29.04.1926
Neðri deild: 65. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1081 í C-deild Alþingistíðinda. (2545)

103. mál, iðnaðarnám

Flm. (Jón Baldvinsson):

Mjer þykir ekki ástæða til að afsaka, að Iðnaðarmannafjelaginu var eigi sýnt frv. Hæstv. ráðherra (MG) hefir játað, að í því sje mestmegnis meistarar. (Atvrh. MG: Það hefir mjer aldrei dottið í hug að segja). Nú, en það er áreiðanlega svo. Jeg get ekki sjeð, að neitt meiri ástæða væri til að senda frv. til meistarafjelags en einhvers sveinafjelagsins.

Hæstv. ráðherra (MG) sagði, að ekki væri víst, að nokkur iðnmeistari gæti sætt sig við þetta frv. En jeg er nú ekki viss um, að þeir sjeu svo sjerstaklega ánægðir með lögin frá 1893. Get jeg ekki sjeð, að það sje nein ástæða. — Vænti jeg þess, að frv. fái að fara til 2. umr.