta fyrirtæki. Væri það fjelag einstakra manna, sem ræki það, væri fyrirfram ákveðið, hversu mikið fje ríkið legði fram, og jafnframt tæki það enga ábyrgð, hvorki á áætlun nje á rekstrarhallanum. En ef ríkið ræki fyrirtækið, þá yrði að taka ábyrgð á áætlununum, ekki aðeins á stofnkostnaðinum, heldur líka á rekstrarkostnaðinum.

Því hefir nú verið haldið fram, að þessi áætlun væri mjög varlega gerð, sem jeg ætla ekki að mótmæla, því það má vel vera rjett. En hitt er þó víst, og á það hefir verið bent með fullum rjetti, að alt til þessa hafa allar áætlanir um járnbrautina verið mjög á reiki, og væri þá næsta undarlegt, ef hún nú alt í einu væri orðin óskeikul. Og jafnframt má benda á það, að sjálfir flutningsmennirnir hafa vefengt hana, að því leyti, að þeir hafa talið hana alt of varlega!

Jeg skal fúslega játa, að þetta er stórt mál, sem á skilið alla athygli. En það á enga heimtingu á blindu fylgi.

Sum mál eru svo stór og þýðingarmikil, að nauðsyn þykir að leita um þau þjóðaratkvæðis, og jeg verð að telja þetta mál meðal þeirra, þótt jeg hinsvegar búist ekki við, að að verði gert. En því ver þykir mjer við eiga, að ætlast til, að málið gangi fram nú þegar á þessu þingi, svo að kalla án þess, að þjóðin fái nokkuð um það að vita fyr en það er orðið að lögum, Og heldur ekki kann jeg við þá lagni, sem reynt er að afla frv. fylgis með, með því að halda því fram, að áhættulaust sje að samþykkja það vegna þess, að það sje aðeins heimild fyrir stjórnina, og að hún muni þá hafa vit og varúð fyrir þinginu. Af undirtektum tveggja ráðherranna má skilja, að þeir hafa ekki viljað taka ábyrgð á málinu með því að bera það fram sem stjórnarfrv., en hinsvegar muni þeir taka fegins hendi við heimildinni, ef þeir sjeu aðeins lausir við ábyrgðina á málinu.