29.04.1926
Neðri deild: 65. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1079 í C-deild Alþingistíðinda. (2542)

103. mál, iðnaðarnám

Atvinnumálaráðherra (MG):

Eins og hv. flm. (JBald) viðurkennir, kemur frv. svo seint fram, að ekki kemur til mála, að það verði afgr. á þessu þingi. Er því óþarfi að tala mikið um það. En jeg get þó ekki stilt mig um að segja, að það er mjög svo einhliða samið, þar sem það hugsar aðeins um rjett iðnnema, og er í raun rjettri dæmi um það, hvernig frv. á ekki að vera. Slík frv. sem þetta eiga að sjálfsögðu að tryggja rjett beggja aðilja. Jeg skal geta þess, að formaður Iðnaðarmannafjelagsins hefir komið til mín og sagt mjer, að því fjelagi hafi alls eigi verið sýnt frv., og gat hann þess jafnframt, að í fjelaginu væri ekki einn einasti maður samþykkur frv. Hlýt jeg því að efast um, að það geti orðið nokkur grundvöllur undir löggjöf um þessi efni. — Jeg skal ekki hafa mikið á móti, að frv. fari til hv. allshn., því að jeg geri mjer engar vonir um, að það komi þaðan aftur.

Jeg veit, að Iðnaðarmannafjelagið hefir á prjónunum frv. til löggjafar um þetta efni, þótt það hafi eigi verið fram borið ennþá. Enda hafa ýmsir álitið, að enn væri of snemt að breyta gildandi lögum um þetta efni. Skal jeg ekki fara út í fleira að sinni.